Mannlíf

Styttist í frumsýningu Dýranna í Hálsaskógi
Mikki refur mætir í bakaríið.
Fimmtudagur 19. október 2017 kl. 12:34

Styttist í frumsýningu Dýranna í Hálsaskógi

Stífar æfingar eru þessa dagana hjá Leikfélagi Keflavíkur en stefnt er að því að frumsýna Dýrin í Hálsaskógi þann 3. nóvember næstkomandi í Frumleikhúsinu. Gunnar Helgason leikstýrir verkinu, en hann stýrði einnig Ávaxtakörfunni hjá félaginu árið 2014.

Guðlaugur Ómar Guðmundsson, sem fer með hlutverk Mikka refs í sýningunni, segir að fram að frumsýningu séu stífar æfingar og framkvæmdir. Þá segist hann vera orðinn nokkuð vanur því að leika vonda gæjann, en hann fór einnig með hlutverk plöntunnar í síðasta verki Leikfélagsins, Litlu Hryllingsbúðinni. „Mikki refur er hrekkjusvín sem gerir öðrum í Hálsaskógi lífið leitt. En hann getur þó verið blíður og ljúfur líka. Ég held að þessi sýning eigi eftir að höfða til allra.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sýningarplan verður tilkynnt í næstu viku, en miðaverð er 2.500 krónur og gert er ráð fyrir því að sýna út nóvember. Fyrir þá sem nota Snapchat er hægt að fylgjast með á „leikfelagkef“.

Meðfylgjandi myndir tóku Víkurfréttir á æfingu í gær.

Dýrin í Hálsaskógi