Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sumarbúðirnar Kaldárseli - Náttúra - Útivist -  Ævintýri
Þriðjudagur 2. maí 2006 kl. 13:48

Sumarbúðirnar Kaldárseli - Náttúra - Útivist - Ævintýri

Skammt ofan við Hafnarfjörð er að finna eina fegurstu náttúruperlu höfuð- borgarsvæðisins. Hraunið með óteljandi hellum, móbergsfjallið Helgafell, eldstöðin Búrfell og Valaból hafa verið óþrjótandi uppspretta ævintýra og útivistar í gegnum árin. Í þessu umhverfi hefur Kaldársel, sumarbúðir KFUM og KFUK verið starfrækt í rúm áttatíu ár.

Í sumarbúðunum í Kaldárseli hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að virkja athafnaþrá og leikgleði barnanna samhliða uppbyggilegri leiðsögn í mannlegum samskiptum og fræðslu um kristna trú. Dagarnir eru fljótir að líða enda rík áhersla lögð á fjölbreytni í dvalarflokkunum. Skipulag hvers dags tekur mið af þörfum 7-11 ára barna. Að morgni dags er samverustund með fræðslu og söngvum. Eftir hana er frjáls tími þar sem börnin geta leikið sér við ána, úti í hrauni, á smíðavelli, íþróttavelli eða íþróttasal. Þá gefst einnig tími til að fara í kassabílarallý eða sveifla sér í aparólunni. Eftir hádegi er lögð áhersla á útiveru, gönguferðir, hestaferðir og leiki. Í gönguferðunum er gjarnan gengið á næstu fjöll eða hellar í nágrenninu kannanaðir. Álfakirkjan er alltaf vinsæl hjá börnunum. Hægt er að klifra upp á hana, og ofan af henni er útsýni til allra átta. Boðið er upp á hestaferðir í sumar undir leiðsögn starfsfólks Íshesta. Að loknum kvöldmat eru haldnar kvöldvökur þar sem starfsfólk og börn bregða á leik og eiga góðar stundir saman.

Í sumar verður boðið upp á tíu dvalarflokka í Kaldárseli á tímabilinu 6. júní til 18. ágúst. Sumarið 2006 verður eingöngu boðið upp á fimm daga flokka, en þeir eru frá mánudegi til föstudags.

Upplýsingar um flokkana og skráningar er hægt að nálgast á vefnum www.kfum.is eða á skrifstofu KFUM og KFUK í síma 588 8899.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024