Suðurnesjamenn með froðuböll á Íslandi
Tveir ungir Suðurnesjamenn, Atli Már Gylfason og Steinþór Einarsson, koma svo sannarlega með ferska vinda inn í íslenskt skemmtanalíf.
Fyrirtæki þeirra, the Royal Entertainment Group, hefur komið sér upp froðuvél sem margir kannast við af dansstöðum í sólarlöndum og hyggjast bjóða Íslendingum upp á froðuböll.
Vélin er keypt frá Bandaríkjunum og í hana fer sérhönnuð sápa sem blönduð er vatni. Er svo blandan leidd út í gegnum blásara og þaðan sprautast froðan út um allt, en þeir félagar segja froðuna vera hættulausa með öllu og spá góðum viðtökum.
Fyrstu böllin verða á skemmtistaðnum Trix í Keflavík, fyrst þann 7. febrúar sem verður FS-ball en fyrsta almenna ballið verður, einnig á Trix, þann 17. febrúar. Eftir það fara þeir félagar á ferð um allt land með vélina og eru nokkrar uppákomur þegar komnar á dagatalið. Til að fá frekari upplýsingar um vélina og fyrirtækið er hægt að fara á vefsíðuna www.treg.is eða senda póst á [email protected]
Videofrett um málið má sjá í VefTV Víkurfrétta til hægri á síðunni.
VF-mynd/Þorgils