Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Suðurnesin góður jarðvegur fyrir listafólk
    Aðalleikararnir skoða senu með tökumanni og leikstjóra.
  • Suðurnesin góður jarðvegur fyrir listafólk
Laugardagur 25. apríl 2015 kl. 10:00

Suðurnesin góður jarðvegur fyrir listafólk

Keflvískur verkfræðingur hætti í fastri vinnu til að sinna listagyðjunni.

Keflvíkingurinn og verkfræðingurinn Guðgeir Arngrímsson var orðinn frekar leiður á einhæfu skrifstofustarfi hjá Advania þegar vinur hans hafði samband við hann og bauð honum að gera með sér kvikmynd. Myndin er sú fyrsta sem fjármögnuð er í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund. Listagyðjan hefur lengi togað í Guðgeir, sem var liðsmaður hljómsveitarinnar Elope, þegar hann var 14 til 16 ára. Hann segir Suðurnesin góðan stað til að ala upp listafólk. 

Guðgeir er fæddur í Keflavík 1987 og bjó þar frá 6 ára til 16 ára aldurs, þegar hann flutti til Ísafjarðar. „Pabbi varð vinnslustjóri frystihússins á Þingeyri og þá flutti fjölskyldan vestur. Það var gott að búa í Keflavík, sérstaklega því þar er svo góður jarðvegur fyrir listafólk að blómstra. Ég söng og spilaði á gítar í hljómsveitinni Elope frá 14 til 16 ára. Þá kviknaði áhuginn á því að gera eitthvað óhefðbundið; elta einhvers konar drauma og gera eitthvað skapandi,“ segir Guðgeir og bætir við að hann hafi oft minnst á það við fólk hversu góð aðstaða er fyrir hljómsveitir og list almennt á Suðurnesjum. „Árangurinn er líka eftir því. Meira og minna Suðurnesjamenn eru í bestu nýju hljómsveitum á landinu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hætti við ‘réttu’ leiðina í lífinu

Snævar Sölvason leikstjóri ákvað að æða út í að gera bíómynd í fullri lengd í stað þess að slægja fisk enn eitt sumarið. „Hann byrjaði að skrifa hana vorið 2013, var búinn með eitt ár í kvikmyndaskólanum og hafði gert aðra mynd, svona upp á flippið og selt innanbæjar í Bolungarvík,“ segir Guðgeir, en þeir félagar kynntust í Menntaskólanum á Ísafirði og fóru síðar báðir í verkfræði. „Við ætluðum að fara þessa ‘réttu’ leið í lífinu; ná í góða menntun, trausta vinnu, hús og fjölskyldu. Við fundum okkur ekki í því.“

Aðalsöguhetjan Tommi eltir ástina vestur á firði.

Þriðjungur kostnaðar tryggður

Guðgeir og Snævar kláruðu handritið í sameiningu og Guðgeir gerðist meðframleiðandi í öllu ferlinu og aðstoðarleikstjóri á setti, sem er n.k. verkstjóri. „Ég sé ekki eftir því að hafa sagt upp vinnunni til að láta þennan draum rætast. Það er mjög gaman að gera eitthvað nýtt á hverjum degi og leysa öll vandamál sjálfur. Hjá Advania var mikil einhæfni og unnið eftir gæðakerfi. Mér líður líka betur í umhverfi sem er ekki staðlað.“ Myndin heitir Albatross og um þrjár vikur eru til stefnu á Karolina Fund með að fjármagna hana. Búið er að tryggja þriðjung kostnaðar en markmiðið er 20 þúsund Evrur. 

Leikstjórinn a gantast við Pálma Gestsson og Guðmund Kristjánsson milli taka. 

Strákarnir velta fyrir aðstæðum til svifvængjaflugs við gömlu ratsjárstöðina á Bolafjalli.

Ást, golf og metnaðarfullur yfirmaður

Gamanmyndin Albatross segir frá Tómasi, ungum og ástföngnum manni sem ákveður að leggja framtíðarplönin á hilluna til að elta kærustu sína vestur á firði þar sem hann ræður sig í sumarvinnu hjá Golfklúbbi Bolungarvíkur. Ekki beint það sem hann hafði hugsað sér eftir háskólanám en ástin spyr hvorki um stað né stund. Á golfvellinum í Bolungarvík kynnist hann ansi skrautlegum samstarfsmönnum og virkilega metnaðarfullum yfirmanni sem þráir ekkert heitara en að fá stórmót á golfvöllinn í Bolungarvík. Tómasi líst ekki á blikuna en gerir það fyrir hina einu sönnu. Svo dynja áföllin yfir. Með stærstu hlutverk í myndinni fara Ævar Örn Jóhannsson, Finnbogi Dagur Sigurðsson, Gunnar Kristinsson, Guðmundur Magnús Kristjánsson, Birna Hjaltalín Pálmadóttir og faðir hennar, Pálmi Gestsson. „Framleiðslan nú á lokametrunum. Öllum tökum er lokið og framundan er kostnaðarsamt eftirvinnsluferli. Ef við náum kostnaðinum með Karolina Fund verður Albatross fyrsta leikna kvikmyndin sem fjármögnuð er í gegnum síðuna,“ segir Guðgeir stoltur og hvetur alla til að elta draumastarfið. „Það er ekki auðvelt en það er einmitt þess vegna sem það er þess virði."

Hér er hlekkurinn á söfnunarsíðuna hjá Karolina Fund. 

Smákóngurinn Kjartan (Pálmi Gestsson) les yfir hausamótunum á strákunum. 

Sólin var hópnum hliðholl þetta sumarið og flestir fengu smá lit.

VF/Olga Björt