Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Suðurnesja-Sprettur  er framsækið verkefni
Sunnudagur 2. janúar 2022 kl. 08:38

Suðurnesja-Sprettur er framsækið verkefni

fyrir nemendur af erlendum uppruna í FS

Suðurnesja-Sprettur er framsækið verkefni fyrir nemendur af erlendum uppruna í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Meginmarkmið verkefnisins er að fjölga tækifærum ungmenna af erlendum uppruna og auka hlutfalli þeirra meðal útskriftarnemenda Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Öllum nemendum með annað móðurmál en íslensku í FS var boðin þátttaka í verkefninu og þáðu ellefu nemendur það góða boð.

Þátttakendur fá margvíslega fræðslu og valdeflingu sem styður þá í námi og daglegu lífi. Nemendur og foreldrar þeirra hafa greiðan aðgang að verkefnastjóra verkefnisins og geta leitað til hans með vangaveltur sínar. Þátttakendurnir skrifuðu undir samning og skuldbundu sig þannig til þátttöku í námstuðningi, viðburðum, kynningum og ferðum sem verða á dagskrá á meðan verkefnið er í gangi. Ef nemendur eru yngri en átján ára þá skrifa foreldrar þeirra einnig undir samninginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hópurinn hefur átt skemmtilegar og fróðlegar samverustundir. Knattspyrnudeild Njarðvíkur hefur boðið þátttakendum á leik í slagveðurs­rigningu en stemmningin skilaði sér til hópsins sem var vel blautur að leik loknum.

Bókasafn Reykjanesbæjar bauð hópnum í heimsókn. Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafnsins, tók á móti hópnum og afhenti öllum bókasafnskort að gjöf. Ráðhúsið var jafnframt sótt heim og tóku Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála, Helgi Arnarsson, fræðslustjóri, og Halldóra G. Jónsdóttir, aðstoðarmaður bæjarstjóra, á móti hópnum. Nemendur fengu fræðslu um þjónustu bæjarins og sundkort að gjöf frá bænum.

Þátttakendur hafa jafnframt fengið kennslu á þjóðlegum réttum. Móðir eins þátttakandans, Sinam Bapir, heimsótti hópinn og eldaði með honum kúrdískan þjóðarrétt. Skemmtileg stemmning var í hópnum og allir tóku til hendinni við matreiðsluna. Í nóvember fengu nemendur leiðsögn við að skera út laufabrauð þegar þeir heimsóttu Bryndísi Garðarsdóttur, kennara FS í íslensku sem öðru máli. Þar var mikið hlegið og prófuðu nemendur til dæmis malt og appelsín og voru nú ekki alveg sannfærðir um að drykkurinn væri ekki bjór. Þó tókst að sannfæra þau að lokum og gæddu þátttakendur sér einnig á margskonar íslensku jólanammi og piparkökum.

Ingibjörg Guðmunda Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, heimsótti hópinn og fræddi um þjónustu HSS sem var mjög gagnlegt og upplýsandi fyrir þátttakendur.

Hápunktur annarinnar var heimsókn til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, að Bessastöðum í desember. Þar fékk hópurinn höfðinglegar móttökur. Forsetinn tók á móti þeim með pönnukökum og hjónabandssælu. Auk þess var farið í jólaljósaskoðunarferð í Hellisgerði í Hafnarfirði, miðbæ Reykjavíkur og að lokum fór hópurinn saman út að borða áður en lagt var af stað heim.

Um verkefnið sér Þjóðbjörg Gunnarsdóttir, verkefnastjóri með málefnum nemenda með annað móðurmál en íslensku í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Aðrir nemendur FS með annað móðurmál en íslensku fá jafnframt stuðning frá Þjóðbjörgu þótt hann sé ekki jafn víðtækur. Suðurnesja-Spretts verkefnið er unnið í samstarfi við Reykjanesbæ, Háskóla Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningamála, er tengiliður Reykjanesbæjar við verkefnið og vinnur Kolbrún Marelsdóttir kennari við FS einnig að verkefninu.

Verkefnið fór af stað í ágúst á þessu ári og lýkur því formlega við lok vorannar 2022 en verið er að skoða þróun verkefnisins nemendum FS með annað móðurmál en íslensku til heilla. Verkefnið Suðurnesja-Sprettur er þróunarverkefni styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála sem er innan Félagsmálaráðuneytisins. Verkefnið byggir á verkefninu Sprettur í Háskóla Íslands.