Mannlíf

Svo þakklát fyrir þessi tíu ár
Sunnudagur 7. október 2018 kl. 08:00

Svo þakklát fyrir þessi tíu ár

- BRYN Ballett Akademían 10 ára

Bryndís Einars sló í gegn þegar hún sigraði Freestyle-danskeppni Tónabæjar um árið og síðan þá hefur dansinn dunað í lífi hennar. Í dag rekur hún listdansskóla í Reykjanesbæ sem fagnar tíu ára afmæli sínu um þessar mundir. Bryndís segist afar þakklát því að hafa fengið að kenna og kynna listdans á Suðurnesjunum fyrir rúmlega 8000 nemendum á þessum tíu árum.
 
Í dag er listdansskóli Bryndísar og fjölskyldu, BRYN Ballett Akademían, viðurkenndur listdansskóli af Royal Academy of Dance í Bretlandi og einnig af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu á Íslandi til kennslu í listdansi á grunn- og framhaldsskólastigi.  Bryndís segir þetta búið að kosta mikla vinnu „Við erum búin að fá að kenna listdans hér og það hefur ávallt verið draumur okkar. Við erum að berjast fyrir fleiri nemendaígildum á framhaldsskólastiginu til þess að fá að sitja við sama borð og aðrir skólar í Reykjavík en við erum aðeins fjórir viðurkenndir listdansskólar á Íslandi,“ segir Bryndís. 
 
Ballettnám er undirstaðan að góðum dansara
 
„Við vorum að fagna tíu ára afmæli okkar nýverið og það var svo gaman að fá alla þessa góðu gesti sem glöddust með okkur þennan dag, hátt í tvö hundruð manns kíktu í afmælið. Gamlir nemendur komu líka í heimsókn, sem var virkilega ánægjulegt. Við erum með lærða kennara hjá okkur og einnig fyrrverandi nemendur sem kenna í forskólanum og fleira hér við skólann. Við erum búin á þessum tíu árum að bæta við dansflóruna hér á landi en það er saga að segja frá því að fyrst þegar ég byrjaði með skólann þá hafði engin áhuga á ballett en það var það sem ég vildi kenna allra helst því ballettinn er undirstaða allrar danstækni og aðstoðar dansarann við að ná tökum á hreyfingum líkamans. Þú verður svo flottur dansari þegar þú hefur undirstöðu í ballett. Svo ég varð að smygla ballettinum inn í tímana mína í byrjun. Ég kenndi þá djassdans í upphafi tímans en endaði á ballett. Smátt og smátt fór ég að bjóða upp á balletttíma eingöngu og þá sá ég hvað nemendurnir tóku miklum framförum. Það er svo magnað að sjá hversu góður dansari þú verður eftir að hafa lært alla tæknina fyrst í gegnum klassískt ballettnám,“ segir hún og augun ljóma en Bryndís er sérlega lifandi manneskja.  

 
Stúdentspróf af listnámsbraut
 
Danssýningar frá BRYN Ballett Akademíunni hafa þótt mjög glæsilegar. Námið er fjölbreytt en boðið er upp á klassískan ballet, djassballett, nútímadans, danssmíði, táskótækni, karakter, Street/Jazz og einnig eru önnur dansfög kynnt nemendum. Gestakennarar koma reglulega í heimsókn og bæta þá við fleiri dansstílum. Jólasýning og vorsýning nemenda er fastur liður. Framundan er margt skemmtilegt; Dansbikar BRYN í október sem er danskeppni nemenda á aldrinum 9–20 ára og sýning framhaldsskóladeildar á Unglist í Borgarleikhúsinu í Reykjavík í nóvember. Jólasýning skólans fer fram í Menningarhúsi Andrews þann 8. desember. 
 
Eldheit áhugamanneskja um dansmenntun
 
Bryndís er eldheit áhugamanneskja um dansmenntun og hefur komið því til leiðar að dansnemendur BRYN geti sótt framhaldsnám á listdansbraut til stúdentsprófs. Framhaldsdeild skiptist í tvær brautir á kjörsviði, annars vegar sem klassískur listdans og hins vegar sem nútímalistdans. Nemendur frá henni hafa farið þessa leið í gegnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar eru þessir nemendur í venjulegu bóknámi en sækja danstíma hjá BRYN til þess að fylla upp í þá verklegu tíma sem þeir þurfa að hafa til stúdentsprófs.

Nemendur frá BRYN hafa einnig farið til Englands í listdansnám og síðast í sumar fóru fjórar stúlkur frá henni á sumarnámskeið og voru á heimavist hjá Royal Academy of Dance og stóðu sig mjög vel. Yfir hundrað nemendur tóku þátt víðsvegar að úr heiminum og fékk einn nemandi frá BRYN verðlaun fyrir bestu frammistöðuna á námskeiðinu. Stoltið leynir sér ekki þegar Bryndís segir frá þessu.

 
Þú getur alltaf orðið betri og betri
 
„Sýningar okkar fara víða en dansnemendur okkar hafa sýnt á mörgum stöðum á landinu og toppurinn er að sýna árlega í Eldborgarsal Hörpu en skólinn er orðinn mjög þekktur. Sýningarnar frá okkur hafa hlotið mikið lof alls staðar. Ég er mjög þakklát, það er svo frábært hvað við höfum fengið að kenna mörgum nemendum á þessum tíu árum. Æðislegt! Þegar ég byrjaði með þennan skóla þá var það alltaf markmið mitt að búa til frábæra dansara og ég vissi að klassískur ballett og nútímadans væri leiðin til þess.

Það er dálítið fyndið að hugsa til þess hvernig ég varð að lauma ballettinum inn í fyrstu tímana mína en í dag bjóðum við upp á tíma í ballett. Þessir nemendur fara létt með allskonar dansform eftir það nám. Ég sé það alltaf þegar ég horfi á sýningu hverjir hafa lært ballett eða nútímadans því tæknin og hreyfingarnar eru fágaðri og fallegri. Þú getur alltaf orðið betri og betri,“ segir Bryndís og það leynir sér ekki hvað hún hefur mikið metnað fyrir hönd nemenda sinna.

Í fyrsta sinn á Íslandi í BRYN voru haldin danspróf í klassískum ballett frá „International Dance Acclaim“ (IDA) sem er dansprógramm og kennsluaðferð frá Kaliforníu sem flýtir fyrir þjálfun nemenda og sýnir listrænar og tæknilegar framfarir nemenda í listdansnámi. Dómari kom alla leið frá Bandaríkjunum og fengu nemendur medalíu og viðurkenningarskjal fyrir frammistöðu sína. 
 
Draumurinn rættist á Íslandi
 
Við göngum um gangana í BRYN Ballett Akademíunni en skólinn er staðsettur í risastórri braggabyggingu rétt hjá gamla kanasjúkrahúsinu á Ásbrú, ótrúlega flott húsnæði með þremur danssölum, dansbókasafni og dansverslun. Þegar komið er inn í búningageymsluna þá byrjum við að gramsa því herbergið er svo skemmtilegt, fullt af litríkum dansbúningum og fylgihlutum. Þetta er nú eitthvað fyrir listaspírur að koma þarna inn.

„Já ég var alltaf með þetta í maganum að stofna eigin skóla, alveg frá því að ég var að kenna hjá Æfingastúdíó Bertu á Brekkustígnum. Svo liðu árin og ég bjó erlendis í ellefu ár, kláraði meðal annars leikaranám í California Institute of Arts og fór svo til Englands. Þar fór ég í ballettkennaranám í Royal Academy of Dance og er eini ballettkennarinn frá þeim skóla hér á landi.

Þessi ár erlendis gerðist svo margt skemmtilegt. Ég kynntist manninum mínum Daniel James Coaten jurtalækni og vísindamanni, hann flutti með mér heim til Íslands árið 2008. Já, við vorum nýbúin að opna skólann þegar hrunið kom og ég hugsaði hvað erum við að gera hérna?

Svo ákváðum við samt að halda áfram með planið okkar og hugsuðum að tímasetningin væri rétt þó að okkur fyndist það ekki fyrst. Við vildum trúa því að okkur var ætlað að gera góða hluti hér heima á Íslandi,“ segir Bryndís og heilsar litlu dóttur þeirra hjóna, Amelíu, sem kemur hlaupandi inn um dyrnar og beint til mömmu sinnar sem faðmar hana innilega að sér.

 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

BRYN BALLETT í 10 ÁR