Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Svölurnar styðja verðug málefni
Berglind Sigurþórsdóttir, Oddný Björgólfsdóttir og Oddný Nanna Stefánsdóttir starfa fyrir Svölurnar á Suðurnesjum. VF-Mynd/JJK
Laugardagur 1. desember 2012 kl. 13:28

Svölurnar styðja verðug málefni

Svölurnar er félagsskapur starfandi og fyrrverandi flugfreyja og flugþjóna hjá Icelandair. Tilgangur félagsins er í fyrsta lagi að viðhalda kunningsskap og vináttu og í öðru lagi að láta gott af sér leiða. Svölurnar stóðu nýverið fyrir söfnun fyrir Sunnu Valdísi Sigurðardóttur sem er eina íslenska barnið með AHC sjúkdóminn. Aðeins 800 einstaklingar í heiminum eru með þennan fágæta sjúkdóm og af þeim sökum hafa lyfjafyrirtæki ekki séð sér fært að framleiða lyf fyrir svona fámennan hóp. Söfnunin gekk fram úr björtustu vonum.

„Söfnunin gekk mjög vel. Það myndast oft góður vinskapur á milli okkar sem höfum starfað saman sem flugfreyjur og við höfum reynt að halda honum með því að starfa saman í Svölunum. Við reynum að styrkja þau verkefni sem ríkið styrkir ekki eins og í tilfelli Sunnu Valdísar,“ segir Oddný Björgólfsdóttir, sem starfar fyrir Svölurnar hér á Suðurnesjum.

Oddný starfar ásamt þeim Berglindi Sigþórsdóttur og Oddnýju Nönnu Stefánsdóttur að sölu á jólakortum Svalanna hér á Suðurnesjum. Jólakortasalan er árleg og hefur verið órjúfanlegur þáttur í starfi Svalanna frá upphafi.  Að þessu sinni er verið að safna fyrir þremur góðum málefnum, flogaveikishundinum Víga og fyrir mikið fötluð börn sem búa saman að Móvaði 9 í Norðlingaholti. Að auki verður áfram reynt að hjálpa Sunnu Valdísi að fá lyf við sjúkdómi sínum.

„Við erum að safna fyrir þjálfun á hundinum Víga en hann á að passa þriggja ára stelpu sem glímir við flogaveiki. Hundurinn getur tekið af stelpunni fallið ef hún dettur, ýtt á öryggishnappinn, og fundið lyfin hennar þegar sjúkdómurinn gerir vart við sig. Þetta breytir alveg lífi foreldranna því nú geta þeir sofið á nóttunni. Það er vísindalega sannað að hundar skynja að eitthvað er að áður en flogakast fer af stað og geta gert viðvart,“ segir Oddný.

„Heimilið Móvað 9 er fyrir mikið fötluð börn og þau þurfa ákaflega mikið á nýjum bíl að halda. Þau þurfa að panta bíl með sólarhrings fyrirvara ef þau ætla að bregða sér aðeins frá. Við erum því að safna fyrir sérhæfðum bíl fyrir heimilið. Við munum jafnframt halda áfram að styðja við bakið á Sunnu Valdísi og vonandi tekst að útvega henni lyf.“

Jólakort Svalanna verður til sölu í verslunum Lyfju í Krossmóa, Lyfju í Grindavík og Álnabæ. Í hverjum pakka eru fjögur jólakort með umslögum og kostar pakkinn aðeins 500 krónur. Allir eru hvattir til að versla sér jólakort frá Svölunum og styðja um leið gott málefni. Frekari upplýsingar um Svölurnar má finna á heimasíðu þeirra á svolurnar.is og á Facebook síðu þeirra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024