Suðurnesjamenn setja upp leitarvél sem auðveldar val á víni
Vínleit.is fyrir öll tilefni
Hafliði Már Brynjarsson og Helgi Már Vilbergsson eru ungir áhugamenn í Reykjanesbæ um léttvín og áhuginn leiddi þá út í að hanna leitarvél sem hjálpar notendum að velja vín við hæfi. Vefurinn heitir Vínleit.is (vinleit.is) og er settur upp af forritaranum Hinriki Snæ sem er einnig frá Reykjanesbæ.
Við erum matgæðingar með mikinn áhuga á víni og vínmenningu ásamt því að vera virkir meðlimir í vínklúbbi með fyrrverandi vinnufélögum úr víndeild Fríhafnarinnar. Við höfum sótt fjölmörg námskeið og kynningar í gegnum árin ásamt því að hafa verið duglegir að smakka hin ýmsu vín heimshorna á milli og safna upplýsingum í okkar eigin gagnagrunn með einkunnagjöf. Okkur fannst vera pláss á íslenskum markaði fyrir áreiðanlega og hlutlausa vínumfjöllun á mannamáli sem allir geta skilið og tengt við,“ segja þeir félagar um ástæðu þess að þeir réðust í þetta verkefni.
„Helgi hafði verið með þetta í hausnum lengi og í mars 2019 heyrði hann í forritara og við höfum verið að vinna í þessu síðan,“ segir Hafliði.
„Ég fékk þessa hugmynd að útbúa þjónustusíða á netinu því við höfðum báðir unnið í Fríhöfninni þar sem við vorum í sífellu að leiðbeina fólki um val á víni,“ bætir Helgi við. „Leitarvélin auðveldar fólki, byrjendum sem lengra komnum, valið á víni og getur líka bent á þeim sambærileg vín sem gætu verið hagkvæmari – þar sem fólk fær meira fyrir aurinn, ef svo má segja.“
Notendur hafa lokaorðið
Helgi bendir á að í byrjun gefa þeir Hafliði víninu þá einkunn sem þeir eru sammála um en svo er einkunnargjöfin lifandi því fólk getur sjálft gefið víninu sína einkunn.
„Síðan er búin að vera í þróun í eitt og hálft ár, einkunnir eru hlutlausar og við höfum prófað öll vínin sjálfir – þarna fara bara inn vín sem við höfum smakkað,“ segir hann.
„Við setjum einkunnirnar inn í byrjun en svo eru það notendurnir sem koma til með að hafa áhrif á einkunnargjöfina eftir því sem fleiri gefa sitt mat á því. Það eru margir sem hafa smakkað sömu vín þarna úti og þeir eru ekki endilega sammála okkur, þá tekur einkunnargjöfin mið af því,“ segir Hafliði.
Helgi segir að þeirra einkunn hafi meira vægi í byrjun og það sé gert til að einkunnin rokki ekki of mikið upp og niður. „En það jafnast út eftir því sem fleiri gefa einkunn.“
„Eins og er þá erum við með rauðvín og hvítvín þarna inni,“ segir Hafliði og bætir við: „Svo munum við bæta inn freyðivíni og rósavíni. Þarna er líka að finna fróðleikspistla um vín og við munum setja nýja pistla inn vikulega.“
Áhugamál
– Er þetta bara áhugamál ykkar eða sjáið þið fram á að vefurinn muni borga sig?
„Þetta hefur náttúrlega verið mikið áhugamál hjá okkur síðan við unnum í víndeild Fríhafnarinnar, þar sem voru vínkynningar í hverri viku,“ svarar Hafliði og Helgi skýtur inn: „Enn sem komið er hefur þetta bara verið kostnaður hjá okkur, dýrt áhugamál, en vonandi náum við einhverju inn á auglýsingum seinna meir til að hafa upp í kostnað.“
„Núna erum við með tæplega 130 vín í leitarvélinni og talsvert fleiri á kantinum sem við erum að fínpússa, auk þess eru pistlar í yfirlestri og svo ætlum við að setja staðreyndir á léttu nótunum eins og: „Vissir þú að það er til Spa í Japan þar sem þú getur synt í rauðvíni?“ Þau geta orðið dýpri líka,“ segir Hafliði og hlær.
– Er eitthvað sem þið viljið bæta við þetta?
„Já,“ segir Helgi. „Þarna inni getur þú til dæmis valið þitt uppáhaldsvín og ef þú vilt prófa eitthvað sem er líkt því getur leitarvélin bent þér á eitthvað sambærilegt undir „Svipuð vín“. Þetta var mjög algeng spurning sem maður fékk í Fríhöfninni ef fólki langaði að prófa eitthvað nýtt en var ekki tilbúið að fara of langt frá því sem það hélt upp á. Þannig er kannski hægt að finna svipað vín í öðrum verðflokki sem dæmi.“
„Svo vil ég bæta við að síðan er aðgengileg og auðveld þannig að allir ættu að geta fundið rétta vínið fyrir hvert tilefni á innan við fimm mínútum,“ segir Hafliði að lokum og bætir við: „Þarna eru allar einkunnargjafir hlutlausar og birgjar hafa engin áhrif á þær.“