Suðurnesjafólk á gosstöðvunum
Margir Suðurnesjamenn hafa lagt leið sína upp á Fimmvörðuháls undanfarna daga til að skoða náttúruundrin þar. Fólk hefur misjafnan háttinn á til að komast til gosstöðvanna, sumir fara fljúgandi, aðrir á faratækjum eins og vélsleðum eða fjallabílum og enn aðrir á tveimur jafnfljótum.
Hópur galvaskra göngugarpa á Suðurnesjum gekk á sunnudaginn frá Skógum að gosinu á Fimmvörðuhálsi alls 36 kílómetra leið. Gönguhækkunin er um 1040 metrar og tók gangan um 12 klukkustundir fram og til baka í ískaldri norðanáttinni en feikna vindkæling var á fjallinu.
Göngufólkið rak því rogastans á leiðinni niður síðdegis þegar það mætti þó nokkrum fjölda fólks sem var langt frá því að vera útbúið til fjallgöngu við slíkar aðstæður. Sjá mátti fatnað eins og gallabuxur, hettupeysur og flatbotna sportskó. Sumir voru með hendur í vösum því engir voru vettlingarnir. Þá var fólk nestislaust, ekki með göngustafi eða hlífðarfatnað. Suðurnesjafólkið ræddi við nokkra sem snéru við þegar þeir gerðu sér grein fyrir hvað þeir voru komnir út í. Margir voru það seint á ferðinni að algjörlega vonlaust var að þeir næðu að komast niður fyrir myrkur enda fór það svo að björgunarsveitir voru langt fram á nótt að ferja fólk niður.
Margir munu væntanlega nýta páskafríið til að skoða eldgosið. Nístingskalt er nú á Fimmvörðuhálsi og verður fram á helgina á meðan norðanáttin er ríkjandi. Hafa verður í huga að mun kaldara er til fjalla en niðri á láglendi. Vindkælistigið er núna á bilinu -18 til -24 stig. Nauðsynlegt er að búa sig vel og hafa orkuríkt nesti meðferðis.
Ljósmyndir frá gosgöngunni og eldstöðvunum eru komnar inn á ljósmyndavef Víkurfrétta.
Efri mynd: Galvaskur hópur göngufólks á Suðurnesjum gekk á Fimmvörðuhálsinn á sunnudag. Á myndinni eru talið frá vinsti: Hleiðar Gíslason, Ingigerður Sæmundsdóttir, Ögmundur Erlendsson, Ellert Grétarsson (krjúpandi), Ari Bergþór Sigurðsson, Baldur Sæmundsson og Brynjar Þór Magnússon.
Neðri mynd: Gallabuxur er alfleitur útvistarfatnaður. Ljósmynd/elg
Neðsta mynd: Þessi var kominn í um 900 metra hæð á flatbotna skóm, klæddur hettupeysu og gallabuxum. Sömu sögu var að segja af félaga hans. Þeir sneru við eftir að gönguhópurinn ræddi við þá. Eina nestið sem þeir voru með var vodkapeli.
Stuttu seinna kom þessi björgunarsveitarbíll og kippti þeim með. Í bílnum var maður sem var hætt komin vegna ofkælingar en hann hafði komst alla leið upp í Baldvinsskála á strigaskóm, leðurjakka og gallabuxum. Ljósmynd/elg.