Svífur um á bleiku skýi
- Viðburðarríkir sex mánuðir hjá Daníel Guðna Guðmundssyni
Síðasta hálfa árið hefur heldur betur verið viðburðarríkt hjá Njarðvíkingnum Daníel Guðna Guðmundssyni en hann fluttist aftur til Íslands um áramót eftir að hafa stundað nám í Svíþjóð frá árinu 2011. Síðan þá hefur erfingi komið í heiminn, skil á masters rigerð eru klár, hann fór á skeljarnar og landaði að lokum Íslandsmeistaratitli með Grindvíkingum í körfuboltanum.
Í Svíþjóð bjó hann ásamt kærustu sinni Lindu Ósk Schmidt en hún kemur frá Grindavík þar sem þau búa núna. Víkurfréttir tóku Daníel tali þegar skötuhjúin voru á heimleið um áramót en nú hefur ýmislegt á daga þeirra drifið síðan þá. Linda gekk þá með barn þeirra undir belti en í febrúar eignuðust þau soninn Jökul Aron. Daníel var svo önnum kafinn við að skrifa meistararitgerð eftir að heim var komið en hann segir það hafa verið strembinn en skemmtilegan tíma. „Ég gerði ritgerðina með félaga mínum frá Portúgal svo að miklum tíma var eytt á skype síðustu vikurnar fyrir skil. Síðan var nokkuð mikið að gera hjá manni bæði með litla og svo í körfunni,“ en Daníel gekk til liðs við Grindvíkinga í Domino’s deild karla þegar heim var komið. „Það mætti segja að eftir að við urðum Íslandsmeistarar og til lokaskila á ritgerðinni hafi verið býsna strembið tímabil, rúmlega tíu klukkustundir fóru í ritgerðina á hverjum degi nánast.“
Eftir að ritgerðinni hafði verið skilað inn þá var kærastan óvænt búin að bóka hótelherbergi fyrir þau og þar nýtti Daníel tækifærið og kom henni sjálfri á óvart. „Maður var nú búinn að vera með þetta á bakvið eyrað í nokkurn tíma. Konan bauð mér óvænt á hótel eftir að ég skilaði inn ritgerðinni svo mér fannst tímapunkturinn vera mjög góður þarna. Ég kom henni heldur betur á óvart í eftirréttinum þar sem ég fékk starfsfólkið á hótelinu í lið með mér til að búa til rétt andrúmsloft og skellti mér á skeljarnar, blessunarlega játti hún því,“ segir Daníel glaður í bragði.
Var ekki sáttur með eigið framlag
Eins og áður sagði gekk Daníel til liðs við Grindvíkinga í körfuboltanum en hann viðurkennir að hann hafi ekki náð að sýna sitt rétta andlit á þessu tímabili. „Ég kom inn á miðju tímabili og þurfti svo að fara aftur út til Svíþjóðar í tvær vikur um miðjan janúar vegna námsins. Ég komst í lítinn takt við liðið og var persónulega ósattur við mitt framlag, ég var nú bara slakur heilt yfir. En þá er tækifæri til að æfa meira núna i sumar og sanna sig, það er ekkert annað í stöðunni.“ Daníel sem hefur leikið með Njarðvík, Breiðablik og Stjörnunni í efstu deild fagnaði þarna sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í meistaraflokki og það var sérstaklega ánægjulegt fyrir hann. „Þetta var auðvitað mjög skemmtilegt tímabil, við með mjög sterkan hóp og frábæra liðsfélaga. Uppskárum svo vel sem var rosalega ljúft.“
„Hljómar eins og klisja en þetta er yndislegt“
Ekki skemmdi fyrir að þarna var Daníel að vinna titilinn með Jóhanni Árna Ólafssyni vini sínum en þeir voru afar sigursælir með yngri flokkum Njarðvíkur. „Við lyftum þeim nokkrum í yngri flokkunum, en þetta var sá fyrsti sem við unnum saman í meistaraflokki, sem var verulega sætt. Vonandi verða þeir fleiri á komandi árum,“ segir Daníel. Eftir útskrift naut fjölskyldan lífsins í Danmörku um skeið en Daníel viðurkennir að hann svífi hálfpartinn á bleiku skýi þessa dagana. „Það er búið að vera nóg að gera auðvitað hjá manni en þetta er búið að vera æðislegur tími. Nú getur maður aðeins andað eftir að maður útskrifaðist og notið tímans með fjölskyldunni. Foreldrahlutverkið er það yndislegasta sem ég veit um, ég veit að það hljómar eins og klisja, en það er bara þannig. Þetta gengur ljómandi vel og drengurinn er sprækur og brosir út í eitt, þau stækka hinsvegar allt of fljótt svo maður nýtur hvers augnabliks,“ segir Daníel Guðni að lokum.
Daníel er hér vinstra megin við Þorleif Ólafsson sem hampar bikarnum. Jóhann Árni æskuvinur hans er síðan hægra megin á myndinni með Sigurberg son sinn í fanginu.