Sveitapiltsins draumur
-LK frumsýnir Á stoppistöð
Það er ekki alltaf einfalt að vera unglingur og það virðist eiga við á öllum tímum eins og sjá má í verkinu Á Stoppistöð sem Leikfélag Keflavíkur frumsýndi um síðustu helgi. Það var skemmtilegt að fá þar innsýn í veröld unglingsins í dag en verkið er afrakstur samstarfs unglinga í 8., 9. og 10 bekk af Suðurnesjum með góðri aðstoð Arnars Inga Tryggvasonar og leikstjóranna Guðnýjar Kristjánsdóttur og Höllu Karenar Guðjónsdóttur. Að þeirra sögn var ákveðið að semja verk sem yrði sniðið að leikarahópnum þegar ljóst var hversu margir tækju þátt en það var ekki í boði að skilja neinn útundan.
Þátttakendur á Stoppistöð eru alls konar unglingar með misjafnar væntingar og kröfur, frá ólíkum heimilum og með ólíkan bakgrunn. Öll eiga þau þó eitt sameiginlegt og það er að vera unglingur.
Við fylgjumst með sveitapiltinum Bárði úr Hverasveit sem er nýr í Suðurnesjaskóla og þar hittir hann töffarann Sunnu Líf sem er nýkomin frá Patró og hefur prófað marga skóla. Bárður fellur ekki í kramið í lopanum sínum og með sveitafýluna og því er snögglega kippt í liðinn og úr verður Baddi brjálæðingur í leðurjakka. Hann er svoldið spenntur fyrir Sunnu Líf og ekki laust við að þetta minni á þekktan söguþráð og nemendurna Sandy og Danny í söngvamyndinni Grease þar sem hlutverkunum er snúið við. Sumt er bara klassík og á greinilega enn við í dag.
Klukkan hringir inn og við fylgjumst með lífinu í Suðurnesjaskóla, sem hefur útrýmt einelti og þótt lífið sé í dúr er sungið í moll. Það þarf ekki að koma á óvart að samfélagsmiðlar koma nokkuð við sögu og þar skapar sveitapilturinn Baldur skemmtilegar andstæður þegar hann dregur upp fílófaxið sitt og floppídiskinn en eini gemsinn sem hann þekkir eru gemsarnir hans í sveitinni. Þá dettur netið út og liggur við heimsendi - í eina mínútu. En önnur viðfangsefni eru ansi kunnugleg svo sem pirrandi mömmur með andlitið ofan í öllu, sem eru samt yndislegar.
Alls taka ríflega 40 unglingar þátt í uppsetningunni og það er líf og fjör á sviðinu allan tíman. Sýningin er brotin upp með söng og dansi og sögumenn leiða okkur röggsamlega um rangala Suðurnesjaskóla. Textinn er beittur og hnyttinn, með skemmtilegum tilvísun í samtíma sem unglingar þekkja vel og sýningin hentar öllum aldri.
Það var ekki laust við að hugurinn færi á flug og rifjaðar væru upp minningar úr gaggó, þessum undarlega tíma þegar lífið virtist stoppistöð og allt var framundan.
Leikstjórarnir Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir.
Það er ómetanlegt að hafa í bæjarfélaginu leikfélag og einstaklinga með drifkraft sem bjóða ungmennum tækifæri til þess að stíga á svið en segja má að leikhúsið stuðli markvisst að því að styrkja sjálfsmynd unglinga. Í leikhúsinu þarftu að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum og áskorunum - og skilja feimnina eftir í anddyrinu.
Til þess að styðja við slíkt ræktunarstarf þurfa bæjarbúar að mæta í leikhúsið og vökva þessa afleggjara. Ég skemmti mér konunglega og varð unglingur í annað sinn. Allir á stoppistöð!
Dagný Maggýjar
Höfundar: Arnar Ingi Tryggvason, Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir.
Leikstjórar: Guðný Kristjánsdóttir og Halla Karen Guðjónsdóttir.
Sviðshönnun: Davíð Örn Óskarsson
Sviðsvinna: Arnar Helgason og Davíð Örn Óskarsson
Ljósahönnun og keyrsla: Arnar Ingi Tryggvason
Hljóðvinnsla og keyrsla: Júlíus Freyr Guðmundsson.
Búningar og leikmunir: Hópurinn.
Hár: Hópurinn.