Styttist í Sjóarann síkáta
Dagskráin er óðum að taka á sig mynd og að sögn Þorsteins Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Grindavíkurbæjar, hefur hún líklega aldrei verið glæsilegri.
„Við verðum með landslið skemmtikrafta. Hátíðin hefst með skemmtilegum tónleikum með Magga Eiríks og KK og þá verður hljómsveitin Skálmöld einnig með tónleika þetta kvöld. Bubbi Morthens verður með tónleika, Páll Óskar verður á bryggjuballinu ásamt Rokkabillýbandi Matta Matt þar sem Helgi Björns verður sérlegur gestur. Skítamórall verður með ball, svo eitthvað sé nefnt. Sem fyrr leggjum við upp úr fjölbreyttri fjölskyldudagskrá alla helgina sem nær hámarki á sunnudeginum, sjálfum Sjómannadeginum. Það besta við þessa bæjarhátíð okkar Grindvíkinga að mínu mati er hversu margir koma að henni og bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilegra viðburði til heiðurs íslenska sjómanninum og fjölskyldu hans," segir Þorsteinn.
Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur kemur myndarlega að hátíðinni, sérstaklega á Sjómannadeginum sjálfum þar sem verða heiðursviðurkenningar og kappróður og margt fleira. Fimmta árið í röð er svo bænum skipt upp í fjögur litahverfi og síðan verður litaskrúðganga á föstudagskvöldinu úr hverfunum fjórum að hátíðarsvæðinu við Kvikuna þar sem verður hefðbundið bryggjuball. Grindvíkingar hafa skreytt bæinn sinn hátt og lágt og tekið virkan þátt í hátíðarhöldunum.
Fyrir yngri kynslóðina verða ýmis skemmtileg dagskráratriði eins og dorgveiðikeppni sem nýtur mikilla vinsælda, Brúðubíllinn sívinsæli, Skoppa og Skrítla, skemmtisigling fyrir alla fjölskylduna, töframaður, sjópulsan vinsæla verður í höfninni, hægt að fá reiðtúr með mótorhjóli, fara á hestbak, Vatnaboltar, sprellleiktæki, hoppikastalar og trúðar verða á svæðinu og margt fleira. Þá verður keppnin Sterkasti maður á Íslandi á sínum stað en hún hefur notið mikilla vinsælda.
„Við reynum að bæta umgjörð hátíðarinnar á hverju ári í samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem koma að undirbúningi hennar á hverju ári. Við vonumst auðvitað til að fá sem flesta gesti í heimsókn," segir Þorsteinn og bendir á að nóg pláss sé á glæsilegu tjaldsvæði í bænum.
Margt fleira er á boðstólum í Grindavík alla Sjómannadagshelgina. Dagskráin verður gefin út í heild sinni 22. maí. Allar helstu upplýsingar um hátíðina er hægt að nálgast á www.sjoarinnsikati.is.