Sumarlestur í fullum gangi
Það er enn hægt að byrja í sumarlestrinum á Bókasafni Reykjanesbæjar. Fjölmörg börn hafa lesið af kappi frá júníbyrjun og síðustu bókinni í sumarlestrinum verður ekki lokað fyrr en 31. ágúst. Þangað til er býsna langur tími en það er stutt á bókasafnið og auk þess notalegur staður til að vera á.
Markmið sumarlesturs er tvíþætt, annars vegar að hvetja börn til lesturs og kynna þeim unaðsheim bókmennta en hins vegar að auka lestrarfærni þeirra. Hætta er á að ung börn staðni í lestri yfir sumarmánuðina ef þau halda lestri ekki áfram og fari jafnvel aftur.
Í sumarlestri bókasafnsins er lögð áhersla á að foreldrar aðstoði börnin, t.d. við að finna bækur sem hæfir lestrarkunnáttu hvers og eins. Lestur sem ekki reynir á huga og getu gerir lítið gagn fyrir barnið. Sama á við um of þungar bækur, barnið gefst upp. Hæfileg áreynsla er best, þá er lesið til gagns.
„Bók er best vina“. Meðfylgjandi mynd er verðlaunamynd Margrétar Birnu Valdimarsdóttur í ljósmyndamaraþoni á vegum Bókasafnsins og Fjörheima árið 2000.