Svekkelsi að missa af skúbbi aldarinnar
„Það er ekki erfitt að finna eftirminnilega atburði á þessu ári sem er að líða,“ segir Þorgils Jónsson, blaðamaður Víkurfrétta á árunum 2003 til 2010 þegar hann er beðinn um að rifja upp atburði árisns 2010. „Til að byrja með fæddist okkur annar sonur í febrúar með öllum þeim litlu tímamótum sem því fylgja, en við fjölskyldan fluttumst líka búferlum frá Danmörku og aftur heim á leið og búum nú á „Vellinum“. Svo lauk ég meistaranámi í Danmörku og var svo heppinn að fá nær strax góða vinnu á Fréttablaðinu eftir að ég kom heim, þannig að árið hefur verið ákaflega viðburðaríkt og ánægjulegt í nær alla staði“.
Hvað er eftirminnilegt frá árunum á Víkurfréttum?
„Ég upplifði mikla umbyltingartíma á árunum á VF þar sem skiptust sannarlega á skin og skúrir á Suðurnesjum. Uppgangur og ævintýramennska voru þar í bland við áföll og vonbrigði sem enn sér ekki fyrir endann á.
Einstakir stóratburðir eins og strand Wilson Muuga við Hvalsnes og sagan endalausa um Hitaveitu Suðurnesja eru manni enn ljóslifandi í huga, en það er engin spurning að brotthvarf Kanans og tilkynningin þar um er merkilegasti og afdrifaríkasti atburðurinn sem gerðist „á minni vakt“.
Þú misstir af skúbbi aldarinnar, Þorgils.
Já, og það sveið. Ég var kominn með góðar heimildir fyrir því að eitthvað stórt væri í uppsiglingu að morgni dagsins sem tilkynningin um brotthvarf Varnarliðsins barst. Ég missti hins vegar af skúbbi aldarinnar þegar talsmaður hersins sagði mér að ekki nokkur skapaður hlutur væri í gangi. Við þurftum svo að éta upp fréttina með öllum öðrum fjölmiðlum eftir fréttatilkynningu nokkrum tímum seinna.Því svekkelsi gleymi ég seint“.