Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Suðurnesjamenn í aðalhlutverkum í árlegu leikriti Sólheima
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 20. apríl 2021 kl. 18:31

Suðurnesjamenn í aðalhlutverkum í árlegu leikriti Sólheima

Frumsýning á sumardaginn fyrsta 22. apríl.

Nokkrir Suðurnesjamenn koma að leiksýningu Sólheima í ár en nýtt leikrit er jafnan frumsýnt á sumardaginn fyrsta. Það gerðist ekki í fyrra en verður á fimmtudag, 22. apríl kl. 14. Leikritið heitir Álfar, árar og tröll.

Verkið er skrifað af Hannesi Blandon og Guðmundi Lúðvík Þorvaldssyni en Lárus Sigurðsson gerði tónlistina. Sex Suðurnesjamenn leika í verkinu, þar á meðal í helstu hlutverkum. Keflvíkingurinn Helga Þórunn Pálsdóttir fer með aðalhlutverkið, þá fara dóttir hennar Sigurrós Tinna og unnusti Skarphéðinn Guðmundsson úr Garðinum með hlutverk í sýningunni. Sandgerðingurinn Hallbjörn Valgeir Rúnarsson betur þekktur sem Halli Valli og dóttir hans Þorbjörg Ásta eru sömuleiðis í hlutverkum ásamt Grindvíkingnum Leó Aðalsteini Einarssyni. Þá heldur Garðmaðurinn Þorvaldur Kjartansson utan um tæknimál sýningarinnar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur Lúðvík leikstýrir einnig verkinu en hann er leikfélaginu að góðu kunnur þar sem þetta er í fimmta sinn sem hann leikstýrir á Sólheimum. Fjöldi íbúa Sólheima kemur að verkinu bæði í leikhlutverkum og bakvið tjöldin.

Verkið er ævintýri sem fjallar um baráttukonuna Sesselju sem á sér þann draum að opna barnaheimili þar sem allir geta lifað í sátt og samlyndi en þarf til þess fyrst að takast á við konungsríkið og alls kyns verur, svo sem tröll og álfa.

Leikfélag Sólheima var stofnað 1931 og á því 90 ára afmæli í ár. Leikfélagið frumsýnir alla jafna alltaf á sumardaginn fyrsta en engin sýning var árið 2020 vegna heimsfaraldursins. Það er því sérstök eftirvænting í ár að sjá leikrit aftur á Sólheimum Miðasala fer eingöngu fram á heimasíðu Sólheima www.solheimar.is.