Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar opnuð 14. maí
„Eitthvað í þá áttina“ sýning um kortagerð, skrásetningu og staðsetningu opnar laugardaginn 14.maí kl. 15.00 í Listasafni Reykjanesbæjar.
Á sýningunni er reynt að varpa ljósi á mismunandi nálgun og vinnuaðferðir listamanna sem fjalla um kort, staðsetningu og skrásetningu í verkum sínum.
Sumir þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni vinna markvisst út frá efninu, á meðan aðrir hafa staldrað þar við en síðan haldið í aðrar áttir. Val á verkum spannar 30 ára tímabil en sum eru unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu.
Samtímis er fléttað inn í sýninguna landfræðilegum kortum og öðru minnisverðu, frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og með því er teflt saman skráningarþörf úr listheimi og raunheimi í von um að úr verði spennandi samtal.
Eftirfarandi listamenn eiga verk á sýningunni;
Ásta Ólafsdóttir, Bjarni H.Þórarinsson, Didda Hjartardóttir Leaman, Einar Garibaldi Eiríksson, Etienne de France, Eygló Harðardóttir, Gjörningaklúbburinn, Hildigunnur Birgisdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Inga Svala Þórsdóttir, Ingirafn Steinarsson, Katrín Sigurðardóttir, Kristinn E.Hrafnsson, Kristinn G.Harðarson, Kristín Rúnarsdóttir, Pétur Örn Friðriksson, Sólveig Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Þorgerður Ólafsdóttir.
Sýningarstjórar eru Didda H.Leaman og Inga Þórey Jóhannsdóttir.
Sýningin stendur til 22. ágúst
Listasafn Reykjanesbæjar er opið virka daga frá kl. 12 - 17 og um helgar frá kl. 13 - 17.