Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Svart og hvítt
Laugardagur 21. júlí 2012 kl. 13:01

Svart og hvítt

Mér gengur ekkert að fara í gegnum fataskápinn minn. Búið að liggja lengi á mér að taka ærlega til en alltaf hentar morgundagurinn betur til þessara verka. Þarna úir og grúir af allskyns minjagripum, sem ég hef ekki snert eða komist í lengi. Minningin um skjól eða skart dugar ekki lengur. Þetta verður að fara í poka og beint í Rauða krossinn. Allt heillegt og stífpressað, nokkrum númerum of lítið eða eilítið úr takt við núverandi tísku, fær að fara. Hugsunin um að einhvers staðar einhvern tímann aftur, fái þessir larfar líf á ný, heldur mér við efnið. Verst að geta ekki sagt tilvonandi eigendum frá því hvað ég upplifði í tötrunum um árið.

Þegar ég lít yfir litaúrvalið í hillunum, blasa við mér tveir höfuðlitir. Svart og hvítt. Ótrúlegt en satt, einu litleysurnar í litaskalanum, eru allsráðandi hjá mér. Blessunarlega er eitthvað af bláu, bæði í ljósu og dökku og síðan sé ég alla vega tvær rauðar golfpeysur. Í sumar keypti ég mér bæði bleika og fjólubláa skyrtu á Spáni. Fóru svo fjandi vel við brúna hörundslitinn í sólinni. Spurði hvorki kóng né prest að því, hvort þær hæfðu mér eða ekki. Frúin alla vega kinkaði kolli. Enginn Heiðar snyrtir á staðnum og afgreiðslustúlkunni gat ekki verið meira sama hvernig ég liti út. Hún vildi bara selja mér hvað sem er. Örugglega á prósentum.

Ég hef aldrei farið í litgreiningu, eins og tíðkaðist hér um árið. Mamma mín sáluga puntaði mig oftast upp á mínum yngri árum og vildi eflaust að ég hefði verið stelpa. Það máðist þó af mér litadýrðin þegar diskótímabilinu lauk og síðan hef ég haldið mig við litleysið að mestu. Síðasta litabreyting sem átti sér stað, var þegar nýja myndin af mér hér að ofan blasti við lesendum. Myndina þurfti að litaleiðrétta, svo ég liti þokkalega vel út. Svo helvíti eitthvað grár og gugginn í vetur þegar hún var tekin. Þótti við hæfi að leiðrétta mig svolítið, bara svona fyrir ímyndina! Ja, hérna hér, ég sem hélt að þetta gerðist bara hjá stjörnufólkinu vestanhafs.

Núna rígheld ég í tíu ára gamlar Levi Strauss 501 gallabuxur, sem ég hef ekki komist í frá því ég keypti þær í Ameríku. Svo flottur afturendinn á manni þegar maður er kominn í þær. Trúi því og treysti að salatið í sumar komi brókunum á réttan stað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024