Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 7. ágúst 2002 kl. 13:15

Styttist í kántríhátíð í Stapanum

Hljómsveitin Gis and the Big City mun leika á kántríhátíð í Stapanum laugardaginn 10. ágúst n.k. en þeir hafa undanfarnar vikur verið að leggja land undir fót og spilað á hinum ýmsu stöðum. Það sem er kannski hvað sérstakast við þessa hljómsveit er það að aðalnúmer hennar er Íslendingurinn Gísli Már Jónsson. Hann semur lögin og textana og spilar á gítar en þess má geta að hann er sprenglærður í klassískri músík. Í samtali við Víkurfréttir sagði Gísli að viðtökurnar sem hann og hljómsveitin hefðu fengið um allt land væru frábærar.
„Í fyrsta lagi á ég ekki orð til að lýsa þeim frábæru viðtökum sem mér hafa verið sýndar síðan ég kom til Íslands þann 25. júlí. Ég var búinn að segja strákunum í Big City að búa sig undir starandi augu fólks sem ekki mundi vita hvernig ætti að bregðast við þessu kántrý og í versta falli að þeir yrðu að verjast tómötunum eftir bestu getu. Þeir Steve Ebner, trommari, Jere Mendelsohn, gítarleikari og Brian Netzley bassaleikari, létu þessi orð sér vel falla og sögðust vera tilbúnir í slaginn óhræddir. Það má reyndar með sanni segja að þetta viðhorf einkenni tónlistina sem ég er að flytja ásamt Big City. Við erum óhræddir að sýna hvað okkur finnst gaman að spila þessa tegund tónlistar. Til allrar hamingju er alltaf stuð á stöðunum þar sem við spilum, en jafnvel þótt svo væri ekki mundum við alltaf hafa gaman að því“.
Gis and the Big City hafa vakið mikla lukku hvar sem þeir hafa komið en þeir hafa m.a. verið á Players í Kópavogi, Gauk á stöng og um Verslunarmannahelgina voru þeir á Skagaströnd þar sem Gísli hitti Hallbjörn Hjartarson, kónginn sjálfan. Hljómsveitn mun spila eins og áður sagði í Stapanum 10. ágúst og er Gísli farinn að hlakka mikið til að spila þar. „Við ætlum að kántrýrokka framundir rauðan morgunn, eða þangað til okkur verður hent út. Þegar við erum á annað borð komnir í stuð, þá erum við óstöðvandi! Ég vonast til að sjá sem flesta heimamenn, og að þetta lokagigg mitt á Íslandi í bili verði eins frábært og öll hin hafa verið. Ég er reyndar ekki í neinum vafa um það“, sagði þessi eldhressi kúreki að lokum.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024