Styttist í stórtónleika Kristjáns: Hljómurinn í Stapanum er frábær - segir Jóhann Smári
„Það er ekki sjálfgefið að söngvarar á borð við Kristján Jóhannsson syngi á Suðurnesjum. Ég er mjög stoltur að fá að taka þátt í þessum stórtónleikum og vera einn af söngvinum hans,“ segir Jóhann Smári Sævarsson, einn af stórsöngvurum okkar Suðurnesjamanna um tónleikana í Stapa næsta laugardag.
„Þetta er í fyrsta skipti í nær tuttugu ár sem svona stórtónleikar eru haldnir á Suðurnesjum, með hópi okkar bestu söngvara með hljómsveit Hjörleifs Valssonar, þeirri bestu hér á landi,“ sagði Jóhann Smári sem segist hlakka til að syngja í ný uppgerðum Stapa.
Jóhann Smári var með sama kennara og Kristján Jóhannsson, sjálfan Sigurð Dementz. Hann segir að breytingarnar á Stapanum hafi tekist frábærlega. „Þetta er alger snilld, húsið er frábært til tónleikahalds, hljómurinn er ótrúlega góður. Þá er flygillinn einn sá besti á landinu. Ég er mjög spenntur að heyra hvernig þetta er á svona stórtónleikum með hljómsveit“.
Jóhann Smári er í hópi atvinnusöngvara á tónleikum Kristjáns. Aðrir, auk Kristjáns eru Diddú, Gissur Páll Gissurarson og Hulda Björk Garðarsdóttir. Svo koma söngnemendur Kristjáns, m.a. Suðurnesjamaðurinn Rúnar Þór Guðmundsson sem fær tækifæri til að koma fram með þessu „landsliði“.
Tónleikarnir verða sem fyrr segir í nýjum Stapa nk. laugardag 27. mars kl.17. Miðasala fer fram á midi.is. Smellið hér til að panta miða.
Kristján Jóhannsson og Rúnar Þór Guðmundsson slógu í gegn á Aðventutónleikum í Keflavíkurkirkju í des. sl.