Svífandi um á gullvagni á Ljósanótt - skemmtilegt kántrý-blik
Það var mjög viðeigandi að tónar sveitatónlistarinnar þjófstörtuðu Ljósanótt 2016 í gamla bíóhúsinu á Keflavíkurflugvelli. Gestir á frumsýningu á sjöttu úrfærslu Bliks í auga, Hvernig ertu í kántrýinu?, tóku vel undir í lokalaginu, Gullvagni Björgvins Halldórssonar, og fóru örugglega svífandi heim, ánægðir á sínum gullvögnum.
Aðstandendur „Með blik í auga“ hafa að mestu leytið tekið mjög þekkt íslensk og útlensk dægurlög fyrir í sínum sýningum undanfarin fimm ár við miklar vinsældir. Það var því meiri áhætta sem var líklega tekin núna með því að fara yfir í ameríska sveitatónlist. Þeir sem eiga eftir að fara á sýninguna þurfa ekki að kvíða neinu því það voru allir vel í kántrýinu á sýningunni sem skartaði stórstjörnum íslenskrar tónlistar. Björgvin Halldórsson, Eyjólfur Kristjánsson, Stefanía Svavarsdóttir og Jóhanna Guðrún stigu ekki feilpúst og ekki voru þær mikið síðri Suðurnesjasysturnar, Sólborg og Sigríður Guðbrandsdætur, þó þær séu ekki í atvinnumannadeild eins og hin fjögur. Söngurinn var í höndum þeirra en Kristján Jóhannsson kynnir opnaði óvænt sýninguna með söng og Guðbrandur Einarsson fylgdi því eftir með öðru lagi en síðan héldu þeir sig við kynningu og tónlistarflutning. Arnór Vilbergsson fyllir í tríóið með þeim og er tónlistarstjóri en þeir þrír velja lögin. Þau eru flest nokkuð eða mjög þekkt og því gat fólk sungið með en auðvitað eru einhver ekki eins vel þekkt og íslensku dægurlaugin sem flutt hafa verið undafarin fimm ár.
Kántrýið hefur alltaf verið mjög amerískt og í prógramminu fengu þekktustu lögin mestu viðbrögðin eins og „On- the road again“, „Joleene“ og „You are always on my mind“ en ekki voru viðbrögðin minni í þekktustu íslensku lögunum eins og „Mamma þarf að djamma“, „Ég er ennþá þessi asni“ og „Skýið“, að ógleymdu uppklappslaginu Gullvagninum.
Það er erfitt að toppa sig ár eftir ár sem Blikið hefur gert. Þessi hugmynd að kíkja í kántrýið var mjög góð og allur flutningur, umgjörðin, upplifunin og framsetning í Andrews er frábær. Þó svo að „smellirnir“ úr sveitatónlistinni séu ekki eins þekktir meðal fólks hér er þetta viðburður sem ég hefði alls ekki viljað missa af. Og segi þess vegna: Vel gert og haldið áfram að búa til „Ljósanætur-Blik“.
Takk fyrir mig,
Páll Ketilsson.
Hér fylgja nokkrar myndir með fréttinni en svo eru hér líka myndskeið af lokalagi og tvö myndasöfn, frá sýningunni annars vegar og hins vegar einnig skemmtilegar myndir af frumsýningargestum í Andrews.