Sumarspjall: „Varla góður Íslendingur ef maður hefur ekki séð Jökulsárlón“
Bergsveinn Alfons Rúnarsson starfar sem þjónustustjóri í farþegaafgreiðslu IGS. Hann segir sumarið ekki hafa með heitasta móti hingað til og hann sé farinn að hlakka til að komast í sumarfrí.
Hvernig hefur sumarið verið hingað til hjá þér?
„Heyrðu það hefur verið kalt bara, en ágætt svosem, maður er bara að telja niður í sumarfríið sem byrjar í ágúst.“
Hvað fer á grillið hjá þér?
„Það er lítið sem fer ekki á grillið, góð nautasteik klikkar aldrei.“
Á að ferðast eitthvað innanlands í sumar?
„Já við ætlum að skella okkur til Eyja í nokkra tíma, svo ætlum við að fara að skoða Jökulsárlón og Svartafoss. Maður getur varla talist góður Íslendingur og aldrei hafa séð lónið fræga.“
En erlendis?
„Konan er víst að plana verslunarferð til Boston í september.“
Hvað á annars að gera í sumarfríinu?
„Bara hafa það rólegt og rækta minn innri mann og fjölskylduna.“
Er eitthvað sem er einnkennandi fyrir íslenskt sumar að þínu mati?
„Já hvað mig varðar þá verður alltaf brjálað að gera í vinnunni, ferðalangarnir verða víst að koma loftleiðina til að skoða landið okkar.“
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?
„Byrjum á að fara upp í bústað og ef eyjan góða kallar á sunnudeginum þá er aldrei að vita nema maður skelli sér.“