SuðurnesjabærSuðurnesjabær semur við Dale Carnegie um námskeið fyrir unglinga
Í byrjun febrúar býðst krökkum á aldrinum þrettán til fimmtán ára sem búsettir eru í Suðurnesjabæ og Vogum að sækja Dale Carnegie námskeið í Félagsmiðstöðinni Eldingu. Samningur bæjarfélagsins tryggir þátttakendum 50% lægra verð.
„Við finnum fyrir miklum áhuga foreldra á námskeiðum fyrir ungt fólk. Síðust mánuðir hafa verið áskorun fyrir marga og mikilvægt að styðja við unga fólkið eins og hægt er í þessum aðstæðum,“ segir Jón Jósafat, framkvæmdastjóri Dale Carnegie. Hann segir að áherslan á námskeiðinu sé á samskipti og félagsfærni en ekki síður á að takast á við streitu og kvíða. Þá er mikið unnið með tjáningu og að auka sjálfstraust krakkanna til að þau standi á sínu og þori að láta að sér kveða. Þá er unnið með gildi, markmið og framtíðarsýn til að auka eldmóðinn hjá krökkunum.
Rut Sigurðardóttir hjá Suðurnesjabæ segir að ákveðið hafi verið að leita til Dale með námskeið í þeim tilgangi að hjálpa unglingunum að verða sem besta útgáfan á sjálfum sér. „Það að þjálfa þau í að standa með sjálfum sér og líða betur með sjálfan sig skiptir miklu máli sérstaklega á þessum viðkvæma aldri. Mikilvægt er að hjálpa þeim að byggja upp gott sjálfstraust svo þau geti fundið hvar þeirra styrkleikar liggja. Markmiðið er að þau læri betur á sjálfan sig, byggi upp samskiptahæfileika sína, efli sig sem leiðtoga sem er óhræddur við að taka áskorunum, læri betur að leysa úr vandamálum, setji sér markmið og leiðir að þeim og margt fleira. Að efla sjálfan sig á þennan hátt er dýrmætt veganesti í framtíðina.“