Sumarspjall: Held áfram að vinna tengdó í golfi
Friðrik Erlendur Stefánsson lagði körfuboltaskóna á hilluna nú í vor eftir glæsilegan feril með KFÍ og Njarðvíkingum. Friðrik segir það vera ljúft að þurfa ekki að vera að tapa sér á æfingum lengur þrátt fyrir að hann sakni óneitanlega félagsskaparins í körfunni. Mest kemur honum þó á óvart að hann skuli ekki vera valinn í landsliðið. Við spurðum Friðrik um hvað hann væri að bralla í sumar en hann er þessa stundina í fæðingarorlofi.
Hvernig hefur sumarið verið hingað til hjá þér?
Bara flott þrátt fyrir að það hafi byrjað seint.
Hvað fer á grillið hjá þér?
Humar frá Humarsöluni steiktur í sítrónusmjöri og Flott T Bone steik með kryddsmjöri og bakaðri kartöflu.
Á að ferðast eitthvað innanlands í sumar?
Já eitthvað verður það, veit bara ekki hvert verður farið.
En erlendis?
Nei reikna ekki með því, en kannski vinn ég í lottó.
Hvað á annars að gera í sumarfríinu?
Slappa af og halda áfram að vinna tengdó í golfi
Er eitthvað sem er einnkennandi fyrir íslenskt sumar að þínu mati?
Umferð á föstudögum og sunnudögum.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina?
Ég ætla allavegana ekki að styrkja ÍBV um 16.900 kr. Kannski í mesta lagi 8.000 kr ef það kemur heimþrá í mann.