Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 16. desember 1999 kl. 23:33

SUÐURNESJAFÓLK Í LANDI PÝRAMÍDANA

,, Við millilentum í Kairó eins og gert var á leiðinni út. Þegar vélin kom inn til lendingar sáum við hina frægu Pýramída mjög greinilega. Þá spurðu margir: ,,Hvert á að fara næsta ár?? Þannig endaði ferðasaga mín til Kenya í fyrra, sem birtist í Jólablaði Víkurfrétta 1998. Svarið við spurningunni fékkst fljótlega eftir síðustu áramót þegar Samvinnuferðir-Landsýn ákváðu að næst skyldi leiðin liggja til lands Pýramídanna, Egyptalands. Í þetta skiptið fóru Samvinnuferðir-Landsýn í tvær ferðir sem hvor um sig stóð í viku. Sú fyrri var frá 5.-12. nóv. og hin síðari, sem farin var í samstarfi við M-12 klúbb Stöðvar 2, stóð frá 13.-20. nóv. Í báðum ferðunum var dvalið á tveimur stöðum; í höfuðborginni Kairo og í Luxor sem er um 1000 km sunnar í landinu. Í báðum ferðum var dvalið á glæsilegum hótelum og auk fararstjóra Samvinnuferða-Landsýnar, naut hópurinn leiðsagnar innfæddra fararstjóra frá hinni þekktu ferðaskrifstofu Thomas Cook. Skemmst er frá að segja að báðar ferðirnar tókust mjög vel og þeir tæplega 800 landar, sem í þær fóru, skemmtu sér konunglega. Landið. Aðeins um 4% Egyptalands er gróið land og um 96% því eyðimörk. Gróna svæðið samanstendur fyrst og fremst af árbökkum Nílar og má segja að áin sé lífæð landsins. Landamæri Egyptalands markast af Miðjarðarhafinu í norðri, Súdan í suðri, Jórdaníu í austri og Líbýu í vestri. Sinai eyðimörkin er hluti af Egyptalandi og á milli hennar og þess hluta landsins sem tilheyrir Afríku liggur Rauða hafið. Þjóðin. Egypska þjóðin samanstendur af ýmsum þjóðflokkum. Fjórðungur þjóðarinnar er kristinn en þrír fjórðu eru múslimar. Múhameðstrúin setur sinn svip á daglegt líf. Víða má sjá konur klæðast svörtum kjólum með blæjur fyrir andlitinu og fólk snúa sér í átt að Mekka í bænagjörð. Í landinu er stéttaskipting mikil. Einhverjir hafa það mjög gott á meðan stór hluti þjóðarinnar býr við mjög bág kjör. Félagsleg þjónusta af hálfu hins opinbera er lítil og atvinnuleysi mikið. Þrátt fyrir það eru Egyptar jákvæðir, brosmildir, kurteisir og hjálplegir og í alla staði mjög elskulegt og vingjarnlegt fólk. Kairo. Í þessari stærstu borg Afríku búa 16 milljónir manna skv. opinberum tölum. Innfæddir vilja meina að þar séu mun fleiri íbúar. Í skoðunarferðum okkar heimsóttum við vinsælustu ferðamannastaðina s.s. Egypska safnið, Pýramídana í Giza og fleiri merkilega staði. Auk þess var farið í kvöldsiglingu á Níl, þar sem snæddur var kvöldverður og boðið upp á skemmtidagskrá og dans. Þessir staðir sem ég nefni hér eru sambærilegir við Bláa Lónið, Gullfoss, Geysi og Þingvelli í þeim skilningi að lang stærsti hluti þeirra 5 milljóna ferðamanna sem til landsins koma heimsækja einhverja þessara staða. Á austubakka Nílar er upphaflega borgin en á vesturbakkanum heitir hverfið Giza. Allar grafir, grafhýsi og þeir u.þ.b. 300 pýramídar sem taldir eru vera í landinu eru á þessum sama vesturbakka sem teygir sig mörg hundruð kílómetra inn í landið að landamærum Súdans. Fornegyptar trúðu því að þar sem sólin kæmi upp í austri og settist í vestri bæri að líta svo á að landið austan megin Nílar væri ætlað hinum lifandi og vesturbakkinn hinum látnu. Mannfjöldinn í Kairó er gríðarlegur. Borgin er hönnuð fyrir 4-5 milljónir íbúa en íbúafjöldinn er eins og áður segir 16-18 milljónir. Umferðarmenningin, ef menningu skyldi kalla, er eftirminnileg. Í umferðinni virtist frumskógarlögmálið standa öllum öðrum lögum framar og þeir sem voru frekastir komust hraðast yfir. Umferðarljós virtust fyrst og fremst til skrauts. Einhvern veginn bjargaðist þetta nú samt allt og allir virtust komast leiðar sinnar þótt flautukonsert bílstjóranna væri á köflum full hávær. Þeir innfæddu sögðu að þá fyrst þegar lögreglan skipti sér af umferðinni hæfust vandræðin. Nálægðin við eyðimörkina setur sitt mark á Kairó. Gulur eyðimerkursandurinn liggur sem dula yfir allri borginni og einhver sagði að það væri eins og ekki hefði verið þurrkað þar af í fimm þúsund ár. Þetta eru ágætist samlíking. Í borginni má engu að síður finna fjölmörg falleg, gróin svæði og garða og fjölmargar fallegar byggingar. Pýramídarnir og Sphinxinn við Giza. Dagskráin var þétt. Daglegar skoðunarferðir voru í boði til ýmissa áhugaverðra staða. Lang stærsti hluti hópsins heimsótti Pýramídana þrjá sem standa rétt utan við borgarmörk Kairo. Stærsti Pýramídinn er kenndur við faró að nafni Keops og var reistur fyrir tæpum 5000 árum. Upphaflega var hann 146 metrar á hæð en er nú 137 metrar. Í gegnum aldirnar hafa 9 efstu metrarnir horfið en nú um árþúsundamótin er ætlunin að afhjúpa 9 metra háan gulltopp sem á hann er verið að smíða. Pýramídarnir teljast eitt af 7 undrum veraldar og á hverjum degi heimsækja þá þúsundir gesta. Nokkrir úr okkar hópi lögðu það á sig að fara inn í Keops pýramídann. Til þess þarf að fara um langa, þrönga ganga, alla leið inn í grafhýsið sem nú er tómt. Þeir sem þetta gerðu töldu það erfiðisins virði og sögðu andrúmsloftið rafmagnað og hlaðið spennu. Við Pýramídana stendur hinn frægi Sphinx sem er gríðarstórt líkan af ljóni með mannshöfuð. Hlutverk hans var að verja Pýramídana fyrir óvættum og átti samsetningin Sphinxins að veita honum afl ljónsins en visku mannanna. Í Kairo voru ýmsir aðrir áhugaverðir staðir heimsóttir og auðvitað gátu menn ekki sleppt því að koma við á markaðnum Kahn El Kahili þar sem allt gekk út á að prútta. Luxor Hin gamla höfuðborg stórveldisins Þeba heitir nú Luxor. Í nágrenni hennar eru Konunga- og Drottningadalirnir sem árlega laða til sín milljónir ferðamanna. Í dölunum eru grafhýsi hinna fjölmörgu faróa og drottninga sem áður ríktu og var hvergi til sparað við gerð þessara grafhýsa. Egyptar til forna trúðu á framhaldslíf. Því betur sem grafhýsið var úr garði gert og því meira af auðæfum sem grafin voru með hinum látna því meiri líkur töldu þeir á að hann hefði það gott í framhaldslífinu. Grafarræningjar höfðu fyrir hundruðum ára löngu hreinsað allt úr gröfunum en sjálfar eru þær ótrúleg listaverk með myndum og myndletri á öllum veggjum sem segja áhrifaríkar sögur. Árið 1922 fannst gröf sem enginn hafði uppgötvað áður. Í henni var grafinn faraó að nafni Tunankhamun sem ríkti aðeins í 9 ár og dó ungur, aðeins 18 ára að aldri. Þrátt fyrir það voru gríðarleg auðæfi í gröfinni hans og eru þau til sýnis í Egypska safninu í Kairó. Þar á meðal má sjá gullgrímu sem lögð var yfir höfuð múmíunnar. Á þessu svæði voru einnig fjölmörg musteri og hof. Frægust þeirra eru musterin í Luxor og Karnak. Hópurinn heimsótti þau og hlustaði með andakt á lýsingar innfæddra leiðsögumanna þegar þeir útskýrðu líferni og lifnaðarhætti Forn-Egypta sem á sínum tíma var mesta menningarþjóð heims. Margar kenningar eru um hvernig öll þessi gríðarlegu mannvirki, musteri, grafir og Pýramídar voru reist en engin veit hver þeirra er sú eina sanna. Það eykur en á dulúðina og spennuna við að heimsækja þessa staði. Hvernig fóru menn eiginlega að þessu? Loftbelgurinn Í Luxor stóð fólki til boða að kaupa sér flug í loftbelg og auðvitað sló ég til. Tólf manna hópur var sóttur í dögun og farið með okkur yfir ána á vesturbakkann og þaðan ekið inn í eyðimörkina þar sem belgurinn beið okkar. Þegar allir voru komnir um borð í körfuna voru landfestar leystar og lagt af stað. Flogið var í um 50 mínútur og hæst farið í tæplega 1700 feta hæð. Vindarnir báru okkur yfir Konunga- og Drottningardalina og þaðan lengra inn í eyðimörkina. Útsýnið var stórkostlegt, sólin að rísa og líf að kvikna. Það var mjög áhrifaríkt að sjá hin skörpu skil þar sem gróið land endaði og eyðimörkin hófst. Þegar við lentum beið okkar morgunmatur sem snæddur var inn í eyðimörkinni og brugðið var á leik með hinum innfæddu með hljóðfæraslætti, dansi og söng. Bæjarbragurinn Í Luxor var mannlífið með allt öðrum hætti en í Kairo. Þar búa aðeins um 300 þús. manns og miklu meiri sveitabragur á öllu en í Kairo. Bílaumferð var lítil en hestar og aðrar skepnur algengari sjón. Í gamla borgarhlutanum bjuggu þeir innfæddu og að sjálfsögðu skelltum við okkur á markaðinn. Konur báru körfur hlaðnar ýmsum varningi á höfðinu og karlarnir stunduð verslun og viðskipti á milli þess sem þeir reyktu vatnspípurnar sínar ,,Shisa?. Þegar fyrri hópurinn okkar hafði dvalið þarna í nokkra daga vissu allir hinna innfæddu um okkur. Þegar við tjáðum þeim að í næstu viku kæmi annar stærri hópur mátti sjá glampa í augum margra og einn veitingahúsaeigandi talaði um að stækka veitingastaðinn í einum grænum. Það varð þó ekki úr. Lokakvöldið Á lokakvöldinu í Luxor var endað á heljarmikilli garðveislu þar sem nær allir farþegar mættu. Skilyrði fyrir þátttöku í veislunni var að klæðast að hætti innfæddra og höfðu menn mjög gaman að því. Frábær matur og skemmtidagskrá samanstóð af tónlistarflutningi, magadansmeyjum og slöngutemjara og féll vel í kramið hjá landanum. Áður en veislan hófst var öllum hópnum boðið í siglingu á Níl á fallegasta tíma dagsins þegar sólin var að setjast. Siglt var á litlum Felucca seglskútum, sem innfæddir hafa notað svo til óbreyttar í gegnum aldirnar. Það var mál allra ferðalanga að ferðalagið hefði tekist einstaklega vel og allir voru í sjöunda himni. Menn voru sammála um að landið væri stórkostlegt og engan hitti ég sem ekki varð fyrir áhrifum af þeirri miklu sögu sem við fengum að kynnast. Líklegt er að leikurinn verði endurtekinn en það skýrist betur eftir áramót. Ég vil að lokum þakka öllu samferðafólki fyrir frárbæra ferð en fjölmargir Suðurnesjamenn voru með í för. Kjartan Már Kjartansson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024