Styrktartónleikar fyrir Gunnar Inga og fjölskyldu
Styrktartónleikar verða haldnir í félagsheimilinu í Sandgerði í kvöld. Þar koma saman tónlistarmenn, bæði heimamenn og utanbæjarmenn, til styrktar Gunnari Inga Ingimundarsyni og fjölskyldu hans, en Gunnar greindist með bráðahvítblæði í maímánuði 2006.
Gunnar á fjögur börn, en 17 ára dóttir hans, Sara María, stendur fyrir tónleikunum. Þegar Gunnar veiktist var hann sjálfstætt starfandi og hafa veikindin haft mikil áhrif á hag fjöskyldunnar. Álag vegna baráttunnar er nóg þó ekki komi til áhyggjur af fjárhagnum og er öll hjálp vel þegin. Aðgangseyrir inn á tónleikana er 1200 krónur, en frítt er fyrir 10 ára og yngri. Þar koma m.a. fram Rúnar Júlíusson, Hörður Torfason, Halli Valli og Gugga, Fríða úr Klassart og Finnbjörn, Elvar og Heiða, Matti Óla og Hobbitarnir.
Auk þess hafa fleiri aðilar lagt hönd á bagga í söfnuninni, en það eru Glitnir, Bílahorn Sissa, Sparisjóðurinn í Keflavík, Prax, Samkaup, Nú-ung, Bónus, Shellskálinn í Sandgerði, Toyotasalurinn í Reykjanesbæ og Grundarás.
Eins og áður sagði er aðgangseyrir 1200 kr. sem er ekki mikið fyrir svo glæsilega dagskrá, en einnig verður selt kaffi og kleinur á tónleikunum. Húsið opnar kl. 20.
Þeir sem eiga ekki heimangengt geta sýnt stuðning sinn í verki með því að leggja inn á styrktarreikninginn 1190-05-4754, kt: 530206-1730.