Mannlíf

Sumarfríið: Magnað að gista í Ásbyrgi
Myndatexti: Anna Margrét ásamt eiginmanni sínum Inga Þór Ingibergssyni og börnum þeirra, þeim Bergrúnu Írisi og Skarphéðni Óla. Á myndinni má líka sjá tíkina Mýru. Myndin var tekin í Lystigarðinum á Akureyri síðasta sumar.
Laugardagur 2. júlí 2016 kl. 06:00

Sumarfríið: Magnað að gista í Ásbyrgi

- Búin að fá tengdamömmubox lánað fyrir sumarfríið

Anna Margrét Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá Bókasafni Reykjanesbæjar og jógakennari, ætlar að ferðast um landið með fjölskyldunni í sumar. Draumasumarfríið væri að keyra í rólegheitum í kringum landið, á húsbíl.

Hvernig verður sumarfríið hjá þér í ár?
Sumarfríið í ár verður fyrsta heila sumarfríið okkar hjóna saman og erum við bara að verða nokkuð spennt að getað slakað á með börnunum. Við fengum lánað tengdamömmubox og getum því komið hundi, börnum, tjaldi og öðrum farangri í bílinn. Við ætlum að fara norður á Akureyri en þar á ég nokkrar góðar vinkonur sem gaman verður að hitta. Það er líka alltaf svo gaman að fara á Akureyri en ég bjó þar á háskólaárunum og þykir voðalega vænt um bæinn. Við ætlum líka að fara í sumarbústað og heimsækja fjölskylduna mína eitthvað en flestir eru á Selfossi og í Hveragerði. Einnig gefum við okkur tíma í fjallgöngur, jóga og mögulega eitthvað golf ef meirihluti fjölskyldunnar fær að ráða!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftirminnilegasta fríið?
Minnið mætti nú mögulega vera betra en ég nefni sumarfríið í fyrra. Þá fórum við fjölskyldan með tjald norður í land og gistum meðal annars í Ásbyrgi. Það þótti mér vera magnað, alveg heiðskýr himinn, náttúrufegurðin engu lík og svo var svo gaman að ferðast aðeins um svæðið. Ég bara elska Ísland!

Hvert væri draumasumarfríið?
Draumasumarfríið er sennilega að hafa nægan tíma og fara umhverfis landið, helst á húsbíl. Ég hugsa að það sé heppilegt. Svo hefur mig alltaf langað til Ítalíu og væri mjög til í að fara með fjölskyldunni minni þangað að borða góðan mat og njóta menningar beint í æð.
Mesti draumurinn við sumarfrí, sem sérhver manneskja skapar sér sjálf, er að njóta! Teygja makindalega úr sér á hverjum morgni, fá sér kaffi í rúmið, lesa góðar bækur, hreyfa sig, fara í sund og njóta alls þess góða sem hver staður hefur upp á að bjóða.