Styrktarhlaup fyrir veikan bekkjarbróður
Guðmundur Þór Jóhannsson, nemandi í 8. bekk Njarðvíkurskóla, greindist með krabbamein í lifur nú skömmu eftir áramótin. Hann hefur síðan þá verið í
lyfjameðferð og ekkert getað stundað skólann. Eins og gefur að skilja er þetta mikið áfall fyrir 14 ára gamlan dreng og fjölskyldu hans.
Bekkjarsystkini Guðmundar efna á fimmtudaginn til styrktarhlaups þar sem allir nemendur skólans og starfsmenn hlaupa hringinn í kringum skrúðgarðinn í 15 - 20 mínútur. Hringirnir verða taldir og heitið á fyrirtæki í bænum að leggja fram tiltekna upphæð fyrir hvern hlaupinn hring.
Krakkarnir vonast til að sem flest fyrirtæki sjái sér fært að styrkja gott málefni.
Stofnaður hefur verið styrktarreikningur í Sparisjóðnum til þess að létta undir með Guðmundi og fjölskyldu hans. Reikningsnúmerið er 1191-05-401825 og kennitalan 180195-3789.
--
Mynd/elg: Það er greinilega mikill kærleikur í Njarðvíkurskóla eins sést á þessari mynd sem tekin var í vetur þegar nemendur föðmuðu skólann sinn.