Suðurnesin eru á miklum vendipunkti
„Tækifærin sem snúa að styrkleikum og elju mannauðsins sem við búum yfir, uppbyggingu sveitarfélaganna okkar og nálægðin við flugstöðina,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, FKA kona mánaðarins þegar hún er spurð út í kosti þess að búa á Suðurnesjum. Guðný er fædd í Keflavík og var þar fyrstu 24 ár en hefur síðustu sextán búið í Njarðvík.
Nafn: Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Aldur: 40 ára.
Menntun: BS-gráða í hjúkrunarfræði, MPa í opinberri stjórnsýslu og
MBA í viðskiptum og stjórnun.
Við hvað starfar þú og hvar?
Ég starfa sem bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.
Hver eru helstu verkefni?
Út frá starfi mínu hjá Reykjanesbæ er ég í nefndum og ráðum fyrir sveitarfélagið. Ég er varaforseti bæjarstjórnar, stjórnarformaður HS Veitna, formaður fræðsluráðs Reykjanesbæjar og varaformaður í stjórn Samtaka orkusveitarfélaga. Auk þess er ég í stjórn FKA Suðurnes og var þar fyrsti formaðurinn ásamt því að stofna félagið ásamt núverandi formanni, Fidu Abu Libdeh.
Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt? Starf á vegum sveitarfélags sem þú býrð í og hefur alist upp í er mjög gefandi. Þetta er umfangsmikið starf og getur verið snúið að takast á við verkefni líkt og uppbyggingu og þjónustu sér í lagi í ört stækkandi sveitarfélagi eins og Reykjanesbær er.
Eitthvað áhugavert sem þú ert að gera? Fullt af spennandi verkefnum framundan; uppbygging í tengslum við stækkun Keflavíkurflugvallar, uppbygging rafbílavæðingu, uppbygging á nýjum leikskólum, bæði í Innri-Njarðvík og í Hlíðarhverfi Keflavíkur, breytingar í úrgangsmálum, bygging á nýju hjúkrunarheimili og svo má lengi áfram telja.
Hvað hefur þú verið að gera, hvað ertu að gera núna, framtíðarplön (svolítið sagan þín)? Þessa dagana eru sveitastjórnarmálin fyrirferðarmikil en fjárhagsáætlunarvinna okkar er nýafstaðin. Framtíðarplön eru að halda áfram í mínum verkefnum þar sem stefnumótun og uppbygging einkennir mín störf, hjá Reykjanesbæ og hjá FKA Suðurnes sem hefur gengið vonum framar.
Reynsla: Starf mitt sem hjúkrunarfræðingur var á þann veg að lengst af starfaði ég á HSS þar sem ég var deildarstjóri á bráðamóttöku. Eftir það fór ég í MBA-nám en hóf svo störf sem hjúkrunarstjóri hjá Reykjavíkurborg. Ég hef verið bæjarfulltrúi fyrir Reykjanesbæ í níu ár.
Hversu lengi hefur þú búið á Suðurnesjum? Alla mína ævi. Var Keflvíkingur fyrstu 24 árin en hef búið í Njarðvík síðustu sextán ár.
Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum? Nálægðin og nándin. Tækifærin sem snúa að styrkleikum og elju mannauðsins sem við búum yfir, uppbyggingu sveitarfélaganna okkar og nálægðin við flugstöðina. Tækifærin liggja einnig í að horfa til nýsköpunar og annarra atvinnuvega. Nýsköpun ætti að vera rauði þráðurinn í stefnumótun Suðurnesja til framtíðar þar sem áhersla ætti að vera á að laða til okkar og stuðla að uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Horfa ætti sérstaklega í styrk og þátttöku kvenna en þar getur FKA Suðurnes myndað tengslanet með tengingu kvenna á svæðinu og komið hugmyndum þeirra á framfæri.
Hvernig líst þér á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes? Mér finnst FKA Suðurnes frábært félag sem vettvangur samstarfs kvenna. Árið 2021 skráði ég mig í FKA aðalfélagið sem er frábært og mikið af nefndum og atburðum í boði innan þess. Verandi kona á Suðurnesjum með nær engan frítíma velti ég þó fyrir mér hvort ekki væri hægt að flytja félagið nær okkur. FKA var með aðrar landsbyggðadeildir og því fór það svo að við sendum inn formlega beiðni um stofnun FKA Suðurnes en félagið varð eins árs í nóvember síðastliðnum. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa en fjöldi skráðra kvenna á Suðurnesjum hefur aukist úr tæplega 20 konum í tæplega 70 konur sem er virkilega gleðilegt.
Hvað varð til þess að þú skráðir þig í FKA? Mig langaði aðallega að rækta tengslanet við aðrar konur í samfélaginu, sér í lagi konur sem væru í svipuðum störfum og verkefnum.
Hvað finnst þér FKA gera fyrir þig?
FKA er frábær vettvangur kvenna til að læra af hver annarri. FKA hefur gert mikið fyrir mig, komið mér á vettvang til að efla mig og aðrar konur og stuðlað að því að konur verði meira áberandi í fyrirtækjum, stjórnum og í ákvarðanatöku í samfélaginu okkar.
Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum? Suðurnesin eru á miklum vendipunkti og verður næstu ár þar sem uppbygging og verðmætasköpun verða í öndvegi. Við þurfum að grípa það tækifæri og hlúa og laða til okkar fyrirtæki sem munu taka þátt í þeirri vegferð. Atvinnuþátttaka kvenna ásamt fyrirtækjum þeirra, hugviti og nýsköpun mun skipta veglegu máli í þeirri vegferð. Við á Suðurnesjum störfum mikið í kringum þjónustu og ferðamennsku sem er klárlega tækifæri hjá okkar en ásamt því er mjög mikilvægt að hlúa einnig að uppbyggingu annarra atvinnuvega til að atvinnulífið okkar verði ekki einhæft. Við ættum að leggja ríka áherslu á konur og nýsköpun í þessu samhengi, Suðurnesin ættu klárlega að setja sér markmið um að vera nýsköpunarbær Íslands.