Suðurnesjasögur af kennurum
Alþjóðadagur kennara er 5. október og í ár ber hann upp á þriðjudag. Víða um lönd gera kennarar sér glaðan dag af þessu tilefni og vekja athygli á mikilvægi menntunar og skólagöngu með ýmsu móti og nemendur og foreldrar hylla kennara og þakka þeim fyrir framlag þeirra í þágu almennrar velferðar og menntunar. Alþjóðasamband kennara (EI) heldur úti vef um 5. október og á hverju ári er sjónum beint að einu sérstöku málefni þennan dag. Í ár er yfirskriftin „Batinn hefst með kennurum“ sem vísar til þess að kennarinn er miðlægur í félagslegri, hugmyndafræðilegri og efnahagslegri endurreisn samfélagsins eftir kreppu - og einnig eftir náttúruhamfarir og styrjaldir.
Í tilefni af Alþjóðadegi kennara fengu Víkurfréttir nokkra Suðurnesjamenn til að rifja upp kynni sín af kennurum og setja endurminningarnar niður á blað.
Söngurinn og félagslífið minnisstæð
Ég á margar góðar minningar frá skólaárunum, svo góðar að ég er enn í námi á fimmtugsaldri. Lán mitt var kannski ekki síst það að ég þurfti aldrei að skipta um skóla, nema jú að fara í 9. bekk í Keflavík (nú 10. bekkur) því grunnskólanámið í Gerðaskóla fór ekki lengra en upp í 8. bekk. Þá losnuðu líka ræturnar og fyrst ég var komin á flakk var allt eins gott að fara lengra og Menntaskólinn á Akureyri varð fyrir valinu.
Það er tvennt sem stendur upp úr námsárunum í Gerðaskóla, söngurinn og félagslífið. Ég hugsa ávallt með hlýju til Aldísar Jónsdóttur tónmenntakennara sem kenndi okkur söng. Við sátum við borðin okkar í hálfhring með bókina Skólasöngvar fyrir framan okkur og sungum af hjartans lyst. Ég er ekki viss um að það hafi öllum í bekknum þótt gaman að syngja en þetta var mitt líf og yndi og bókin góða hefur fylgt mér allar götur síðan. Ég hef passað hana eins og sjáaldur augna minna og gríp gjarnan í hana á góðum stundum heimafyrir. Áhrifin af söngkennslu Aldísar vara því enn og þessi milda kona, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1982, hafði einnig þau áhrif að ég og tvær bekkjasystur mínar og vinkonur, Helga Birna Ingimundardóttir og Sigrún Karlsdóttir vélrituðum sönghefti og löbbuðum um Garðinn fyrir jólin og sungum jólalög, ýmist á rölti eftir götunum eða fyrir framan búðina.
Félagslegu styrkinguna á ég ekki síst að þakka kennurunum Jóni Ögmundssyni og Gísla Eyjólfssyni sem á mínum grunnskólaárum voru ungir og ferskir og nenntu og höfðu áhuga á að hafa yfirumsjón með félagsstarfinu í skólanum; opnum húsum, diskótekum og öðrum skólaskemmtunum. Á þessum skemmtunum gat maður hitt skólafélagana við annars konar leiki og störf og á skólagólfinu eða í einhverri kompunni hópuðum við stelpurnar okkur saman, bjuggum til dans við nýjasta diskósmellinn eða æfðum Gærdag Bítlanna þríraddað. Afraksturinn leit svo dagsins ljós á næstu skemmtun.
Ég get ekki lokið þessum endurminningum án þess að minnast á íslenskukennara mína á menntaskólaárunum því mér finnst það mikið til þeim að þakka að ég er bæði bókmenntafræðingur og blaðamaður. Sérstaklega vil ég nefna Jón Má Héðinsson, sem nú er skólameistari MA. Hann býr yfir þessari sömu blíðu og hlýju sem einkenndi Aldísi sem kennara.
Svanhildur Eiríksdóttir
Ingi kennari
Ég ætla að segja frá reynslu minni af hversu mikil árif kennari getur haft. Í mínu tilfelli til góðs. Sá sem ég ætla að segja frá hét Ingi Bergmann Karlsson. Ég tel að það hafi orðið mér til mikillar gæfu að hafa hann sem kennara í Barna og unglingaskólanum í Sandgerði. Hann kenndi mér flestar námsgreinar um árabil.
Það hefur líklega verið um 13 ára aldurinn sem kennsla hófst hjá mér í dönsku. Heimili mitt var staðsett 8 km frá skólanum og fórum við krakkarnir með áætlunarbifreið í skólann. En það var einn hængur á..Rútan kom ekki til Sandgerðis fyrr en langt var liðið á dönskutímann. Námið byrjaði fyrr hjá þeim eldri. Svo mikið kapp var í stelpunni sem rekja má til þessa frábæra kennara að hún lagði á sig að ganga í næsta hverfi, um 2, kílómetra, og fá far með ungum mönnum sem stunduðu vinnu og þurftu fyrr í þorpið. Faðir minn stoppaði mig af í verstu veðrunum..
Þessa sögu sagði ég stundum krökkunum mínum sem kveinkuðu sér við að labba 500 metra í sama skóla síðar. En í dönskunni þennan fyrsta vetur fékk ég 9,7…Ingi hvatti mig áfram sem hann hafði jú gert árin á undan. Hann hvatti mig til að fara í framhaldsnám sem var ekkert sjálfgefið upp úr 1960. Hann útvegaði mér bækur frá bróður sínum til að æfa mig undir Landspróf..Hans vinna, kennarans var mjög góð. Hún varð til þess að ég endaði í Menntaskólanum í Reykjavík þó ekki lyki ég námi þar. Ekki er hægt að kenna honum um það..Hefði kannski þurft að hafa hann áfram til uppörvunar!
Ingi Bergmann lést árið 2005 og svo einkennilega vildi til að ég fékk einhverja tilfinningu um að hringja í hann nokkrum mánuðum fyrr. Einnig til að skila kveðju frá bekkjarbróður sem býr Vestanhafs og ég er í tölvusamskiptum við. Hann varð mjög glaður við að ég held.
Sigurbjörg Eiríksdóttir.
Frábær handavinnukennari og einstök fyrirmynd
Að öllum öðrum ólöstuðum er sá kennari sem hafði hvað mest áhrif á mig, Gréta handavinnukennari...Gréta Jóns.
Eftir að hafa puðað við handavinnupoka og jólastjörnu-dúka um árabil og ég komin á unglingsaldur var þessi frábæra kona fengin til að kenna handavinnu í Njarðvíkurskóla. Hún sýndi okkur stelpunum að það voru allar leiðir færar í saumaskap og allt í einu vorum við farnar að sauma kjóla, pils og jakka og prjóna peysur og vesti, jafnvel eftir okkar eigin hugmyndum. Metnaður hennar fyrir kennslunni var ótakmarkaður og trú hennar á okkur litlu títlurnar einnig. Til marks um það bauð hún þeim okkar sem vildu vinna hraðar en takmarkaður tímafjöldi í stundaskrá sagði til um, heim til sín á milli tíma, til að halda leiðsögninni áfram (stundum var maður sko á leið á diskótek með hálfklárað pils í fanginu). Jafnvel eftir að skólagöngunni lauk og ég komin í Fjölbraut, þá bauð hún mér að halda áfram leita í smiðju hennar þar sem hún kenndi mér að gera "paspoleraða vasa" á ullarkápu og hvaðeina (og hér er maður sko farinn að slá um sig á dönsku í saumaskapnum). Síðan þá hafa ófáar flíkurnar orðið til og alltaf hugsa ég til hennar þegar ég sest niður við saumavélina...sem ég keypti mér 16 ára gömul og nota enn.
Gréta er því ekki bara frábær handavinnukona, heldur einstök fyrirmynd hvað það varðar að hún hafði alltaf trú á því að mér tækist að ljúka við verkefnin, hversu erfið sem þau litu út fyrir að vera í upphafi. Sú trú smitaðist yfir á nemandann sem tók áskorunum um sífellt erfiðari verkefni af mikilli gleði. Fyrir það er ég þakklát.
Það sem Gréta gerði fyrir mig á sínum tíma fellur ekki beinlínis undir hefðbundna kjarasamninga kennara en það sem ég lærði, til viðbótar við það að vera sæmilega sjálfbjarga við saumavélina, var að til þess að ná árangri í kennslu þarf að hvetja nemendur með jákvæðum hætti, hlúa að þeim, sýna þeim virðingu og mæta þeim þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Til þess þarf sterk bein, traust skipulag og umhverfi sem styður kennara í sínu mikilvæga starfi.
Þó það sé langt síðan ég leitaði saumaleiðbeininga hjá þessari frábæru konu veit ég til þess að enn er hún að gefa af sér, hjálpa og leiðbeina af sinni einstöku hlýju, velvilja og góðmennsku. Takk Gréta. Þú kemur næst á eftir mömmu og ömmu í röðinni um þær konur sem hafa kennt mér mikilvægustu hlutina í lífinu.
Helga Sigrún Harðardóttir, laganemi.