Styttist óðum í nýju Ljónagryfjuna
Íþróttahúsið í Stapaskóla við það að verða tilbúið
Frágangur við íþróttahúsið í Stapaskóla og tilvonandi heimavöll körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur er á lokametrunum og Ungmennafélaginu Njarðvík verður afhent lyklavöldin að húsinu í september, þá verður einnig hægt að nýta húsnæðið til íþróttakennslu að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar.
„Við erum að stefna á öryggisúttekt á fyrsta áfanga þann 30. ágúst. Það er sem sagt íþróttahúsið, inngangurinn og allir búningsklefar, uppi og niðri. Þetta er í raun allt nema sundlaugin og utanhússfrágangur. Næsta dagsetning hjá ÍAV er 31. október, þá verður búið að fullklára restina. Það er þá sundlaugin, klæðningin að utan og frágangur á lóð,“ segir Guðlaugur í samtali við Víkurfréttir.
„Þennan föstudag, 30. ágúst, stefnum við á að fá úttekt og notkunarheimild á salinn en við misstum af glugga til að fá þá sem línumerkja vellina á gólfið, það er svo fámenn stétt og með allt undir á sama tíma og þess vegna misstum við þá frá okkur.“
Afhenda lyklavöldin 15. september
Guðlaugur segir að um leið og búið er að taka út salinn og fá notkunarheimild þú munu þeir mæta og merkja fyrir völlum. „Svo koma áhorfendabekkirnir 12. ágúst á svæðið og það tekur tvær vikur að setja þá upp. Þannig að við erum að sjá fyrir okkur að byrja að nota salinn 15. september fyrir skólaíþróttir og æfingar.“
Búið er að leggja parket á gólfið, búið að setja upp allar körfur, hljóðkerfi og stigatöflur en Guðlaugur segir að engum verði hleypt inn í húsið fyrr en allt er fullklárað.
„Njarðvíkingar þurfa að sjálfsögðu tíma til að koma sér fyrir og undirbúa fyrir keppnishald, setja upp sjoppu og gera allskonar hliðarrými klár. Þeir geta byrjað að vinna í þeim málum þegar notkunarheimild hefur verið fengin.“
Hvað verður um Ljónagryfjuna?
„Ætli hún verði ekki notuð fyrir æfingar og auðvitað skólaíþróttir. Skrifstofur Njarðvíkur koma til með að flytjast í Stapaskóla, það er allavega gert ráð fyrir því. Njarðvík er auðvitað með skrifstofur í Ljónagryfjunni, hvort þeir vilji nota báðar er opið,“ sagði Guðlaugur að lokum.