Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Suðurnesjamenn á fjölum óperunnar
Fimmtudagur 6. mars 2008 kl. 11:38

Suðurnesjamenn á fjölum óperunnar

Sýning Íslensku Óperunnar á La Traviata eftir Verdi hefur fengið frábæra dóma bæði hjá gagnrýnendum sem og gestum sem hafa flykkst á verkið frá því að það var frumsýnt í byrjun febrúarmánaðar.


Svo skemmtilega vill til að meðal flytjenda eru fjórir frá Suðurnesjum, en það eru þau Bylgja Dís Gunnarsdóttir sem syngur hlutverk Flóru Bervoix, Jóhann Smári Sævarsson sem syngur hlutverk Grenvil læknis, Valdimar Hilmarsson sem syngur hlutverk Marksgreifans og Bryndís Jónsdóttir sem syngur með Óperukórnum.


Hlutverk þeirra eru misstór, en Bylgja Dís, sem leikur Flóru, bestu vinkonu Víólettu, sem er aðalkvenpersóna verksins, sagði í stuttu spjalli við Víkurfréttir að þau fjögur hafi ekki þekkst mikið fyrir æfingarnar þó þau hafi vitað hvort af öðru. Þau hafa hins vegar skemmt sér vel og ekki er verra að fá svona góðar viðtökur.
„Það er einróma álit allra sem ég hef heyrt í að þetta sé mjög skemmtileg sýning. Enda segir aðsóknin sína sögu og við erum að slá öll sölumet.“


La Traviata er ein þekktasta ópera allra tíma og má slá því nær föstu að allflestir þekki þekktustu stefin úr verkinu úr auglýsingum. Ekki er t.d. langt liðið síðan hópur ungra kvenna valhoppaði um engi þar sem kvennakórinn Seguidilla hljómaði undir.


„Nú er verkið hins vegar sett upp á öðrum tíma,“ segir Bylgja Dís. „Leikstjórinn lætur verkið gerast um árið 1920 og eru búningarnir í þeim anda og verkið fer líka að miklu leyti fram í veislum í anda tímabilsins. Tónlistin er þó eins og Verdi skrifaði hana en á milli atriða er hins vegar leikin tónlist frá þessum tíma, til dæmis Cole Porter, á meðan verið er að skipta um leikmynd á sviðinu.“


Sýningum á La Traviata lýkur þann 17. mars en þar til eru sjö sýningar og er áhugasömum bent á að hafa samband við Óperuna til að fá upplýsingar um miðasölu. Bylgja segir að lokum að hún sé ekki með neitt hlutverk í hendi eftir að sýningum lýkur, en nóg sé samt á döfinni.
„Ég útskrifaðist úr skólanum í nóvember og þetta er annað hlutverkið sem ég fæ síðan þá. Núna er ég hins vegar að fara í það að ferðast um  og syngja fyrir og við verðum að sjá hvað verður úr því.“

Mynd frá uppsetningu Íslensku óperunnar á La Traviata

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024