Mannlíf

Suðurnesjamenn börðust fyrir lífi sínu
Mánudagur 18. desember 2023 kl. 08:32

Suðurnesjamenn börðust fyrir lífi sínu

Frásögn af örlagaríkum atburði í nýjustu Útkallsbókinni – Tveir lifðu af í tvær og hálfa klukkustund í ísköldum sjónum

Þegar Bjarmi VE 66 sökk skyndilega vestur af Vestmannaeyjum árið 2002 hófst ótrúleg barátta upp á líf og dauða. Í nýjustu Útkallsbók Óttars Sveinssonar er í fyrsta skipti greint frá því sem raunverulega gerðist þegar ungir sjómenn af Suðurnesjum lifðu af í tvær og hálfa klukkustund í miskunnarlausum úthafsöldunum á milli Eyja og fastalandsins.

Úti var sjö stiga frost og hvöss norðanátt. Þeir voru fáklæddir, sumir einungis í gallabuxum og skyrtum, einn berfættur og á hlýrabol. Aðeins höfuð og axlir stóðu upp úr sjónum. Mönnunum fannst baráttan vonlaus.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Verst var að enginn hafði vitneskju um að báturinn þeirra var sokkinn. Skipbrotsmennirnir áttu ekki von á að snúa aftur til ástvina sinna. „Bless elsku mamma. Mér þykir svo fyrir því að hafa ekki náð að gefa þér barnabörn,“ hugsaði Hilmar Þór Jónsson sem var 25 ára þegar slysið átti sér stað.

Halldór Nellett, skipherra á Tý, hafði heyrt ógreinilegt neyðarkall:

„Þegar tíminn leið og ég var að hringja í bátana á svæðinu til að finna út úr þessu verð ég að viðurkenna að efasemdir læddust að mér. Enginn hafði heyrt neitt um mögulegt neyðarkall. Og tilkynningarskyldan hafði ítrekað sagt að allt væri í lagi – enginn bátur hefði horfið af skjánum hjá þeim.“

Útlitið var grafalvarlegt fyrir hina nauðstöddu sjómenn. Halldór var í raun þeirra eina von. Fyrir hans tilstilli og miklar krókaleiðir náðist að finna út hvaða bátur hafði sent neyðarkallið og hvaðan.

Bókin er helguð minningu bræðranna Snorra Haraldssonar og Matthíasar Hannessonar sem fórust í slysinu. Móðir þeirra, Anna H. Sveinbjörnsdóttir frá Sandgerði, var þarna að missa tvo syni en hafði áður misst þriðja soninn, Jóhann S. Hannesson í öðru sjóslysi og einnig fyrri eiginmann sinn í enn öðru sjóslysi.

Í bókinni er rætt ítarlega við mennina tvo sem komust af, Hilmar Þór og Þorstein Ingimarsson, en einnig aðstandendur allra fjögurra mannanna sem voru í áhöfn Bjarma VE 66.