Sveitastrákurinn baráttuglaði

 
 
Þorvaldur Örn Árnason er kominn á eftirlaun og kann því vel. Nú hefur hann tíma fyrir allt sem hann langar til. Nú getur hann sinnt hugðarefnum sínum en hann er þekktur fyrir að vera ötull baráttumaður fyrir verndun náttúrunnar. Þorvaldur Örn vaknar eldsnemma á morgnana og skellir sér í sund klukkan hálfsjö alla virka daga í sundlaugina í Vogum við Vatnsleysuströnd þar sem hann og fjölskyldan býr.
 

Kenndi í FS 

 
Þorvaldur Örn er elstur í fjögurra systkina hópi sem ólust upp saman. Hann fór aðeins þrjú ár í barnaskóla í sveitinni þar sem hann ólst upp en þá var þar aðeins skóli annan hvern dag í nokkra mánuði á árinu. Seinna fór hann í Skógaskóla og Menntaskólann að Laugarvatni. Eftir háskólanám í líffræði og kennsluréttindanám þá vann hann við stundakennslu í Háskóla Íslands. Þorvaldur hefur komið víða við á starfsævi sinni. Hann skrifaði einnig nokkrar námsbækur, var námsstjóri í Menntamálaráðuneytinu, kenndi í framhaldsskólum, meðal annars í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og endaði kennaraferilinn við grunnskólann í Vogum við Vatnsleysuströnd. 

 
Þorvaldur Örn hefur nægan tíma til að lesa bækur núna.

Stopult rafmagn á sveitabænum

 
„Ég er sveitastrákur, alin upp í Landeyjum í Rangárvallasýslu á bæ sem heitir Álfhólar. Það hefur margt breyst á þeim rúmum sjötíu árum sem ég hef lifað. Ég ólst upp við olíuljós og kerti en stöðugt rafmagn fengum við þegar ég var tólf ára. Við vorum með kýr sem við handmjólkuðum, kindur, hænur og hross. Ein útvarpsrás var á Íslandi þá sem sendi út á morgnana, í hádegi, um miðjan dag og á kvöldin en þess á milli var hlé á útsendingum. Stundum var jarðarförum útvarpað á milli morgunsendingar og hádegis. Þá hlustaði maður á jarðarför fólks sem maður þekkti ekki neitt en sálmarnir voru fallega sungnir. Útvörpin voru lampatæki og notuðu mikið af dýrum rafhlöðum en stundum liðu nokkrar vikur hjá okkur án þess að við hefðum rafhlöðu,“ segir Þorvaldur Örn og blaðamaður fylgist vel með enda ekki á hverjum degi sem við heyrum svona lýsingar úr sveitum landsins. Þar sem kýrnar voru handmjólkaðar, þá kom það ekki að sök þótt rafmagn vantaði öðru hverju, annað en í dag þegar fjósin eru með rafdrifnar mjólkandi vélar.
 
Bærinn Álfhólar eru enn í eigu fjölskyldunnar en systir Þorvaldar og dóttir hennar búa þar í dag ásamt einu barnabarni. Þær eru með mjólkandi kýr, eitthvað um tuttugu talsins, naut og kvígur. Systurdóttir Þorvaldar er einnig með mjög stórt hrossabú eða á annað hundrað  hross sem hún er að temja, rækta og selja. 

 
Þorvaldi finnst gaman að dunda í sveitinni.
 

Ókrýndur sendiherra náttúrunnar

 
„Það er gaman að eiga ennþá aðgang að sveitinni minni og styrkja rætur sínar í leiðinni. Ég fer þangað og hjálpa til á bænum, geri við og sinni viðhaldi. Nálægðin við náttúruna í uppvextinum hefur sjálfsagt skipt sköpum þegar ég ákvað að verða líffræðingur. Ég brenn fyrir málefnum náttúrunnar og hef alltaf gert. Eitt af mörgum hugðarefnum mínum er að sporna við útbreiðslu lúpínunnar. Í dag er ég í sjálfboðaliðahópi sem vaktar nokkur svæði á Reykjanesskaga en við viljum sporna við útbreiðslu þessarar plöntu. Sem betur fer er Landgræðsla Ríkisins hætt að sá henni á Íslandi því það sjá það allir hvernig  hún er að breyta ásýnd náttúru Íslands. Það hrjáir mig í dag hvað ég er forspár varðandi lúpínuna því ég er ekki saklaus. Á áttunda áratugnum var ég með í hópi fræðinga sem voru að rækta upp lúpínusvæði í landinu til þess að sporna við landfoki. Ég hafði ekki hugmynd um það þá að þessi planta yrði svona skæð sem raun ber vitni í dag. Þeir sem berjast gegn raflínum á Reykjanesskaga ættu líka að ganga til liðs við okkur, því þær raflínur verða ekki eins mikil sjónmengun og lúpínan í framtíðinni sem á eftir að þekja skagann okkar í um það bil eina öld ef ekkert verður að gert núna,“ segir Þorvaldur Örn og maður skynjar alvöru málsins.
 

Dauðans alvara

 
„Við fræðingarnir vorum á sínum tíma að þróa aðferð til að sá lúpínunni hér á landi. Gekk vel í tvö ár. Man þá að fræið spíraði illa fyrst eða um 15% og gerðum tilraunir með þau en sáum svo að lúpínan var gáfaðri en við og lætur ekki öll fræin sín spíra í einu. Hún geymir fræforða í áratugi en þetta erum við að sjá í dag þegar við hreinsum hana burt á ákveðnum stað á hundrað fermetra svæði í Krísuvík sem við höfum vaktað og séð til þess að þar hefur engin lúpína náð að sá sér í sex ár. Í sumar komu þarna samt upp 85 nýjar plöntur og 38 í fyrra þrátt fyrir hreinsun hópsins. Þarna sjáum við skýrt hvað plantan er klók og geymir fræin endalaust má segja. Opið land hentar henni mjög vel eins og er hér á Suðurnesjum. Við viljum varðveita hraunið í Reykjanesfólkvangi sem er prýtt lyngi, mosa og fléttugróðri, en plantan potar sér alls staðar. Þar sem lúpínan skríður yfir landið þá deyja aðrar plöntur eins og blóðberg, bláberjalyng og krækiberjalyng og fleira sem við þekkjum úr flóru okkar lands. Plönturnar fá ekki ljós því lúpínan skyggir á þær. Lúpínan getur vaxið í ófrjóu landi en í kjölfar hennar koma plöntur eins og kerfill sem við viljum alls ekki sjá út um allt. Það hafa margar tilraunir verið gerðar til að eyða lúpínunni á vissum blettum, en hún er erfið. Kindum hefur verið beitt á hana en þær hafa kosið að borða aðrar plöntur sem vaxa við hlið hennar því þær verða sljóar af efninu sem er í lúpínunni og hætta að mjólka. Þær eru klókar rollurnar og vilja hana ekki eftir nokkrar tuggur. Við munum  sjá allt of mikið af lúpínu í framtíðinni hér á Íslandi ef henni verður ekki haldið í skefjum. Fyrir þá sem vilja vera með í baráttunni þá erum við með áhugahóp um útrýmingu lúpínunnar á facebook sem við nefnum einmitt því nafni. Svo er ég í stjórn Sjáflboðaliðasamtaka um náttúruvernd en eitt af verkefnum okkar er að hafa hemil á útbreiðslu lúpínu á fáeinum stöðum. Það er mjög lærdómsríkt að fara í svona lúpínuferð með fróðu fólki í Reykjanesfólkvangi frá maíbyrjun til júní áður en plantan nær sér á strik,“ segir Þorvaldur Örn og á  ráð handa þeim sem vilja losa sig við lúpínuna í nærumhverfi sínu í vor en það er að stinga rótina upp með skóflu strax þá áður en hún nær sér á strik. Ekki leyfa henni að fjölga sér meira því allir góðir hlutir geta orðið vondir í óhófi bendir Þorvaldur réttilega á.

 
Sönghópurinn Uppsigling hittist tvisvar í mánuði.
 

Söngurinn léttir lund

 
Það er gott að Þorvaldur Örn getur gleymt sér við söng á milli þess sem hann sinnir baráttumálum sínum. Þorvaldur er nefnilega einn af upphafsmönnum söngfélagsins Uppsiglingar  sem hefur verið starfrækt í rúm tuttugu ár hér á Suðurnesjum. 
 
„Við hittumst annan hvern föstudag í Skátahúsinu í Keflavík og næst er það þá 23. nóvember klukkan 20:00. Þarna erum við tíu til þrjátíu manns, karlar og konur, að syngja með eigin nefi lög sem okkur langar til að syngja. Allir velja sér lag sem hópurinn syngur saman en við erum ekki með neinar nótur en mikið af söngtextum. Þú þarft ekki að syngja vel, bara hafa áhuga á því að syngja. Þessi hópur er opinn fyrir alla og það eina sem þarf er að hafa gaman af söng. Það eru sumir með gítar, mandólín og bassa og aðrir eru með hristur og ásláttarhljóðfæri. Allir syngja allt sem þeir kunna. Svo er kaffi og spjall í pásunni. Þetta er notalegt og þótt maður komi þreyttur á söngæfingu þá hressist maður eftir sönginn,“ segir Þorvaldur og vill hvetja alla sem langar að vera með að mæta næstkomandi föstudagskvöld í Skátaheimilið við Hringbraut í Keflavík. 
 

Hvernig er að eldast?

 
„Það er bara fínt. Ég er svo heppinn að vera í þokkalegum lífeyrissjóði hjá LSR og er orðinn svo mikill hátekjumaður að ég fæ nánast ekkert frá Tryggingastofnun. Ég er frískur. Ég fer í sund á morgnana og stundum í gönguferðir. Ég les dálítið af bókum og á netinu. Ég er einnig sjálfur duglegur að skrifa greinar. Mér finnst facebook vera fínn vettvangur fyrir skrifin mín. Þetta er notendavænn fjölmiðill götunnar og maður getur birt strax það sem mann langar. Ég hef gaman af því. Ég ver tímanum einnig með barnabörnunum og bardúsa í garðinum eða uppi í sveit. Við förum stundum í leikhús og höfum gaman af því. Svo hittumst við í Eldar, gömlu danshljómsveitinni sem ég spilaði með á árum áður en við vorum vinsælir á sjöunda áratugnum. Svo er ég  eitthvað í pólítíkinni og í háskóla eldri borgara hér á Suðurnesjum, U3A. Já það er bara æðislegt að eldast,“ segir Þorvaldur Örn með bros á vör og fær mann til að hlakka til að verða frjáls eldri borgari.
 
Viðtal: Marta Eiríksdóttir // marta@vf.is