Sungið sér til ánægju
Uppsigling er félagsskapur fólks sem finnst gaman að syngja. Söngfélagarnir syngja saman annað hvort föstudagskvöld allan veturinn, oftast í Skátaheimilinu í Keflavík en stundum annars staðar, t.d. með eldri borgurum á Nesvöllum í Njarðvík eða Álfagerði í Vogum. Félagið er öllum opið og hefur nú starfað í tæp 20 ár.
Fólk syngur saman lög sem allir skiptist á um að velja, við undirleik gítara, mandólíns og stundum harmóniku auk ásláttarhljóðfæra. Félagið á þykkar möppur með söngtextum, einkum gömul vinsæl lög en einnig nokkur sjaldgæfari og jafnvel frumsamin.
Næsta söngkvöld er á föstudaginn 31. október kl. 20 í Skátaheimilinu í Keflavík. Hvernig væri að kíkja við og prófa?