Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 13:00

SVAR VIÐ NETPISTLI GYLFA GUÐMUNDSSONAR UM ENSKUKENNSLU Í FIMMTA BEKK - JÓRUNN TÓMASDÓTTIR SKRIFAR:

Fyrir hálfum mánuði birtist grein eftir mig í Víkurfréttum um enskukennslu í fimmta bekk. Gylfi Guðmundsson, skólastjóri í Njarðvíkurskóla og Guðlaug María Lewis, kennari og fagstjóri í ensku í Holtaskóla brugðust við greininni í síðustu viku og er það vel. Megininntak greinar minnar virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá Gylfa. Í stað þess að koma með málefnalega gagnrýni á kjarna hennar fellur hann ofan í þann fúla pytt lágkúrunnar að veitast fremur að greinarhöfundi sjálfum. Gylfi telur grein mína vera skrifaða af mikilli vankunnáttu á starfi og stjórnaruppbyggingu grunnskólans. Hvað ég veit eða veit ekki um grunnskólann er málinu fullkomlega óviðkomandi. Það þarf enga sérþekkingu á uppbyggingu grunnskólans og innviðum hans til að hafa skoðun á starfssemi hans. Er það ef til vill mat Gylfa að aðeins sérfræðingar um málefni grunnskólans eigi rétt á að setja fram skoðanir er hann varða? Af einhverjum ástæðum þarf Gylfi að benda á að ég hafi verið leiðbeinandi í Gagnfræðaskóla Keflavíkur á mínum yngri árum. Það kemur innihaldi greinar minnar ekkert við. Hélt hann kannski að ég væri að veitast að leiðbeinendum? Þvert á móti benti ég á að það væri ekkert náttúrulögmál að leiðbeinendur væru verri kennarar en þeir sem réttindin hefðu. En það breytir ekki því að það hlýtur að vera öllum nokkuð áhyggjuefni hversu erfitt reynist að manna skólana réttindafólki. Gylfi telur auðséð að ég fylgist illa með eða kunni ekki að lesa úr tölum þar sem ég tala um slakt gengi nemenda úr Reykjanesbæ á samræmdum prófum undanfarin ár. Gylfa ætti að vera ljóst að niðurstöður úr tölulestri þurfa alls ekki að vera einhlítar. Þær eru túlkunaratriði. Túlkun okkar á niðurstöðunum er einfaldlega ekki sú sama, viðmið okkar eru ekki þau sömu. Það sem mér þykir slakur árangur þykir Gylfa alveg þokkalegur árangur. Það er metnaðarleysi að sætta sig við að skólarnir standi sig ekki illa eða standi sig þokkalega. Markmiðið hlýtur auðvitað að vera að þeir standi sig mjög vel. Gylfi telur grein mína vera hálfgerðan brandara með tilliti til þess hversu myndarlega hafi verið staðið að undirbúningi skólastarfs á þessu hausti. Hann nefnir til einsetninguna, glæsilegan nýjan skóla, endurbætur á hinum skólunum, skólaeldhús o.fl. Ég tek undir það að margt jákvætt og gott hefur áunnist í skólamálum á síðustu árum og ég efa það ekki að ráðamenn vinni að heilindum að framgangi og þróun þeirra mála hér. En ef það er brandari að hafa skoðun á málefnum skólanna eingöngu vegna þess að svo margt hefur verið vel gert þá er illa komið fyrir skólamálaumræðu í bæjarfélaginu. Gylfi heldur því fram að ég sé að beina umræðunni í neikvæðan farveg. Er það mat hans að gagnrýni eða andstæð skoðun sé í eðli sínu neikvæð? - Franski heimspekingurinn Voltaire sagðist vera tilbúinn til að deyja fyrir rétt manna til að hafa skoðanir jafnvel þó svo hann væri ekki sammála þeim sjálfur. Viðbrögð þau sem koma fram í téðum pistli Gylfa Guðmundssonar eru ekki til þess fallin að vekja frjóar og uppbyggilegar umræður um skólamál nema síður sé. - Reyndar er Gylfi í mótsögn við sjálfan sig því hann segir að skóli eigi að vera lifandi stofnun sem leggur rækt við að gera nemendur sjálfstæða og kenna þeim að virða skoðanir og sjálfstæði annarra. Það er illa komið þegar forráðamaður skóla sjálfur kann ekki að virða skoðanir annarra. Hvernig ætlar hann þá að vera nemendum gott fordæmi? Það eru litlar líkur til að skólinn verði lifandi stofnun ef foráðamenn hans líta á hann sem einkamál sitt og einkaeign. Foreldrar hafa fullan rétt til og eiga að láta sig varða innra starf skólans. Þeir borga rekstur hans og eiga mikilla hagsmuna að gæta. Þeir eiga ekki að þurfa að sætta sig við að vera svarað með lágkúru og í hallærislegum hálfkæringi þegar þeir sýna áhuga á málefnum hans. Skýringar á því hvers vegna enskukennsla hófst ekki í fimmta bekk í Holtaskóla og Njarðvíkurskóla liggja fyrir. Hvað sem þeim líður verður ekki framhjá því litið að rannsóknir sýna að því yngri sem börn eru þegar þau taka að kljást við erlend tungumál því meiri líkur eru á að þau nái góðu valdi á þeim. Börn eiga auðveldara með að tileinka sér ný tungumál en unglingar. Nú var lag að hefja enskukennslu við tíu ára aldur og mér finnst það kennslufræðilegt óhapp að hafa ekki gripið tækifærið. Misræmi á námsframboði skólanna hlýtur einnig að valda erfiðleikum fyrir börn sem flytja milli skólahverfa. Meðan börn eru skikkuð í skólana eftir búsetu finnst mér réttlætismál að þeir séu allir sambærilegir og bjóði uppá sama nám og kennslumagn. Á hinn bóginn er ekkert athugavert við að skólarnir hafi sín sérkenni en þá þyrfti að kynna foreldrum það og gefa þeim tækifæri til að velja skóla fyrir börnin sín. Að endingu vil ég benda Gylfa Guðmundssyni á að lesa sér til fróðleiks rabbgrein eftir Vilhjálm Árnason í lesbók Morgunblaðsins 11. september 1999. Jórunn Tómasdóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024