SVAÐILFÖR Í SURTSEY
Surtsey hefur heillað marga allt frá því eyjan reis úr sæ í náttúruhamförum 1963. Í þessari grein er fjallað um ferð sex meðlima í Hellarannsóknafélagi Íslands til Surtseyjar í ágúst 1998. Tveir þessara manna eru Suðurnesjamennirnir Frímann Grímsson og Ingi Óskarsson. Aðrir leiðangursmenn voru Sigurður Sveinn Jónsson, Björn Hróarsson, Guðmundur Löve og Guðmundur Brynjar Þorsteinsson.Tilgangur ferðarinnar var almennar hellarannsóknir, kortlagning hella einnig að safna sýnum af útfellingum sem mikið er af þarna og er það samstarfsverkefni Hellarannsóknarfélagsins og Náttúrufræðistofnunar.Ingi Óskarsson hefur tekið saman þetta dagbókarbrot úr Surtseyjarævintýrinu.Þyrluflug, stuttermabolur og blankskór...Í apríl 1998 ákváðu sex meðlimir í Hellarannsóknarfélagi Íslands að fara í rannsóknaferð til Surtseyjar. þrír úr hópnum höfðu farið nokkrum árum áður frumkannað og fundið nokkra hella, einnig séð nokkur vænleg göt en ekki gefist tími til að skoða í það skiptið.Um Surtsey gilda sérstök lög og er öllum óheimil landtaka í eynni nema með leyfi Surtseyjarfélagsins og er það leyfi bæði skilyrt til ákveðinna verkefna og tímasett. Vísindamenn hafa fylgst með og skráð hvernig lífið hefur numið land á þessum hrjóstruga stað frá því að gosi lauk 1967. því er mönnum uppálagt að ganga varlega um og bera ekki með sér jarðveg og fræ frá öðrum stöðum, því þarf að þvo föt og hreinsa vel undan skóm sem nota á í eynni.Surtseyjarfélagið tók vel í erindi okkar og fengum við leyfi til fimm daga dvalar frá fimmtudeginum 27 ágúst til mánudagsins 31. Er nær dró brottför fóru línur að skýrast um tilhögun ferðarinnar og þar sem leiðangursmenn fjármögnuðu ferðina sjálfir þurfti að sníða kostnað að þröngum meðalfjárhag. Allir draumar um þyrluflug á stutterma bol og blankskóm voru miskunarlaust skotnir niður með hrikalegum upphæðum sem slíkt myndi kosta. því urðum við að fara sjóleiðina og taka land á sama hátt og víkingarnir forðum. Allur undirbúningur varð því að miðast við að farangurinn þyldi að fara í sjóinn án þessa að bíða tjón af. Fölva sló á kinn...Við áttum pantað far með Flugleiðum kl 8 þann 27. ágúst en raunin varð sú að ekki var flogið fyrr en kl 17 vegna þoku í Heimaey. Samið hafði verið við PH Víking um að ferja okkur frá Heimaey til Surtseyjar og annast undirbúning þess að koma okkur í land. Skipperinn á PH Víking tók á móti okkur á flugvellinum á Heimaey. Hann vildi skoða lendinguna í Surtsey áður en lagt yrði í þessa 20km siglingu og varð það að ráði að hann og einn úr okkar hópi leigðu litla flugvél og flugu út að eynni til að meta aðstæður. Hinir komu farangrinum af flugvellinum um borð í bátinn á meðan. Úr útsýnisfluginu komu menn með þær upplýsingar að landtaka í Surtsey liti ekki illa út og var okkur því ekkert að vanbúnaði. PH Viking er stór bátur, yfirbyggður og hannaður til útsýnisferða við Vestmannaeyjar og þar af leiðandi gerður til úthafssiglinga. Stefnan var tekin á Surtsey og þrátt fyrir mikla undiröldu var ekki slegið af enda farið að styttast í myrkur. Er nær dró eynni fyrirheitnu var ekki laust við að fölva slægi á kinn nokkura leiðangursmanna og sumum fannst lífið frekar ófyndið enda flestir leiðangursmenn örgustu landkrabbar.Farangurinn í hafið...Þannig háttar til í Surtsey að landtaka er möguleg á tanga sem gengur norður úr eynni og á ca. 40m kafla á honum var sandfjara, annars staðar brotnar aldan í stórgrýti. Veðrið var gott, hlýtt og hægur vindur þrátt fyrir það var töluverð undiralda eins og áður segir enda eyjan fyrir opnu hafi. Hafist var handa við að gera lítinn gúmmíbát kláran og tveir vaskir eyjapeyjar girtu sig þurrbúningum yfigáfu móðurskipið og réru til lands. Er þeir tóku land sáu menn að aldan var meiri en okkur hafði virst og máttu þeir hafa sig alla við að tjónka við tuðruna í öldurótinu. þeim tókst með harðfylgi að koma sér í land og ganga frá böndum milli lands og móðurskips þannig að mögulegt yrði að draga gúmmítuðruna með menn og farangur á milli. Í næstu ferð fór allur farangurinn sem var í þræl plöstuðum bakpokum og plasttunnum. það er skemmst frá því að segja að í landtökunni hvolfdist allur farangurinn í sjóinn og máttu við horfa uppá allan okkar búnað veltast um í öldurótinu og gátum ekkert aðhafst. En eyjapeyjarnir í þurrbúningunum börðust hetjulega og komu öllu í land. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar þess ef eitthvað hefði tapast af búnaði, enda við staddir á eyðieyju og langt í næstu búð.Í næstu ferð fór greinarhöfundur ásamt Birni Hróarssyni. Við söknuðum þess sárt að hafa ekki þurrbúninga en vorum þess í stað með björgunarbelti. Nokkra metra frá landi reið alda undir bátinn og þrátt fyrir það að menn í landi toguðu rösklega í og menn í móðurskipinu reyndu að halda við sló bátnum flötum og horfði ég á félagan hverfa undir bátinn. Sjálfur hékk ég hálfur út úr bátnum og komst í land blautur uppí mitti. Með næstu öldu skolaði bátsfélaga mínum á land skyrpandi sjó og sandi en óskaddaður. Í síðustu ferðinni kom restin af leiðangursmönnum þ.e. fjórir en þeir sluppu betur en við, hittu vel á ölduna og hlupu í land einungis blautir í hné. Við kvöddum eyjapeyjana tvo og voru þeir dregnir út í móðurskipið sem síðan hvarf útí myrkrið sem var nú skollið á. Við reiknuðum með að sjá þá aftur á mánudeginum þegar við yrðum sóttir samkvæmt áætlun, en það átti heldur betur eftir að breytast.Engir smákossar sem úthafsaldan gefur...Við öxluðum okkar byrðar og gengum að Pálsbæ sem er eina húsið á eynni. Pálsbær er með sex kojum, litlum eldhúskrók og litlu herbergi með einu rúmi. Húsið heldur sæmilega vatni en ekki eins vel fínlegu ryki sem er þarna á ferðinni í þurrum vindi og var allt í skálanum meira eða minna þakið þessu ryki. Ekkert rennandi vatn er í eynni en regnvatni er safnað af þakinu í tunnur. Við vorum hinsvegar svo heppnir að leiðangur sem var þarna nokkrum dögum áður á þyrlu skildi eftir handa okkur fjóra brúsa af fersku vatni. Fyrsta daginn vöknuðu menn snemma og þar sem sumir voru að koma þarna í fyrsta sinn var ákveðið að ganga um eynna og skoða sig um. Sigurður Sveinn Jónsson jarðfræðingur og formaður Hellarannsóknarfélagsins hefur komið nokkru sinnum til eyjarinnar og því féll það í hans hlut að lóðsa okkur um eynna í stilltu og fallegu veðri. Eyjan er uþb. 1,5km2 og hefur minnkað mikið eða 44% frá því að gosi lauk enda engir smákossar sem úthafsaldan gefur í vetrarstormum og hefur mælst yfir tuttugu metra ölduhæð á dufli sem er ekki langt frá eynni. Áætlað að ca. 1 hektari rofni af eynni á hverju ári. þrátt fyrir þetta á Surtsey trúlega eftir að standa um árhundruð og fær smám saman útlit hinna eyjanna í Vestmannaeyjaklasanum. Eftir skoðunarferðina og hádegisverð fóru menn að setja utaná sig helladótið og gera sig klára í það sem leiðangurinn snérist um.Í þessari grein verður ekki farið út í að greina í smáatriðum frá því hvernig hellarannsóknirnar gengu fyrir sig enda slíkt efni í aðra grein en óhætt er að fullyrða að þarna sá maður margt sem seint mun gleymast þeim sem á annað borð hefur smekk fyrir svona nokkuð.Tveir aðalgígar eru á eynni sá eystri sem gaus síðar og sá vestari og stærri sem gaus fyrr í gossögunni. Flest allir hellarnir sem við skoðuðum eru ýmist í vestari gígnum eða tengdir honum. Þarna var maður í fyrsta sinn að skríða um aðfærsluæðar gígs þar sem hraunið kom úr iðrum jarðar. Þegar hraungos hefur staðið um nokkurn tíma gerist það iðulega að yfirborð hraunsins storknar en bráðið hraun rennur undir yfirborðinu í túpum. Þegar hraun hættir að berast frá gígnum eða eðjan finnur sér aðra leið tæmist túpan og eftir stendur hellir. Þessarar tegundar eru nánast allir hellar á Íslandi og eiga ekkert skylt við þá fínu túristavæddu kalksteinshella sem Íslendingar skoða á ferðum sínum erlendis.Háttur hellamanna að troða sér í öll göt...Eitt af því sem stóð til að afreka í þessari ferð var að kanna gat í miðjum gígnum ca. 15m djúpt. Gat þetta gengur undir nafninu Marensinn því allt í kring um það er hraunið frauðkennt og mönnum finnst einna líkast því sem þeir standi á marenstertu. Reynt hafði verið að síga þarna áður en það er langt í öruggan stað til að festa siglínu og brún gatsins afskaplega ótraust. Þetta mál leystist á skemmtilegan hátt því að við ákváðum að síga fyrst í og kanna sprungu ca 30m frá Marensinum. Sprunga þessi er 12m djúp, víkkar eftir því sem neðar dregur og óvanalega mikið um fallegar útfellingar í henni. Einn okkar rak augun í gat ca. fjóra metra frá botni sprungunnar og er það nú einu sinni háttur hellamanna að mega helst aldrei sjá sprungu eða gat án þess að reyna að troða sér þar í, (má ekki taka of bókstaflega enda siðsamt áhugamál). Eftir að hafa lempað þarna niður álstiga komumst við í gatið og reyndust þarna liggja áfram hlikkjótt göng sem auðveldlega mátti skríða eftir og viti menn skyndilega sá í föla dagsbirtu. Æstust menn nú mjög og eftir smá brölt og vesen stóðu menn á botni Marensins kampakátir mjög.Einn hellirinn er geysilega stór og á kafla með eina mestu lofthæð sem sést hefur hér á landi. Hann byrjar í sprungu eða nokkuð djúpu gati með ca. 70° halla í suðurbarmi gígsins. Þarna hefur hraunið streymt frá gígnum djúpt í hálfstorknuðum hraunmassanum til sjávar. Þessi hellir endar í feikna miklu niðurfalli, girt þverhníptum hömrum á allar hliðar og er þar hæð hvergi minni en fimmtán metrar. því miður er hrunið fyrir áframhaldið en trúlegt er að þessi hellir endi í sjávarhömrum nokkur hundruð metrum sunnar. Þar eru sjávarhamranir 30-40 m. Einnig ætla ég að nefna helli sem er á austur hluta eyjarinnar því ekki tengdur títtnefndum vestari gíg heldur er hann í því hrauni sem hefur runnið frá eystri gígnum. Það sem gerir þennan helli sérstakan er það að hann endar í sjávarhömrum og þar sem stöðugt er að brotna utanaf Surtsey er þessi hellir að styttast á hverju ári. Einnig var það sérstakt við helli þennan er að þarna bjuggu hellisbúar, fýlar tveir sem áttu hvor sína hlið skuldlausa í endanum við sjávarhamrana. Ekki höfðu hellisbúar þessir mikinn skilning á vísindalegum tilþrifum vorum en létu ófriðlega mjög í hvert sinn sem við nálguðustum. Þannig urðu smá tafir á mælingum meðan reynt var að ná samningum við þessa ágætu fulltrúa íbúa Surtseyjar.Veðrið versnaði og vesnaði...Strax á öðrum degi fór veðrið að versna, hann gekk í suðaustan rok með rigningu og eina breytingin á því næstu dagana var að veðrið versnaði með hverjum deginum sem leið. Eins og áður er getið stóð til að við yrðum sóttir um miðjan dag á mánudegi en á sunnudagskvöldinu var suðaustan átta til níu vindstig og slagveður. Rétt fyrir myrkur ákváðum við að manna okkur uppí að fara og skoða aðstæður í fjörunni þar sem við lentum og þaðan sem átti að fara aftur. Er við komum á staðinn var ekki aðeins stórbrim heldur var allur sandur á bak og burt og við okkur blasti stórgrýtið. Heldur ófrýnilegar aðstæður jafnvel þó vind lægði mikið. Þarna varð okkur ljóst að eina farartækið sem kæmi okkur frá þessar eyju í bráð væri þyrla, eða “fljúgandi gírkassi” eins og fróðir menn um slíka gripi kölluðu þær. Ekki var veðurspáinn heldur upplífgandi rok og rigning eins langt og séð varð.Að deyja ekki ráðalaus...Nú fóru menn að skoða matarbirgðirnar með lengri dvöl í huga. Við vorum að sjálfsögðu með umframmagn af mat en varla til margra daga. Í skálanum var smávegis af niðursoðnum mat eitthvað af súpum, pakkakartöflumús og kornfleksi. Hinsvegar var ferkst vatn af skornum skammti og rennuvatnið með saltbragði þar sem særokið gekk yfir eynna. Á þriðjudeginum fór einnig að bera á öðru vandamáli, það stefndi í að allir GSM. símarnir yrðu rafmagnslausir og við þar með sambandslausir. En sannir hellamenn deyja ekki ráðalausir og rafhlöðum úr hellaljósum var ýmist raðað saman eða spenna felld með perum eftir því hvaða voltatölu þurfti að ná. Þannig voru allir símar hlaðnir og við vorum áfram í sambandi við ummheiminn. Ekki í dag, ekki á morgun...Haft var samband við þyrluþjónustuna en þar var okkur tjáð að þeirra vél kæmi ekki nema vindur væri undir sex vindstigum og það þyrfti að sjást milli lands og eyja. Þar sem mánudag, þriðjudag og miðvikudag var átta til tíu vindstig og skyggni sjaldnast meira en þrjúhundruð metrar var ekki um þeirra aðstoð að ræða. Menn vissu að Landhelgisgæsluþyrlurnar eru búnar blindflugstækjum og ráða við mikinn vind. Var haft samband við stjórnstöð Gæslunnar. Þar á bæ höfðu menn litla samúð með þessum strandaglópum, þeir myndu svosem ná í okkur ef við gætum sýnt framá að við værum í hættu, hugsanleg eða væntanleg hætta dyggði ekki. Okkur var því ljóst að við yrðum þarna fram undir næstu helgi hvort sem okkur líkaði betur eða verr. Við notuðum tímann og stunduðum hellaskoðun af kappi þó stundum væri það kalsamt í slagveðri að ganga frá línum og tryggingum áður en menn komust í skjól hellanna.Á miðvikudagskvöldi hljómaði spáin betur. Við hringdum í Veðurstofuna og fengum staðfest hjá veðurfræðingi að spáin fyrir fimmtudaginn væri ekki slæm, fimm til sex vindstig og sæmilega bjart veður. Á fimmtudagsmorgun vöknuðu menn snemma og hófust handa við að taka saman og ganga frá í Pálsbæ. Við vorum í stöðugu sambandi við þyluþjónustuna en vegna þoku í nágrenni Reykjavíkur urðum við að bíða til klukkan fjögur að gæfi fyrir þyrluflug. þennan dag var lítið sem ekkert borðað enda ekkert eftir nema kornfleks með hálf söltu rennuvatni.Þyrlan ferjaði okkur í tveimur ferðum til Heimaeyjar og var þessi eini póstur fjórfaldur allur annar kosnaður af leiðangrinum. Til Reykjavíkur komum við um kvöldmatarleitið svangir, skeggaðir og skítugir og taldist þá leiðangrinum lokið eftir nákvæmlega viku.Nokkurn tíma mun taka að vinna úr mælingum og rannsaka sýni af útfellingum sem tekin voru.„Palli var einn í heiminum“ tilfinning...Flestir sem stunda einhver áhugamál standa öðru hverju frammi fyrir því að svara spurninguninni “hvers vegna ertu að þessu” eða “hvernig nennirðu að standa í þessum fjanda”. Þegar áhugamálið er hellaskoðun fær maður sennilega þessa spurningu oftar en þeir sem td. spila golf eða elta einhverja gerð af uppblásnum bolta. Við svona spurningum er að sjálfsögðu ekkert eitt rétt svar og hlýtur hver og einn að svara fyrir sig. Eitt má þó með sanni segja um hellaskoðun, maður fær oft þá tilfinningu að hér hafi enginn verið áður og þegar allir dalir og fjöll hafa verið gengin, allir jöklar verið sigraðir er þetta trúlega sjaldgæf upplifun. Í Surtsey hefur þessi tilfinning aldrei verið sterkari bæði er það að tiltölulega fáir hafa komið á staðinn og klárlega enginn komið á suma þeirra staða sem við upplifðum að sjá í þessari ferð.Nokkrum dögum seinna stóð ég á einum af tindum Brennisteinsfjalla í fallegu veðri og horfði með kíki til Surtseyjar og svei mér þá það vottaði fyrir því að mig langaði aftur.