Sumarnámskeið í kvikmyndagerð fyrir krakka og unglinga á Suðurnesjum
Kvik og Leik er sumarnámskeið í kvikmyndagerð fyrir krakka og unglinga á Suðurnesjum, í tveimur aldurshópum; 4. - 7. bekk (9 til 12 ára) og 8. - 10. bekk (13 til 16 ára). Skráning er nú í fullum gangi á námskeiðið. Hvert námskeið stendur í eina viku frá mánudegi til föstudags, frá klukkan 9 til 15. Kennd verða fjögur námskeið , tvö fyrir hvern aldurshóp, á tímabilinu 15. júní til 10. júlí.
Eins og komið hefur fram áður verða námskeiðin haldin að Minni Vogum og er partur af menningarverkefninu Hlöðunni. Á námskeiðinu verður hlaðan einmitt nýtt sem upptökustúdíó fyrir tilraunir með grænan bakgrunn ( greenscreen ) og upptökur á tónlistarmyndböndum þar sem krakkarnir verða bæði fyrir framan og aftan tökuvélina.
En neðri hæð hússins ( sem áður hefur verið notuð sem listamannaíbúð ) verður fyrir eftirvinnslu, klippingu , hljóðsetningu og fleira. Einnig höfum við aðstöðu í félagsmiðstöð Voga þar sem er góð aðstaða fyrir fyrirlestra og bíósýningar.
Á námskeiðinu verður farið í gegnum kvikmyndagerðarferlið frá hugmyndavinnu til endanlegrar framkvæmdar. Komið verður inn á: Forvinnu verkefna; hugmyndavinnu, storyboard og handritsvinnu. Framkvæmd; myndataka, green screen upptökur, tækjabúnað o.fl. Og eftirvinnslu; klippingu, hljóð oþh. Einnig verður fjallað um kvikun (hreyfimyndagerð) og þær fjölmörgu leiðir sem færar eru til að koma sýn sinni á framfæri.
Lögð verður áhersla á leik og skemmtun við kvikmyndagerðina og tilraunastarfsemi. Markmið námskeiðsins er að krakkarnir geti haldið áfram að leika sér í kvikmyndagerð þegar námskeiðinu lýkur með þær græjur sem þeir hafa aðgang að.
Endilega kíkið á vefinn hladan.org/kvik-og-leik fyrir nánari upplýsingar og skráningu en þar eru einnig símanúmer hjá kennurunum þar sem hægt er að spyrja nánar út í námskeiðið.
Þess má geta að námskeiðið fékk styrk frá Menningarráði Suðurnesja,
sjá link: http://www.sss.is/Forsida/SSS/Frettir/Nanar/721 en án hans væri illmögulegt að bjóða uppá eins veigamikið námskeið á viðráðanlegu verði. En námskeiðsgjald er einungis 10.000 krónur og þá er allt innifalið; DV-spólur, vinnuhefti, DVD diskur og annar efniskostnaður.
Kennarar eru tveir, Guðný Rúnarsdóttir og Markús Bjarnason. Þau hafa nýlokið gerð heimildarmyndarinnar Friur Fantasiur sem var tekin upp í Færeyjum. Guðný nam við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og kvikmyndafræði í Háskóla Íslands. Guðný hefur haldið myndlistarnámskeið fyrir krakka á Íslandi og í Færeyjum. Markús er tónlistar og kvikmyndargerðarmaður og stundaði nám við Kvikmyndaskóla Íslands og hefur unnið ýmis störf við kvikmyndagerð á Íslandi, m.a. leikmyndagerð og framleiðslu 6 stuttmynda fyrir RÚV. Markús hefur undanfarin sumur unnið með unglingum hjá Vinnuskólanum í Reykjavík.
Gestakennarar námskeiðsins verða Hildigunnur Birgisdóttir, Þórey Mjallhvít Heiðardóttir Ómarsdóttir og Rebecca Moran.
Hildigunnur er myndlistamaður og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga. Hún hefur unnið með video í list sinni og starfar nú hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Þórey útskrifaðist 2003 úr The International Film School of Wales með B.A. gráðu í hreyfimyndagerð. Hún vann í 3 ár við teiknimyndagerð í Wales en hefur einnig framleitt og teiknað sínar eigin stuttmyndir. Þórey hefur, síðastliðinn vetur, kennt krökkum hreyfimyndagerð / kvikun hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Rebecca er bandarísk að uppruna en hefur verið búsett hér á landi frá árinu 2005. Hún útskrifaðist frá School of the Art Institute Chicago Illinois (USA) árið 2000. Frá árinu 2001 var hún búsett í Rotterdam þar sem hún starfaði meðal annars að myndbandslist (videoart). Hún er nú starfsmaður RIFF (Reykjavík International Film Festival) ásamt því að vera sjálfstætt starfandi listamaður. Rebecca leggur nú stund á nám í kennslufræði listagreina til kennsluréttinda við Listaháskóla Íslands.
Til þess að skrá sig sendið tölvupóst á netfangið : [email protected]
hladan.org
hladan.org/kvikogleik/