Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

  • Suðurnesin framleiða hraust ungmenni
    Í liði Holtaskóla kepptu þau: Katla Björk Ketilsdóttir, Sunna Líf Zan Bergþórsdóttir, Halldór Berg Halldórsson, Stefán Pétursson, Elsa Albertsdóttir og Gunnólfur Guðlaugsson. Þjálfarar liðsins eru þeir Bergþór Magnússon og Einar Einarsson, íþróttakennarar
  • Suðurnesin framleiða hraust ungmenni
    Stóru Vogaskóli: Gunnlaugur Atli Kristinsson og Eydís Ósk Símonardóttir hraðaþraut, Phatsakorn Lomain (Nikki), upphýfingar og dýfur. Helena Gísladóttir, armbeygjur og hreystigreyp. Jón Gestur Birgisson, varamaður hraðaþraut, upphýfingar og dýfa. Rut Sigurðardóttir varamaður hraðaþraut. Thelma Mist Oddsdóttir, varamaður, armbeygjur og hreystigreyp
Sunnudagur 1. maí 2016 kl. 08:14

Suðurnesin framleiða hraust ungmenni

Ótrúlegur árangur í Skólahreysti þar sem Holtaskóli sigrar í fimmta sinn á sex árum - Stóru-Vogaskóli öllum að óvörum í þriðja sæti

Það fer orðið að vanta veggpláss í sal Holtaskóla vegna þess að risastórar ávísanir þekja orðið alla veggi eftir ótrúlega sigurgöngu skólans í Skólahreysti síðustu ár. Holtaskóli fagnaði á dögunum sigri í keppninni annað árið í röð og í fimmta skipti á síðustu sex árum. Þegar ekki vannst sigur þá hafnaði liði í öðru sæti. Það er magnaður árangur, sérstaklega ef litið er til þess að liðið sjálft breytist yfirleitt mikið á milli ára.

Holta­skóli fékk 63,5 stig í keppn­inni og 250 þúsund krón­ur í verðlauna­fé frá Lands­bank­an­um. Tólf stig eru gefin fyrir sigur í hverri þraut en fyrir sigur í tímaþrautinni fást 24 stig. Holtaskóli vann sigur í armbeygjum og hafnaði í öðru sæti í hreystigreip. Annað sætið náðist í upphýfingum, þriðja sætið í dýfum og sömuleiðis í hraðaþrautinni.

Public deli
Public deli

Ekki síður vakti árangur Stóru-Vogaskóla mikla athygli en öllum að óvörum náðu þau þriðja sætinu með 49,5 stig. Stóru-Vogaskóli fagnaði sigri í hreystigreipinni. Fjórða sætið náðist í hraðaþraut og dýfum. Fimmta sætið í upphýfingum en í armbeygjum varð liðið næstneðst.

Áhuginn í fyrirrúmi

„Ég fer nú ekki að uppljóstra því, þetta er jú leyndarmál,“ segir Bergþór Magnússon, íþróttakennari í Holtaskóla léttur í bragði aðspurður um það hvernig þau í skólanum fari að því sigra í keppninni ár eftir ár. „Við æfum mikið og grimmt. Við höfum stjórnendur sem eru virkir og hjálpsamir í þessu og það er tekið vel á þessu. Áhuginn er í fyrirrúmi.“

Það fara miklar pælingar í það að setja saman gott lið og fylgst er með efnilegum keppendum frá unga aldri. Frá áttunda bekk er svo hægt að velja Skólahreysti sem valfag og er það vinsælt meðal nemenda. „Við erum heppin að vera hér með gott íþróttafólk og við erum með krakka sem hafa mikinn metnað. Þau vilja gera vel og leggja mikið á sig.“ Í liðinu núna eru krakkar úr öllum áttum, fótbolta, körfubolta, fimleikum, hnefaleikum og Crossfit. Bergþór er nú ekki á því að Holtaskóli muni einoka keppnina, aðrir hljóti að koma sterkir inn. Hann segist ekki geta lagt mat á það hvort skólar annars staðar á landinu séu ekki að leggja sama metnað og Suðurnesjaskólarnir í keppnina. „Því miður veit ég ekki hvað aðrir skólar eru að gera. Ég veit hvað við erum að gera, og það virkar. Maður hefur þó heyrt það að sum bæjarfélög leggi ekki eins mikið upp úr þessu eins og önnur.“ Holtaskóli er nú orðinn landsþekktur eftir þennan árangur í keppninni, eins og Suðurnesin öll reyndar.
„Þetta er mikil upphefð fyrir skólann. Skólinn er orðinn frægur fyrir Skólahreysti, líka margt annað. Við erum að ná góðum árangri í sundi og námi,“ segir Bergþór að lokum.
Mikið stress og adrenalínið í botni

„Það er orðin svolítil pressa á að sigra í keppninni, hún eykst bara milli ára,“ segir Katla Björk Ketilsdóttir úr liði Holtaskóla, en hún keppti bæði í armbeygjum og hreystigreipinni. Hún æfir bæði fimleika og crossfit. Hún segir að fyrir vikið auki það á metnað nemenda sem setji markið hátt. Katla segir að til að byrja með hafi liðið æft í valtímunum en síðar hafi sund- og leikfimitímar verið nýttir til frekari æfinga. Katla segir að finna megi ríg á milli skóla þegar kemur að Skólahreysti, þá sérstaklega á milli Holtaskóla og Heiðarskóla.
Í úrslitakeppninni sjálfri er mikið undir. Laugardalshöllin er full af áhorfendum, eins sem þjóðin fylgist með beinni útsendingu á RÚV. „Þetta er mjög mikið stress. Adrenalínið er þó í botni og það hjálpar til.“ Katla sigraði í armbeygjunum þar sem hún tók heilar 54 armbeygjur. Hún varð svo önnur í hreystigreip, þar sem hún hékk 5:26 mínútur. Þar varð Vogabúinn Helena Gísladóttir hlutskörpust en hún hékk sex sekúndum lengur á slánni.

Ekki margir á ferðinni í Vogum

Stóru-Vogaskóli, sem náði inn sem efsta liðið í öðru sæti í riðlakeppninni, nældi í þriðja sætið í úrslitum, en það er lygilegur árangur hjá sveitafélagi sem telur um 1200 íbúa. Hálfdán Þorsteinsson, aðstoðarskólastjóri Stóru-Vogaskóla, var skiljanlega hæstánægður með árangurinn eins og flestir bæjarbúar Voga. „Þetta hafði alveg gríðarlega jákvæð áhrif á sveitarfélagið og við erum búin að finna mikla hvatningu á samfélagsmiðlum. Ég er viss um að það hafa ekki verið margir á ferðinni þegar keppnin var í gangi, það voru allir að horfa á sjónvarpið,“ segir Hálfdán.

Spurður um útskýringar á árangrinum þá sagði Háldán að fyrst og fremst væri hann að þakka þrautseigju krakkanna. Þau hafi verið gríðarlega einbeitt og lagt sig fram. „Það er bara einn sem er í íþróttum en hin í liðinu fundu sig vel í þessu.“ Það er nokkuð magnað að aðeins eru um 40 nemendur í 9. og 10 bekk í Stóru-Vogaskóla og því er úrtakið ekki mjög stórt. Fyrir þrjá elstu bekkina er sérstakt Skólahreystival en 10 nemendur stunduðu það val í vetur. Krakkarnir sem eru í þessu núna eru mikið keppnisfólk, hafa metnað bæði í námi og íþróttum að sögn Hálfdáns. Hann segir allan skólann hafa verið samstíga í undirbúningi keppninnar. „Ég minnist þess að það var lítið um agavandamál vikuna sem keppnin fór fram. Það var bara stemning og spenningur.“ Hálfdán segir að árangur skólanna úr Reykjanesbæ í keppninni hafi verið Vogabúum mikil hvatning. Til stendur að koma með sterkt lið á næsta ári og gera jafnvel enn betur. „Liðið í ár er þegar byrjað að þjálfa upp næstu keppendur. Það er kraftur í krökkunum og þau eru farin að huga að því að undirbúa sig. Það er alltaf stefnt á að gera betur.“

Merkasti íþróttaáfangi Voganna?


Gunnlaugur Atli Kristinsson stóð sig frábærlega í hraðaþrautinni fyrir Stóru-Vogaskóla. Hann segir það hafa verið frábært að mæta í skólann eftir keppnina. Bæjarfélagið fór hálfpartinn á hliðina. „Á Facebook og netinu var allt vitlaust og mikið af hamingjuóskum.“ Hann viðurkennir að þau hafi ekki búist við þessum árangri í úrslitum eftir að hafa naumlega komist upp úr riðlinum. „Við bjuggumst alls ekki við þessu. Við fögnuðum þessu eins og við hefðum unnið meistaradeildina í fótbolta.“ Gunnlaugur æfir fótbolta, en hann er sá eini í liðinu sem æfir íþróttir. Metnaðurinn er þó gríðarlegur. „Við vorum á fullu í páskafríinu að æfa og allt að fjórum sinnum í viku í skólanum. Ég er bara í fótboltanum en hin eru öll bara náttúrutalent held ég.“ Fréttamaður fleygir því fram að líklega sé þetta stærsta íþróttaafrek Vogabúa, með fullri virðingu fyrir árangri Þróttara í fótboltanum. „Jú þetta er líklega stærra,“ segir Gunnlaugur sem segir að nú sé það í höndum næstu keppenda að gera betur á næsta ári en flestir úr liðinu eru að fara í framhaldsskóla.