Styttist í frumsýningu Dýranna í Hálsaskógi
Stífar æfingar eru þessa dagana hjá Leikfélagi Keflavíkur en stefnt er að því að frumsýna Dýrin í Hálsaskógi þann 3. nóvember næstkomandi í Frumleikhúsinu. Gunnar Helgason leikstýrir verkinu, en hann stýrði einnig Ávaxtakörfunni hjá félaginu árið 2014.
Guðlaugur Ómar Guðmundsson, sem fer með hlutverk Mikka refs í sýningunni, segir að fram að frumsýningu séu stífar æfingar og framkvæmdir. Þá segist hann vera orðinn nokkuð vanur því að leika vonda gæjann, en hann fór einnig með hlutverk plöntunnar í síðasta verki Leikfélagsins, Litlu Hryllingsbúðinni. „Mikki refur er hrekkjusvín sem gerir öðrum í Hálsaskógi lífið leitt. En hann getur þó verið blíður og ljúfur líka. Ég held að þessi sýning eigi eftir að höfða til allra.“
Sýningarplan verður tilkynnt í næstu viku, en miðaverð er 2.500 krónur og gert er ráð fyrir því að sýna út nóvember. Fyrir þá sem nota Snapchat er hægt að fylgjast með á „leikfelagkef“.
Meðfylgjandi myndir tóku Víkurfréttir á æfingu í gær.