Suðurnesjamenn í hjólahóp sem hjólar Íslandshring
Nokkir Suðurnesjamenn er í hjólreiðahópnum Team Rynkeby sem hjólar nú hringferð um landið til styrktar Styrkarfélagi krabbameinssjúkra barna, SKB.
Okkar fólk eru hjónin Haraldur Hreggviðsson, kokkur og hjólreiðakappi og kona hans Edda og svo hjónin Helga Oddsdóttir og Einar Jónsson. Haraldur sagði í stuttum skilaboðum til VF að þetta væri magnaður hópur og erfitt en skemmtilegt verkefni að hjóla hringinn í kringum landið.
Lagt var af stað frá Barnaspítala Hringsins 4. júlí en hópurinn mun hjóla um 850 km. í kringum landið til 11. júlí. Team Rynkeby er stærsta evrópska góðgerðarverkefnið, þar sem þátttakendur hjóla á hverju ári 1.200 km leið frá Danmörku til Parísar til styrktar langveikum börnum og fjölskyldum þeirra.
Hópurinn Team Rynkeby Ísland var stofnaður árið 2017 með það að markmiði að hjóla í söfnunarátaki Team Rynkby til styrktar SKB. Á síðastliðnu ári söfnuðust 23,6 milljónir kr.
Alls söfnuðu öll Team Rynkeby-liðin um 1,5 milljörðum kr. í fyrra. Unnt er að heita 1.500 krónum á Team Rynkeby með því að hringja í styrktarnúmerið 907-1601, 3.000 kr. með því að hringja í 907-1602 og 5.000 kr. í númerið 907-1603.