Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Stytta af Manga á Mel
Föstudagur 15. ágúst 2014 kl. 15:00

Stytta af Manga á Mel

– viðtal eftir Guðmund í Garðinum

Fyrr í sumar auglýsti Heklan eftir bloggurum sem hafa áhuga á því að kynna Reykjanes og það sem Suðurnesjamenn eru að gera í samfélagsmiðlum.

Nokkrir pennar hafa tekið við sér og eru farnir að blogga eða setja inn myndir af Reykjanesi.

Miðlarnir sem hægt er nota eru fjölbreyttir s.s. tumblr, twitter, instagram, pinterest, flickr, youtube og vimeo. Hægt er að velja einn miðil eða fleiri.

Einn af þeim er Guðmundur Magnússon, Guðmundur úr Garðinum. Hér er nýjasti pistillinn hans.

Sú hugmynd kom upp sumarið 2013 hjá stjórnarmönnum Hollvina Unu í Sjólyst að láta gera sculpture/myndastyttu af sjómanni og setja á klöppina niður við Gerðavör. Þar mun sjórinn brjóta á styttunni í mesta briminu á táknrænan hátt. Þetta verk á að vera til minningar um þann fjölda sjómanna sem hafa drukknað héðan úr Garðinum.

Stjórninni fannst tilvalið að styttan væri af hinum kunna Garðmanni Manga á Mel, sem stundaði sjómennsku í 70 ár. Hugmyndin var rædd við Helga Valdimarsson myndlistamann, sem gert hefur styttur sem hafa vakið jákvæða athygli og sett skemmtilegan svip á Garðinn. Helga leist vel á hugmyndina og er styttan nú uppsett á klöppunum. Sveitarfélagið Garður kostar
verkefnið.

Styttan af Manga á Mel er sculpture (smækkuð mynd) unnin úr steinsteypu með akril blöndu, byggð upp með kambstáli og meðhöndluð með regnvara. Hún er máluð með vatnsþolinni málningu. Styttan er steypt ofan á klöpp við Gerðavör og múrboltuð niður og er ætlað að þola mikinn sjógang.

Mangi á Mel

Mangi á Mel var þrekvaxinn maður og minnisstæður þeim sem hann sáu. Hann hét fullu nafni Magnús Tobíasson (f.1865-d.1956) og kom frá bænum Mel á Akranesi og var kenndur við þann bæ alla tíð. Lengst af bjó Mangi í torfbænum Eiði í Garði, skammt frá Skeggjastöðum. Mangi var einn af okkar bestu sjómönnum á tímum opnu skipanna og lengst af réri hann með Árna Boga. Hann var svo forn í háttum að hann gekk á skinnskóm þó það tíðkaðist ekki lengur. Mangi var mjög barngóður og var fjölskylduvinur margra í Garðinum.

Mangi réri síðustu árin sín einn á báti úr Gerðavör og var einn sá síðasti sem notaði eingöngu árar og segl til sjósóknar frá Suðurnesjum. Styttan af Manga á Mel mun án efa vekja mikla athygli og ekki síst vegna staðsetningarinnar. Hugmyndin er svo að setja skilti á fjörukambinn, með sögu Manga á Mel og þeim fáu myndum sem til eru af honum. Mikilvægt er að minningu
hans sé haldið á lofti og ímynd hans fái að lifa og minni okkur á þann fjölda sem ekki komst af í harðri báráttu sjómannsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024