Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mánudagur 10. júlí 2000 kl. 13:14

Svona er Grindavík í dag

Merkilegir staðir í Grindavík Um leið og ég vil bjóða ykkur velkomin til Grindavíkur, langar mig að vekja athygli ykkar á eftirfarandi stöðum í Grindavík og nágrenni. Höfnin Höfnin í Grindavík er ein stærsta verstöð landsins. Höfnin er staðsett inn í Hópi, en Rifið sem áður hindraði bátgengd inn í Hópið var grafið í sundur af atorkusömum Grindvíkingum árið 1939. Þar sem að Rifið var grafið út með handverkfærum sem teljast frumstæð í dag hjólbörum, skóflum og járnkörlum, má telja hafnargerðina í Grindavík tæknilegt afrek. Fjölda mynda frá þessum tíma er að finna á Veitingastaðnum Vör. Árið 1945 kom ,,grafvél” frá Reykjavík og var hafist handa við dýpkun og breikkun innsiglingarinnar og renna grafin að höfninni. Hver stórframkvæmdin rak aðra á árunum frá 1939-1974 sem gjörbreyttu möguleikum Grindvíkinga til sjósóknar og atvinnu. Nú standa enn yfir framkvæmdir þar sem verið er að dýpka og laga innsiglinguna og fyrirhugað er að reisa nýja varnargarða út í Járngerðastaðavíkina. Þegar þessum framkvæmdum lýkur er óhætt að telja höfnina í Grindavík eina þá bestu og öruggustu á landinu. Ég vil sérstaklega benda ykkur á að gaman er að ganga meðfram höfninni og í framhaldinu varnargarðinum inn að Járngerðarstöðum og gegnum gamla þorpið. Ég gæti veitt ykkur stutta leiðsögn um þessa leið ef áhugi er á. Sólarvé Sólarvé eftir Tryggva Hansen ætti enginn að láta fram hjá sér fara sem ferðast um Reykjanesið. Höfundur verksins er heiðinn maður og er gott að hafa hin fornu trúarbrögð í huga þegar Sólarvéið er skoðað. Hringlaga formin gefa í skyn samfélagsmyndina. Þau eiga rætur sínar að rekja til bronsaldar, tíma frjósemi og lífsgleði, þegar sólin og jarðgyðjan voru dýrkaðar. Hringurinn með eldinn og vatnið innan sinna vébanda er tákn frumþorpsins. Í gegnum mitt Sólarvéið liggur gjá en hún er í farvegi annarrar gjár og er hluti sprungukerfis sem liggur í gegnum Grindavík endilanga, allt Reykjanesið, landið og landgrunnið, en Ísland er á mótum tveggja fleka milli heimsálfanna Evrópu og Ameríku. Hóllinn er táknmynd jarðarinnar, sem er í sárum. Þá eru veggirnir umhverfis hólinn einskonar vébönd til að vernda jörðina. Vatnið varð tákn hafsins en þróaðist síðar meir, vegna skeifulaga formsins, yfir í hóffar Sleipnis, hins áttfætta hests Óðins. Sólarvéið var reist 1993 og stendur milli félagsheimilisins Festi og Íþróttamiðstöðvarinnar. Hópsnes Hópsnesið er hægt að aka, ganga og ríða, þar hafa verið merktir stærstu sjóskaðar aldarinnar við Grindavík. Á Hópsnesi er gaman að fara ef vel blæs og verða vitni að krafti brimsins. Réttina í Þórkötlustaðahverfi ættu menn að kíkja á áður en haldið er á Hópsnesið en þar er réttað 3. laugardag í september ár hvert með tilheyrandi gleði. Söguleg hús Gamla Kirkjan hefur fengið nýtt hlutverk með nýjum tímum. Hún var reist árið 1909 og var byggingarefnið fengið að mestum hluta til úr gömlu kirkjunni að Stað sem hafði staðið frá 1858. Kirkjan þjónaði Grindvíkingum allt til 1982, frá árinu 1988 hefur verið starfrækt barnaheimili í kirkjunni. Í næsta nágrenni kirkjunnar eru mörg sögufræg hús, s.s. Krosshús en þar skrifaði Halldór Laxnes Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns, læknis og tónskálds, Garðhús heimili Einars G. Einarssonar athafnamanns og fyrsta kaupmanns Grindavíkur, en þessi þrjú hús voru miklar menningarmiðstöðvar fram undir miðja öldina. Hjá þeim Einari í Garðhúsum, Sigvalda og Einari í Krosshúsum dvöldust margir af merkustu listamönnum þjóðarinnar s.s. Gunnlaugur Scheving, lismálari og nóbelskáldið Halldór Laxness. Vestan við Garðhús standa þrjú lítil hús, þau standa á jörðinni Járngerðarstöðum. Þann 20.júní 1627 réðust “Tyrkir” (Alsýringar) að Grindvíkingum og rændu fólki eins og frægt er orðið. Samkvæmt sögunni komu “Tyrkir” að landi við Járngerðarstaði og rændu þar ábúendum og lausafé. Þjóðsagan segir að þar sem blóð heiðinna manna og kristinna hafi blandast í jarðveginum hafi vaxið nýtt blóm, Þistill. Í heildina er talið að “Tyrkir” hafi rænt í Grindavík tólf manns, þar af sex frá Járngerðarstöðum. Eftir landssöfnun, bæði hér á Íslandi og í Danmörku var hægt að kaupa frelsi fyrir marga fanganna og komu þá nokkrir aftur heim til Grindavíkur, en þeir yngstu voru eftir í Alsír. Merkilegar minjar Á leið austur til Hafnarfjarðar eða Þorlákshafnar ættu menn að skoða Selatanga, en þar eru einhverjar merkustu minjar um útræði og verstöð til forna. Rétt vestan við Selatanga má finna mjög sérstæðar hraunborgamyndanir en austan við er Húshólmi, gömul en greinileg bæjarrúst. Aðrir merkilegir staðir á þessari leið eru Vigdísarvellir, Krísuvíkurberg, Djúpavatn, Grænavatn og Kleifarvatn. Í Krísuvík eru hverir og gott að skoða fugla í berginu, þar er einnig Krísuvíkurkirkja en hún var reist 1857 og er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Draugur í hvernum Á leið vestur að Reykjanesvita eru margir áhugaverðir staðir. Fyrst ber að nefna Húsatóftir en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og þar næst Staðarhverfi sem var eitt þriggja hverfa Grindavíkur áður en byggð þéttist. Brimketill er ennfremur á þessari leið, en þar er tilkomumikið að sjá brimið spýtast í gegnum ketilinn. Rétt áður en komið er að Reykjanesvita gefur að líta Gunnuhver en þar segir þjóðsagan að draugurinn Gunna hafi horfið ofan í. Reykjanesvitinn er þá næstur en fyrsti ljósvitinn á þessum stað var reistur á Valahnúk árið 1878, en núverandi viti var tekinn í notkun 1907. Frá Reykjanestá má sjá út til Eldeyjar í góðu veðri en þar er ein stærsta Súlubyggð í Evrópu og drangurinn Karl, en maki hans Kerling hefur horfið í faðm hafsins. Fallegar gönguleiðir Á leið norður frá Grindavík er rétt að benda mönnum á fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir um hraunið (sjá Reykjaneskort) og að frábært útsýni er ofan af Þorbirni. Í Svartsengi höfum við síðan Bláa Lónið sem allir ættu að þekkja og orkuver Hitaveitu Suðurnesja sem framleiðir náttúruvæna orku fyrir Suðurnesin. Þar er boðið upp á glæsilega jarðfræði sýningu í Gjánni. Nánari upplýsingar og myndir er að finna á heimasíðu okkar. www.grindavik.is Róbert Ragnarsson. Ferðamála-og markaðsfulltrúi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024