Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sumir hafa aldrei séð sjó
Laugardagur 28. september 2019 kl. 08:18

Sumir hafa aldrei séð sjó

Hvalaskoðun og sjóstangaveiði frá Vogum

Það er frekar hægur vindur á þessum skýjaða föstudegi og á bryggjunni má sjá álengdar blámálaðan stálbátinn Særósu en hann er í eigu hjónanna Símonar Georgs Jónssonar og Sigrúnar Daggar Sigurðardóttur sem saman reka ferðaþjónustuna Vogasjóferðir.

Ég vippa mér snaggaralega (að eigin mati) um borð og fer niður brattan stiga sem leiðir mig að farþegarýminu og þar hitti ég fyrir Símon sem er að gera klárt fyrir siglinguna. Það eru fáir farþegar í dag en með í för eru ljósmyndarar með það að markmiði að mynda Stapann frá sjó en myndirnar verða notaðar í bók um Reykjanes þar sem ægifegurð þess verður í aðalhlutverki. Þráinn Kolbeinsson ljósmyndari er að gera klárt en hann er nýfluttur til Grindavíkur, náði sér í konu þaðan og hefur verið að uppgötva Reykjanesið á ljósmyndaferðum sínum. Þá fylgist með Eyþór Sæmundsson verkefnastjóri miðlunar og markaðssetningar hjá Markaðsstofu Reykjaness sem hefur verið að kynna sér starfsemi Voga sjóferða enda nýtt fyrirtæki sem hefur mikla möguleika og er aðili í markaðsstofunni. Hlutverk Markaðsstofunnar er einmitt að markaðssetja afþreyingu á svæðinu og því best að kynna sér hana frá fyrstu hendi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fljótlega bætist Sigrún í hópinn en hún er jafnframt háseti um borð. Eftir að búið er að fara yfir öryggismálin er siglt úr höfn.

Barinn var áður ræðupúlt sjálfstæðismanna

Hjónin stofnuðu fyrirtækið Vogasjóferðir árið 2017 og ári seinna keyptu þau bátinn en þá var hann í slipp í Njarðvík og leit ekki vel út. Báturinn er nefndur eftir tveimur yngri barna þeirra hjóna, Sævari og Rós. Þau unnu saman að því að gera bátinn upp sem var mikil vinna en í farþegarými má sjá sæti úr gamalli rútu og forláta bar sem þjónaði áður sem ræðupúlt hjá sjálfstæðismönnum í bænum. Þar er hægt að kaupa léttar veitingar á ferðunum. Farþegar eru helst frá Bandaríkjunum og Kanada og bjóða Vogarsjóferðir upp á hvalaskoðunarferðir, sjóstöng og nýjasta viðbótin er norðurljósaferðir. Þá má nefna útsýnisferðir og ferðir sem bæði henta fjölskyldum, vinnuhópum og vinnuferðum t.d. hópefli og óvissuferðir.

Menn hafa húkkað sjálfa sig

Ferðasumrinu er nú að ljúka og hefur það gengið vel að sögn Símonar. „Það er engin ferð eins og ýmislegt getur komið upp á, til dæmis hafa menn húkkað sig sjálfa og fleira,“ segir hann og hlær. „Það sem mér finnst magnað er að hingað kemur fólk í siglingu sem hefur aldrei séð sjó, hvað þá siglt.“ Símon hefur verið á sjó frá tólf ára aldri og finnst þetta því auðvitað merkilegt en nú er sjómannslífinu lokið og ferðamennirnir hafa tekið við af fiskunum. Þeir eru þó sem betur fer ekki settir á ís eða í aðgerð.

Ferðirnar eru fjölbreyttar og hjónin eru opin fyrir því að brydda upp á nýjungum. „Við erum núna að skipuleggja siglingu á Ljósanótt í Reykjanesbæ en þá gefst farþegum kostur á því að sjá flugeldasýninguna frá sjó og hlusta um leið á beina útsendingu frá stóra sviðinu. Við gerðum þetta í fyrra og fólkið var mjög ánægt,“ segir Símon.

Göngin undir berginu

Við skellum okkur upp á dekk, hátt bergið á Stapanum blasir við og Símon, sem er borinn og barnfæddur í Vogum, fer yfir nöfn og staðhætti. Hann segir mér söguna af því að undir berginu megi finna göng til Grindavíkur. „Það hafa verið þjóðsögur um þessi göng og fyrir nokkrum árum fannst hér lúða með öngli sem hafði víst verið veidd í Grindavík daginn áður, kunnugir segja ekki nokkra leið að lúðan hafi náð að synda svo langt á jafn stuttum tíma. Það er aldrei að vita,“ segir Símon og brosir. Góð saga engu að síður.

Vogastapi rís 80 metra yfir sjó og liggur milli Voga og Njarðvíkur. Stapinn hét á landnámsöld Kvíkuvogsbjarg og er gróðurlítið en þar er mikið fuglalíf. „Það er ótrúlega gaman að sjá súluna þegar hún er að stinga sér ofan í sjóinn í leit að æti. Það var mikill hamagangur hér um daginn en nú sést engin súla,“ segir Sigrún.

Það hefur þótt reimt á Vogastapa enda villtust þar margir fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað fram af Stapanum eða orðið úti. Vildu menn ekki fara um Stapann að næturlagi væru þeir einir á ferð. Hver hefur ekki heyrt söguna um Stapadrauginn sem hauslaus húkkaði sér far á Reykjanesbrautinni. Svona í nýrri útgáfu af þjóðsögunni.

Stapinn lítur þó sakleysislega út þar sem hann bylgjast í áttina að Njarðvík og í fjarska má sjá þétta byggðina í Keflavík.

Krabbar og bláskel

Símon stoppar bátinn, segist hafa séð torfu og býður okkur að taka veiðistangirnar og renna fyrir fisk. Á bátnum eru fjórar stangir og þegar vel veiðist gera þau að aflanum um borð og bjóða ferðamönnum að taka með heim. Sumir hafa meira segja tekið aflann með sér í flug heim aftur.

Hvalaskoðunin hefur gengið vel og segjast hjónin sjást mest af hnísu og hrefnum nema þau fari lengra út t.d. á Garðskaga. „Annars hefur þetta mikið breyst frá því sem áður var, það er miklu meira af hval í sjónum núna en þegar ég var á sjó. Maður finnur að það er eitthvað að breytast í lífríkinu,“segir Símon.

Veiðin er heldur dræm hjá okkur svo við siglum áfram og Sigrún bendir mér á bauju þar sem ræktuð er bláskel. Nokkru utar má sjá aðra og þar eru krabbabúr. Matarkistan er því nýtt vel undir Stapa og stefna þau hjónin á það að bjóða upp á slíkar kræsingar í ferðunum næsta sumar.

Það er ekki laust við að það sé komin frammistöðukvíði í mig og ég rifja upp í huganum dorgið á bryggjunni og rykki stönginni upp reglulega. Loksins gerist þó eitthvað, hann er á og mikið rétt, hef húkkað lítinn þorsk sem spriklar hressilega á leiðinni upp vonsvikinn yfir þessu ónæði. Ég smelli á hann kossi og skila honum til baka. En fljótlega er hann kominn á hjá félaga mínum, sá er miklu stærri og er tekinn með heim. Ljósmyndaranum létti, góð mynd í höfn og þorskurinn fer í smá myndatökur með veiðimanni.

Drónaslys

Við förum undir þiljur, orðið nokkuð kalt og hásetinn um borð býður upp á kaffi. Það er gott að ylja sér á höndunum og ég nota tækifærið til að kíkja í stýrishúsið.

Ljósmyndarinn er orðinn nokkuð áhyggjufullur á svipinn, það er komin meiri hreyfing á vindinn en nú á að setja drónann á loft og mynda Stapann úr lofti. Eftir nokkrar tilfæringar er gerð tilraun sem endar snögglega, dróninn fer upp, kastast í eina veiðistöngina og lendir sem betur fer í bátnum aftur. Þannig fór um sjóferð þá.

Við snúum í land, Keilir gægist í fjarska undan Grímshóli en þaðan er gott útsýni og útsýnisskífa. Það er gott að stíga aftur á fast land, skimast eftir selnum sem að sögn þeirra hjóna hefst við i höfninni en hann lætur ekki sjá sig. Sný mér við og kveð Vogastapa áður en ég held í átt að bílnum. Vona að Stapadraugurinn húkki ekki far.

Dagný Maggýjar.