Sundið fleytti þeim í gegnum námið
Sundmaðurinn Þröstur Bjarnason var valinn íþróttakarl Reykjanesbæjar árið 2016 en hann varð Íslandsmeistari í tíu greinum það árið. Hann var kallaður konungur langsundsins á Íslandi og var lengi einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins sem og burðarás karlaliðs ÍRB sem varð Bikarmeistari 2016. Þröstur og unnusta hans, Íris Ósk Hilmarsdóttir sem er einnig afrekskona í sundi, fóru bæði í nám við McKendree-háskólann í Illinois út á sundstyrk. Þröstur segist aldrei hafa verið mikill námsmaður en sundið hafi gert honum kleift að ljúka því námi sem hann hafði áhuga á.
„Ég var í tölvunarfræði og Íris í tölvunarstærðfræði, sem er að miklu leyti það sama nema tölvunarstærðfræðin er með áherslu á stærðfræði en fer ekki eins djúpt í tölvunarfræðina sjálfa,“ segir Þröstur um það nám sem þau skötuhjúin luku fyrir skömmu.
Langaði að verða flugmaður
– Ertu kominn með einhverja vinnu við þetta?
„Nei, ekki ennþá. Ég ákvað að bíða aðeins út af Covid, þannig að ég skellti mér í þjálfarann. Það er eitthvað sem mig hefur lengi langað að prófa. Ég er að þjálfa háhyrninga núna, það eru krakkar frá níu til þrettán ára. Þetta eru um tuttugu krakkar sem eru að mæta á æfingu, það er mjög gaman og fín reynsla. Svo er ég líka í Akurskóla, er stuðningur í sjötta bekk.“
– En hvernig var að vera úti?
„Það var töff – en ég er mjög ánægður að hafa gert þetta. Bandarískt samfélag er allt öðruvísi en það íslenska. Sérstaklega þarna sem ég var, í miðríkjunum, en ég er vanur að vera í Flórída þar sem afi minn og amma eiga hús. Miðríkin eru svolítið bold ef maður slettir aðeins – en þetta var mjög gaman, fín reynsla. Íris dró mig svolítið út, ég ætlaði ekkert út en hún dró mig út.“
– Þið fóruð bæði út á skólastyrk, þannig að það er óhætt að segja að sundið hafið hjálpað ykkar námsferli.
„Já, algerlega. Ég var ekki mikill námsmaður skal ég segja þér. Mér þótti ekkert sérstaklega skemmtilegt í grunnskóla og fyrstu árin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru þung. Svo kynntist ég Írisi og hana langaði alltaf út, þá setti ég meiri áherslu á námið og svo notaði ég sundið til að komast út.
Ég ætlaði að verða flugmaður, skráði mig í Keili og tók nokkra tíma þar en ég fann mig ekki alveg í því. Þá kviknaði enn meiri áhugi á að fara út því fleiri skólar opnuðust. Það er svolítið fyndið að segja frá því að það var bara einn skóli sem bauð okkur báðum samning, meira að segja nokkuð góðan samning, og það var McKendree í Illinois.“
– Íþróttir eru góður stökkpallur til að komast í nám.
„Algerlega og ég mæli mjög mikið með þessu, sama hvaða íþrótt. Það eru t.d. margir í fótboltanum að fara út.“
– Bjugguð þið á campus?
„Já, fyrsta árið okkar vorum við á Campus [háskólagörðum], annað árið leigðum við íbúð en fundum okkur ekki alveg þar svo við fluttum okkur aftur á campus. Tókum öll háskólaárin þar fyrir utan annað árið.“
– Hvað stendur svo upp úr frá þessum námsárum?
„Ég myndi segja að kynnast fólki frá öllum löndum, besti vinur minn var frá Rúanda í Afríku. Nú svo auðvitað að fara á mótin, það er keppt mjög oft þarna, miklu oftar en hérna heima. Það keppir oft eitt lið á móti öðru, þá fer annað liðið í skólann hjá hinu og keppa gegn hvort öðru. Svo er Conference, sem er svæðamót, og svo þarf lágmörk inn á nationals sem er meistaramótið. Meistaramótin standa líka mjög mikið upp úr. Ég fór á þrjá mismundandi staði, frekar langt alltaf. Við keyrðum einu sinni í fjórtán tíma, til Ohio minnir mig. Geggjað gaman að ferðast svona með liðinu. Þetta er allt svo beint þarna og maður gleymir þessu, tíminn líður einhvern veginn hraðar.“
Landsliðsverkefnin standa upp úr
– En hérna heima, hvað stendur upp úr á ferlinum?
„Ég myndi pottþétt segja landsliðsverkefnin. Held að það sé frekar augljóst. Þá fær maður að ferðast og ég hef farið víða á vegum landsliðsins, ég var í Svartfjallalandi fyrir tveimur árum, hef farið til San Marínó og allra Norðurlandanna á mót. Svo eru æfingaferðirnar fyrir utan það, þannig að maður hefur ferðast mikið með landsliðinu.“
– Og hvert er framhaldið, eruð þið komin heim til að vera?
„Já, ég ætla ekki að læra meira en Íris stefnir lengra. Hún ætlar að læra eitthvað meira. Ég ætla að bíða eftir Covid og byrja svo að finna vinnu við það sem ég lærði – svo er aldrei að vita nema maður kippi skýlunni upp aftur. Það blundar alltaf í manni að taka þátt, sérstaklega þegar maður horfir á keppnir.“
– Ertu alveg hættur að keppa?
„Já, svona að mestu. Mig langar að keppa áfram í bikar. Það er svona liðakeppni, eina liðakeppnin á Íslandi, og margir af þessum gömlu sundmönnum taka þátt í henni.“
– Hefur þú stundað aðrar íþróttir en sund? Af hverju varð sundið ofan á?
„Ég stundaði engar aðrar íþróttir neitt alvarlega, ég fór í handbolta, badminton og golf en fann mig ekki í neinni af þessum íþróttum. Ég var mikið í golfi og er byrjaður í því aftur núna, bara svona hobbí. Sund ... er lífsstíll. Ef þú byrjar og finnst það gaman þá ertu ekkert að fara að hætta.
Ég byrjaði í sundi sex ára og þótt ég muni ekkert eftir því sjálfur segir mamma að ég hafi bara fests í lauginni. Svo eins og ég segi, ef þú getur eitthvað í sundi þá ertu ekkert að fara að hætta í sundi.“
Öflugur skriðsundsmaður sem getur eitthvað í golfi
Þröstur hefur verið gríðarlega sterkur sundmaður í gegnum árin og í dag er hann handhafi sjö innanfélagsmeta ÍRB í karlaflokki. Í 25 metra laug á hann metin í 25 metra, 800 metra, 1.500 metra skriðsundi og 25 metra flugsundi. Í 50 metra laug er hann methafi í 400 metra, 800 metra og 1.500 metra skriðsundi. Fyrir utna það sem hér er upp talið á Þröstur einnig fjölmörg met í yngri flokkum.
– Hvaða grein finnst þér skemmtilegust?
„Mér finnst 400 metra skriðsund vera skemmtilegust, eiginlega allt skriðsund er skemmtilegast en 400 metrarnir langskemmtilegastir. Ég er hins vegar bestur í 1.500 og 800 metra skriðsundi, ég hef eiginlega aldrei keppt í öðru en skriðsundi. Þannig að ég er skriðsundsmaður, þar liggja mínir styrkleikar – ég get eitthvað í flugsundi en ekkert voðalega mikið.“
– Hefurðu átt þér einhverjar fyrirmyndir í gegnum tíðina?
„Góð spurning,“ segir Þröstur og gefur sér góðan tíma til umhugsunar. „Nei, ekki þannig. Maður horfði mikið upp til Edda sundþjálfara [Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar] en engir útlenskir hafa verið neinar fyrirmyndir. Kannski ég fari að spila golf með Edda, reyndar er hann yfirleitt að klára þegar ég er að mæta – hann er svo mikill morgunhani.“
– Geturðu eitthvað í golfi?
„Já, já. Ég er með sextán í forgjöf, ég get alveg slegið en það endar oftast út í móa einhvern veginn. Getur verið í lagi í Leirunni, þá notar maður bara á næstu brautir líka.“
– Spilaðir þú eitthvað úti?
„Ég fór alltaf til Flórída til afa Robba og þar spilaði maður eins og brjálæðingur. Ég spilaði hins vegar ekkert á mínu svæði.
Íris kíkti aðeins í golf með mér síðasta sumar, öll fjölskyldan mín er í golfi og pabbi hennar er í golfi. Þannig að hún er aðeins að byrja. Kannski golfsumar sé framundan.“