Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar opnuð
MANNFÉLAGIÐ í Duus safnahúsum
Sumarsýning Listasafns Reykjanesbæjar, sem að þessu sinni ber heitið Mannfélagið, var opnuð sl. laugardag. Á sýningunni eru verk eftir 21 listamann, aðallega málverk, en einnig er þar að finna ljósmyndaverk og skúlptúr.
Elstur þessara listamanna er Ásgrímur Jónsson (1876-1958), en yngstur Aron Reyr (f. 1974). Listamennirnir eiga það sammerkt að vinna með margháttaðar birtingarmyndir mannlegra samskipta, ýmist beint og umbúðalaust eða með táknrænum hætti. Sjónarhorn þeirra getur verið einkalegt, faglegt eða félagslegt.
Líta má á þessa sýningu sem eins konar framhald á hinni vinsælu sýningu Kvennaveldið, sem sett var upp í safninu í byrjun árs. Í báðum tilfellum er grennslast fyrir um hlutlæga myndlist á Íslandi, og hvað það er sem höfundar slíkra mynda vilja segja okkur um hugmyndir sínar og viðhorf.
Á þessari sýningu fjalla 10 konur og 11 karlmenn um samskiptamáta manneskjunnar og þær aðstæður sem kveikja mannleg samskipti. Flestir listamannanna virðast þeirrar skoðunar að Íslendingar myndi náin tengsl sín á meðal fyrst og fremst gegnum sameiginlega iðju, vinnu eða tómstundir, fremur en brýna tilfinningalega þörf. En sýning af þessu tagi er ekki félagsfræði; fyrst og fremst vekur hún okkur til umhugsunar um tungumál og sýnileika tilfinninganna.
Flestar myndanna á sýningunni eru fengnar frá tveimur helstu söfnum landsins, auk þess sem listamennirnir sjálfir hafa lánað nokkrar myndir sem ekki hafa fyrr komið fyrir almennings sjónir. Á sumarsýningunni eru verk eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Aron Reyr, Ásgeir Bjarnþórsson, Ásgrím Jónsson, Baltasar, Barböru Árnason, Birgi Snæbjörn Birgisson, Finn Jónsson, Gunnar Karlsson, Gunnlaug Scheving, Helga Þorgils Friðjónsson, Hlaðgerði írisi, Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur, Karen Agnete Þórarinsson, Karólínu Lárusdóttur, Söru og Svanhildi Vilbergsdætur, Sigríði Melrós Ólafsdóttur, Sigurð Guðmundsson, Stefán Boulter, Tryggva Magnússon og Þórdísi Aðalsteinsdóttur. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duus Safnahúsum og þar er opið alla daga frá l. 12.00-17.00.