Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 3. janúar 2001 kl. 10:53

Svart og sykurlaust

Bæjarmálablað Samfylkingarinnar á Suðurnesjum féll í grýttan jarðveg hjá fulltrúum meirihlutans og kom það skýrt fram á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag.

Sorpriti skilað
Vildi meirihlutinn meina að í blaðinu væri dregin upp svört mynd af bæjarmálunum og jafnvel farið með ósannindi. Böðvar Jónsson (D) sagði illa farið með góðan pappír. „Á mínu heimili hafa svona blöð verið flokkuð sem sorprit og ég vona að menn vandi sig betur næst“, sagði Böðvar og skilaði sínu eintaki til ritstjórans, Jóhanns Geirdal (S).

Hagsmunir hverra?
Samruni Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar hefur verið hitamál á bæjarstjórnarfundum í Reykjanesbæ á undanförnum vikum. Ráðamenn í Vogum hafa nú lagst gegn sameiningu nema að endurmat á fyrirtækjunum fari fram. Önnur sveitarfélög hafa samþykkt samruna. Málið er því í hnút eins og er. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var málið tekið til umfjöllunar og vakti það athygli að fulltrúar Samfylkingarinnar töluðu máli hreppnefndar Vatnsleysustrandarhrepps en minntust ekki á hagsmuni Reykjanesbæjar í þessu samhengi.

Sár sannleikur
Jóhann lagði áherslu á að þó að Vogar væru lítið sveitarfélag þá mætti ekki traðka á þeim. Kristmundur spurði fundarmenn hvort þeir væru hræddir við endurmat. Auðvitað ætti að framkvæma það undireins. Hann vildi einnig meina að Margeir Pétursson, sem veitti HS og RH ráðgjöf varðandi samrunann og vinnur fyrir sjálfstætt ráðgjafafyrirtæki, væri starfsmaður Hafnarfjarðarbæjar.
Þegar fulltrúum minnihlutans var bent á að málflutningur þeirra hljóðmaði eins og þeir væru að verja hagmuni Vogamanna frekar en Reyknesbæinga, firrtust þeir við. Sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Þyrstur þjófur
Það er merkilegt hvað sumir leggjast lágt til að fá sér í tána. Heyrst hefur að íbúar í Reykjanesbæ, og víðar, geti ekki lengur kælt áfengi utandyra því þyrstur þjófur nemi jafnan veigarnar á brott. Þeir sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum auma einstakling óska honum góðrar þynnku á nýja árinu.

Dugleg börn
Afkvæmi þriggja bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa fengið viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu í íþróttum. Erla Þorsteinsdóttir, dóttir Þorsteins Erlingssonar, var valinn besta körfuboltakona ársins þegar íþróttamaður ársins var valinn á Hótel Loftleiðum á dögunum. Steinþór Geirdal, sonur Jóhanns Geirdal var valinn keilari ársins við sama tækifæri, en hann æfir nú með KR og hampar bæði Íslands- og Norðurlandameistaratitli. Jóhann Kristjánsson, sonur Kristjáns Gunnarssonar, hlaut titilinn íþróttamaður fatlaðrar í Reykjanesbæ og var númer þrjú í vali um íþróttamann ársins í Reykjanesbæ, en hann er frábær borðtennisspilari og stefnir á Ólympíuleikana árið 2004.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024