Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 15. mars 2000 kl. 16:26

Suðurstrandarvegurinn er mikilvægur fyrir Grindavík

Uppalinn í Keflavík Róbert er sonur hjónanna Ragnars Marinóssonar og Rósumundu Rúnarsdóttur. Þau bjuggu í Keflavík en þegar Róbert var sex ára gamall skildu þau og Róbert flutti ásamt móður sinni til Reykjavíkur og bjó einnig um tíma í Lúxemborg. „Ég flutti aftur til pabba í Keflavík, þegar ég var tólf ára gamall og kláraði stúdentspróf frá FS af sálfræði- og uppeldisfræðibraut. Eftir stúdentsprófið kenndi ég einn vetur í Grindavík, íslensku og sögu í 9. og 10.bekk.“ Róbert sagði þó ekki skilið við skólann og hóf nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands haustið 1996. „Ég er búinn með tvö ár af þremur í stjórnmálafræðinni. Ég ætla að klára námið næsta vetur“, segir Róbert. Viðamikið starf Þegar Róbert er spurður að því í hverju starf hans felist þá segir hann að markmið hans sé að gera Grindavík eftirsóknaverðari fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem hafa áhuga á að flytja til bæjarins. „Ferðaþjónustan er sú þjónusta sem hefur verið í hvað mestum vexti að undanförnu og því mun ég leggja svolitla áherslu á ferðamálin á næstu árum“, segir Róbert. Hvaða aðferðum ætlar sveitarfélagið að beita til að laða að sér fólk og fyrirtæki? „Grindavíkurbær getur t.d. sett ákveðnar reglur um gjöld og annað slíkt. Kynnt þá þjónustu sem hér er og stuðlað að því að hér sé gott að búa”, segir Róbert. Miklir framtíðarmöguleikar í Grindavík Róbert er ekki í vandræðum með að svara þegar hann er spurður að því hvað sé svona eftirsóknarvert við Grindavík. „Við höfum aðgang að mjög góðri höfn, góðu vegakerfi og nálægt flugvellinum, svo samgöngumálin eru í góðu lagi. Hvað atvinnu snertir þá erum við mjög vel sett og með tilkomu Suðurstrandarvegar verðum við alveg miðsvæðis á risastóru atvinnusvæði. Það er stutt að aka frá Grindavík, bæði til Reykjavíkur, Keflavíkur og Árborgar og svo erum við með Bláa Lónið, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi“, segir Róbert og maður fær það á tilfinninguna að þarna sé stórhuga maður á ferð sem veit meira um markaðsfræði en hann vill vera að láta. Róbert bindur líka miklar vonir við orkuverið, sem framleiðir bæði umhverfisvæna og tiltölulega ódýra orku. „Við höfum mikinn áhuga á að þróa svokallaðan grænan iðnað þar sem væri jafnvel hægt að nýta umframorku frá Hitaveitunni. Ein hugmyndin er að hefja ylrækt í Svartstengi, í samstarfi við MOA. Við vorum reyndar byrjuð á því verkefni, það tafðist en ég á von á að það fari í gang aftur núna“, segir Róbert og bætir við að stærstu verkefnin sem sveitarfélagið vinnur að, eru í samstarfi við MOA og þá vinnur Róbert sem eins konar svæðistengiliður. Suðurstrandarvegurinn Talið berst aftur að Suðurstrandarveginum, enda á sá vegur eftir að breyta miklu fyrir Grindavík. „Við erum að pressa á að það verði byrjað á honum á þessu kjörtímabili, því við viljum tryggja að hann komi inn í Grindavík, og fari ekki upp fyrir byggðina. Ég held að það sé alveg öruggt að hann verði kláraður á næsta kjörtímabili því vegurinn verður orðinn pólitískt mál þegar kjördæmin hafa verið sameinuð. Við erum með mjög duglega þingmenn báðu megin, Hjálmar Árnason hérna megin og Árna Johsen hinu megin. Kristján Pálsson er líka sérstakur áhugamaður um vegi, þannig að ég hef engar áhyggur af að þetta komist ekki í gegn“, segir Róbert. Spennandi að vinna að sveitarstjórnarmálum Róbert er ekki nema 23 ára gamall og þegar búin að koma sér vel áfram. Ég spyr hann að því hvort honum hafi ekki fundist erfitt að taka við svo krefjandi starfi, nýskriðinn úr skóla. „Fyrst vissi ég ekkert hvað ég var að gera hérna en þetta lærist eins og hvað annað. Núna er ég t.d. að lesa mér til um hvernig eigi að markaðssetja svæði. Ég er ekki markaðsfræðingur og verð því bara að lesa mig áfram“, segir Róbert. En hvað kom til að hann sótti um þetta starf? „Ég hef alltaf haft áhuga á að vinna á sveitarstjórnarstiginu, því þar er svo margt sem þarf að gera. Þegar starfið var auglýst á sínum tíma, þá varð ég að sækja um. Þetta var tækifæri sem ég gat ekki látið fram hjá mér fara. Ég áttu reyndar ekki von á að fá stöðuna því við vorum 15 sem sóttum um og ég var langyngstur. Menntun mín er heldur ekki mikil, þó hún sé ágæt. Ég held bæjarstjórnin, hafi horft svolítið í það að ég er ungur maður með fjölskyldu og ákveðnar hugmyndir um breytingar sem ég vil sjá komast í framkvæmd.“ Fínt að vera kominn heim aftur Róbert segist ekki hafa átt von á að flytja aftur suðureftir. „Ég sá fyrir mér að ég myndi fara í bæinn, læra stjórnmálafræði og enda einhver staðar í stjórnkerfinu eða hjá einhverju stóru fyrirtæki. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég ætti eftir að finna spennandi starf í Grindavík“, segir Róbert og bætir við að hann sé mjög ánægður með að vera kominn aftur heim. „Ég lít björtum augum á að vera með son minn hérna. Nú er t.d. verið að byggja nýjan leikskóla og stækka grunnskólann. Mér líst mjög vel á að vera hér næstu árin, sérstaklega ef að konan mín fær góða vinnu hérna“, segir Róbert að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024