Sumarfrí, BA-ritgerð og fluga sem gæludýr
Inga Fanney Rúnarsdóttir er einn fjölmargra Grindvíkinga sem fluttir eru í Reykjanesbæ, n.t. í Njarðvíkurhlutann. Hún ætlar að njóta með fjölskyldunni í Svíþjóð til að fylgjast með frænku sinni keppa fyrir Íslandshönd í körfubolta, ætlar norður í frí en þarf líka að vera dugleg, ætlar sér að skila einu stykki BA-ritgerð.
Nafn, staða, búseta: Inga Fanney Rúnarsdóttir, búsett í Njarðvík í augnablikinu.
Hvernig á að verja sumarfríinu? Ég ætla að njóta með fjölskyldunni í Svíþjóð að fylgjast með dóttir systur minnar spila fyrir Íslands hönd með u18 í körfubolta. Fór einnig norður í byrjun sumars. Restin af sumrinu er svo sem ekkert þræl skipulögð, samvera með fjölskyldu og vinum. Njóta tímans með dóttur minni ásamt því að vinna og klára eitt stk BA-ritgerð.
Hver er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi og af hverju? Einfalt. Grindavík. Þar á ég heima, þar ólst ég upp og þar eru minningar af besta samfélagi sem maður getur óskað sér. Söknuðurinn er mikill.
Hvaða stað langar þig mest á sem þú hefur ekki komið á (á Íslandi og eða útlöndum)? Ég á eftir að skoða Vestfirðina, það væri draumur að gera það einn daginn. Svo langar mig að heimsækja Suðurríkin í USA sem inniheldur skemmtilega matarmenningu, áhugaverða pólitík og samtöl sem myndu skilja mikið eftir sig myndi ég trúa. En svo langar mig að sjálfsögðu að heimsækja þessa týpísku áhugaverðu staði sem maður veeeerður víst að heimsækja.
Er einhver sérstakur matur í meira uppáhaldi á sumrin? Er eitthvað betra en grill í sólinni? Kjöt, fiskur og grilllykt! Love it
Hvað með drykki? Ískaldur lite á krana! Hann er reyndar ekkert síðri á veturna.
Hvað með garðinn, þarf að fara í hann? Já. Ég á geggjaðan garð í Grindavík sem þarf að slá, en ég mun afhenda húsið í lok sumars. Þá verður garðurinn nýsleginn og húsið í toppstandi. En hér í Njarðvíkinni er bara möl.
Veiði, golf eða önnur útivist? Ég ætla að reyna að vera dugleg í golfi með Hildigunni vinkonu minni, en ég segi þetta svo sem á hverju ári. Kannski er þetta árið! Annars finnst mér best að hreyfa mig úti, hvort sem það eru göngutúrar eða útihlaup. Var dugleg á Þorbirni áður en hann fór að vera með stæla.
Tónleikar í sumar? Ekkert planað, en hver veit nema ég endi á einhverju sniðugu.
Áttu gæludýr? Nei takk, dóttir mín er samt með flugu sem gæludýr akkurat þessa dagana. Veit ekki hvort það telur.
Hver er uppáhaldslyktin þín (og af hverju)? Þetta er erfið spurning, þar sem þetta er svona sumar-viðtal þá finnst mér réttast að svara lykt af nýslegnu grasi, grilllykt, góðum sumarilm eða eitthvað álíka. En ég verð bara að nefna að ég elska bílskúrslykt hahaha
Hvert myndir þú segja erlendum ferðamanni að fara/gera á Suðurnesjum? Ég myndi benda honum á að skella sér í Lónið, skoða allt sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða eins og Brimketil, Gunnuhver, Reykjanesvita og þar í kring, Sandvík, Brúin milli heimsálfa. Hinumegin við Grindavík væri þá að skoða í kringum Krýsuvík, Kleifarvatn, Selatanga og Fagradalsfjall. Æ það er margt fallegt sem Suðurnesin hafa upp á að bjóða og margt hægt að skoða. Vonandi fer bara okkar fallegi bær að opna sem fyrst svo það verði hægt að keyra þar í gegn til að toppa ferðina ;)