Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Suðupottur menningar í Grindavík
  • Suðupottur menningar í Grindavík
    Þorsteinn Gunnarsson
Miðvikudagur 5. mars 2014 kl. 10:16

Suðupottur menningar í Grindavík

– í tilefni 40 ára kaupstaðarafmælis

Menningarvika Grindavíkur verður dagana 14.-23. mars nk. Hún er nú haldin í sjötta sinn og er sérlega glæsileg í ár í tilefni 40 ára kaupstaðarafmælis Grindavíkurbæjar.

„Það er frábær stemmning fyrir Menningarvikunni okkar í ár og tilkynningum um viðburði hefur rignt inn. Hér verður suðupottur menningar með tónleikaveislu, ljósmynda- og myndlistasýningum, námskeiðum, skipulögðum gönguferðum og ýmsu fleiru. Hápunkturinn eru svo stórtónleikar í íþróttahúsinu laugardaginn 22. mars þar sem Jónas Sig, Fjallabræður og Lúðrasveitir Vestmannaeyja og Þorlákshafnar stíga á stokk,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar.

Á meðal gesta í Menningarvikunni verður tónlistarfólk frá Pite, vinabæ Grindavíkurbæjar í Svíþjóð. Jafnframt verða færeyskir gestir og margt af fremsta tónlistarfólki landsins kemur í heimsókn eins og Pálmi Gunnarsson og Magnús Eiríksson. Grindvískt listafólk verður í öndvegi. Þar má nefna glæsilegar ljósmyndasýningar og málverkasýningar, sérstakt Grindavíkurkvöld með grindvísku listafólki og hljómsveitarkvöld með grindvískum hljómsveitum.

„Við setningu menningarvikunnar verður í fyrsta skipti útnefndur Bæjarlistamaður Grindavíkur. Eftir setninguna er gestum boðið í safnaðarheimilið í FJÖLMENNINGARLEGT VEISLUHLAÐBORÐ. Grindvískir íbúar frá Filippseyjum, Tælandi, Póllandi og fyrrum Júgóslavíu kynna og bjóða upp á rétti frá sínum heimalöndum,“ segir Þorsteinn.

Auk þessa verður námskeið í sushi, saltfiskuppskriftarkeppni, stórmeistari í skák verður með fjöltefli, málþing um ábyrga nýtingu auðlinda, námskeið í menningarlæsi, sýning á traktors- og bílasafni Hermanns Th. Ólafssonar í Stakkavík, svo eitthvað sé nefnt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024