Suðurnesjafólk í sviðljósinu á einstökum tónleikum
Suðurnesjafólk verður í framlínunni þegar einstakir tónleikar Korda Samfónía verða fluttir í Hörpu 21. maí n.k. Stjórnandi og aðal höfundur er Keflvíkingurinn Sigrún Sævarsdóttir en hún fær sprenglært tónlistarfólk, nemendur, sjálfsmenntað tónlistarfólk og fólk sem aldrei hefur lagt stund á tónlist saman í þessa óvenjulegu hljómsveit, alls 35 manns, úr ólíkum áttum. Í Kordu Samfóníu eru fimm þátttakendur frá Samvinnu á Suðurnesjum, þá er Sævar Helgi Jóhannsson, bróðursonur Sigrúnar, aðstoðarstjórnandi. „Þetta er stór hópur fulltrúa svæðisins hér að verki á þessum einstöku tónleikum í Hörpu þann 21. maí nk. þegar óvenjulegasta hljómsveit landsins þreytir frumraun sína,“ segir Sigrún en hún kemur úr stórri tónlistarfjölskyldu í Keflavík, móðir hennar er Ragnheiður Skúladóttir píanóleikari og tónlistarkennari og bræðurnir Sigurður og Jóhann Smári Sævarssynir, báðir mjög þekktir í tónlistargeiranum.
Sigrún Sævarsdóttir Griffiths stýrir óvenjulegustu hljómsveit landsins. Bróðursonur hennar og fleiri Suðurnesjamenn með henni í Hörpu 21. maí
Korda Samfónía er ný 35 manna hljómsveit, samsett af hljóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nemendum Listaháskóla Íslands og skjólstæðingum Hugarafls og Starfsendurhæfingastöðva Vesturlands, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Hljómsveitin var stofnsett í febrúar 2021 og koma hljómsveitarmeðlimir úr hinum ýmsu áttum, með mjög fjölbreyttar sögur að baki. Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, samfélagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona úr Keflavík, stýrir í London. Aðrir aðilar að verkefninu eru Tónlistarborgin Reykjavík og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús.
Á efnisskrá tónleikanna verður frumflutningur glænýrrar tónlistar, sem samin er af hljómsveitarmeðlimum í sameiningu undir stjórn Sigrúnar.
„Hugmyndafræði MetamorPhonics byggir á því, að til þess að fólki vegni vel í lífinu, þurfi það að upplifa sig sem gjaldgenga, virka meðlimi samfélagsins og að á það sé hlustað. Því skapar MetamorPhonics einstakan, opinn og aðgengilegan vettvang til tónsköpunar, fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem stendur á krossgötum í lífinu sem er að byggja sig upp eftir margs konar áföll, t.d. heimilisleysi, atvinnuleysi eða kulnun,“ segir Sigrún en MetamorPhonics rekur hljómsveitir í London, Leicester, Los Angeles og nú á Íslandi.
„Markmiðið er að fólk kynnist í gegnum þessa tónlistarsköpun og taki áhættu sem hentar því og prófi eitthvað sem það hefur ekki prófað áður. Við erum öll að vinna á nýjum vettvangi. Um helmingur hljómsveitarinnar er frá Listaháskólanum, þrír koma frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og svo er hinn helmingurin fólk sem er að vinna í sér og koma sér af stað aftur í lífinu, og kemur frá starfsendurhæfingastöðvum á Akranesi, Hafnarfirði og Suðurnesjum. Það eru hljómsveitir í Hugarafli og í þessum sveitarfélögum og við sameinumst í fimmtu sveitinni, Korda. Við öll saman semjum tónlist og það hefur verið ofboðslega gaman.“
Aðgangur er ókeypis en bóka þarf miða vegna takmarkaðs miðaframboðs. Frekari upplýsingar á Harpa.is og miðabókun á tix.is